06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans. Ég hef undir höndum álit t. d. eins af fulltrúum í Húsnæðismálastofnun ríkisins um, hverja hann álitur fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins. Þetta er Hannes Pálsson, sem hefur setið, að ég hygg í þessari stjórn frá upphafi, gamalreyndur í þessum sökum, og hann álítur, að fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins umfram þá tekjustofna, er sjóðurinn hefur nú samkv. gildandi l., sé á árunum 1973 og 1974 2000 millj. kr.

Hæstv. félmrh. tók fram, að hann ætlaði að standa við þá yfirlýsingu sína, að bygging leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga hefði forgang. Þá hygg ég, að hann megi taka á honum stóra sínum til þess að auka og efla Byggingarsjóð ríkisins, til þess að ekki dragi ský fyrir sólu hjá öllum almennum húsbyggjendum í landinu. Lengst af þessu ári báru húsbyggjendur allmikinn ugg í brjósti vegna afgreiðslu húsnæðismálalánanna. Úr þessu hefur nokkuð ræst nú. En eftir því ráðstöfunarfé, sem Byggingarsjóður hefur samkv. núgildandi tekjustofnum, er fullkomin ástæða til að óttast mjög um vangetu hans í þessum efnum á næsta ári, svo að ekki sé meira sagt. Þess vegna vænti ég þess, að hinn nýi hæstv. félmrh. taki nú hressilega til höndum, þannig að úr þessu verði bætt. Ég hygg, að það þurfi allmiklu meira fé í Byggingarsjóð ríkisins, eigi hann að standast eðlilegar skuldbindingar, en fram kom hjá honum hér áðan.