06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. 4. þm. Austf. til hamingju með að hafa fengið nýjan ráðgjafa, sem ég veit, að mun duga honum vel í blíðu og stríðu.

En um þessa fsp., sem er svo hljóðandi: „Hverjar eru áætlanir um lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis samkv. l. nr. 58 frá 30. apríl 19737“ — er það að segja um útvegun fjármagns samkv. þessum l., að þar er í raun og veru um sama heildarmálið að ræða og ég ræddi í mínu fyrra svari, og ég get í raun og veru lítið annað gert en vísa til þess. Ég vil taka þennan vanda, sem er í húsnæðismálunum, sem einn vanda, bæði hvað viðkemur fé til þessarar sérstöku starfsemi og annarrar byggingarstarfsemi, sem fram fer á vegum húsnæðismálastjórnar. Þessi heildarvandi er að minni ágiskun, og er þar stuðst nokkuð við álit sérfræðinga, sú upphæð, sem ég nefndi áðan og ég álít ekkert sérstakt þrekvirki að ná inn. En ég tel víst, að varðandi fjáröflun til Byggingarsjóðsins, m.a. í sambandi við byggingu þessara leiguíbúða, verði að leita til fjárveitingavaldsins, og munu verða lagðar innan tíðar till. þar að lútandi fyrir Alþ. Hitt þarf ekkert að undrast, að þegar verkalýðshreyfingin hefur óskað sérstaklega eftir því, að húsnæðismálin væru tekin til umr. í sambandi við núv. samninga, þá sé haft samráð við hana af hálfu ríkisstj., m. a. um fjáröflunina, og einnig vegna þess, að þar er um þann aðilann að ræða, sem hefur yfir stórkostlegu fjármagni að ráða, ef hann vill beita því í þágu þessa málefnis.

Ég vil segja það, þar sem hv. fyrirspyrjandi vitnar í mig, að ég hafi sagt á húsnæðismálaráðstefnu á Dalvík, að bygging leiguíbúða mundi hafa forgang, að við það stend ég. Þetta mál mun hafa forgang fram yfir annað. Og það verður byggður a. m. k. fimmti hlutinn af þessum íbúðum á næsta ári og ég vona meira en 200 íbúðir. En það er rétt, að ef um 200 íbúðir væri að ræða sem þyrfti að lána til, og lánuð eru 80% og heimildin notuð að fullu, sem ég tel sjálfsagt, þá er þar um að ræða upphæð, sem nemur 400–500 millj. kr., og hlutfallslega hærra, eftir því sem lengra væri gengið í framkvæmd l. En ég tel á því brýna nauðsyn, að það sé gert meira en að skipta þessu niður í 5 jafna parta. Og ég væri tæplega ánægður með framgang þess máls, ef ekki væru byggðar a. m. k. 250–300 íbúðir á þessu ári.

Um þetta mál er svo þess að geta, sem ekki er beinlínis spurt um, en ekki sakar að komi fram, að það hefur í sumar af húsnæðismálastjórn verið unnið kappsamlega að því að ganga frá gagnaöflun frá sveitarfélögunum um vilja þeirra og getu til þessara bygginga. Hvort tveggja virðist vera töluvert, og mun ekki stranda á því. Er nú verið að vinna úr þeim gögnum. Sömuleiðis skal þess getið, að verið er að leggja síðustu hönd á reglugerð íbúðarbyggingar, og hún verður gefin út innan skamms.

Aðeins örlítið varðandi það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði í lok fyrri ræðu sinnar, að það sé auðvitað hrein ágiskun, að byggingarstarfsemin verði ekki meiri á næsta ári en hún hefur verið á þessu. En sú ágiskun mín er nokkuð sterkum rökum studd, vegna þess að öll byggingariðnaðarmannastéttin hefur haft meiri verkefni en hún hefur raunverulega getað annað á þessu ári, og það eru engin líkindi til þess, að við höfum vinnuafl í landinu til þess að festa meira í byggingu hlutfallslega miðað við verðlag, en við höfum gert á sl. 1. ári, þótt ekki væri um neinn fjárskort að ræða. Það þarf líka vinnandi hendur til þess að byggja hús og mannvirki.