04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3515 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það kemur fram af grg. þessa frv., að tilgangur þess er tvíþættur, annars vegar að afla fjár til vegagerðar og hins vegar að fella niður 38 gjöld, sem lögð eru á notendur bifreiða. Það liggur í augum uppi, að það er mikið fagnaðarefni að losna við allan þennan hóp gjalda, 38 að tölu. Þessi gjöld eru talin upp í grg., og hirði ég ekki að gera nánari grein fyrir þeim, en mér virðist það vera mikið þrifnaðarverk og þarfaverk að losna við öll þessi smágjöld, sem hirt eru af þeim mönnum, sem eiga bila eða bifhjól, þannig að þetta er skynsamlegt.

Hvað varðar hinn þátt frv., þ.e. að afla fjár til vegagerðar, þá vandast nokkuð málið, og hefur það orðið þungamiðjan í ræðum þeirra manna, sem hér hafa talað. Það segir sig sjálft, að í staðinn fyrir þessi gjöld, 38 að tölu, þarf Vegasjóður á tekjum að halda, og þeirra er aflað með því að hækka bensín og þungaskatt af bifreiðum. En það er ekki aðeins látið haldast í hendur þessi nýju gjöld og þessir tekjustofnar, heldur er um leið ætlunin að afla aukinna tekna, og þarf engan að furða, eins og nú háttar í okkar efnahagslífi, að Vegasjóður þurfi auknar tekjur. Hér er um að ræða tekjur, að mér skilst, um 200 millj. kr. umfram þau gjöld, 38 að tölu, sem falla niður. Ef þetta væri öll sagan, mættu menn vel við una og væri þá ekki tiltökumál að styðja frv. af þessu tagi. En það, sem hér skiptir náttúrlega meginmáli, er, að þessar 200–300 millj. kr., sem Vegasjóður þarf á að halda eða ætlar að afla með þessu frv., eru ekki nema dropi í hafið, og ég verð að játa það, að ég hef sjaldan orðið jafnundrandi við lestur nokkurra gagna í frv. eins og einmitt þessu, því að það kemur í ljós, að það vantar hvorki meira né minna en 1400 milljónir kr., að Vegasjóður standi undir þeim áætlunum, sem þegar hefur verið gert ráð fyrir á árinu 1974, og það vantar 900 millj. kr. fyrir árið 1975.

Ég verð að segja það, að ég hafði gert mér í hugarlund, að ástandið væri slæmt, en ekki eins og þessar tölur bera vitni um. Hér má svo því við bæta, að þessar tölur eiga sjálfsagt eftir að hækka, því að ef að líkum lætur og að óbreyttu ástandi má bæta við þessar tölur ekki allfáum millj. kr. M.ö.o.: ef ég reyni að leggja þetta eins skýrt fyrir og mér er unnt, er gerð vegáætlun 1972 til fjögurra ára, og þegar liðinn er hálfur tími þessa tímabils, kemur í ljós, að það vantar 2 300 millj. kr., til þess að unnt sé að framkvæma þá áætlun, sem gerð var á árinu 1972. Þetta er stórkostlegt undrunarefni. Verður ekki annað sagt en að hér sé komið að einum kjarna málsins í efnahagsstefnu ríkisstj. Ætlunin er síðan með till. til þál., sem á að endurskoða vegáætlun fyrir árin 1974–75, að gera nánari grein fyrir því, hvernig brúa má það bil, sem er milli áætlaðra útgjalda í vegáætlun og þeirra heildartekna, sem að ofan greinir.

Það er algjörlega ofvaxið mínum skilningi, hvernig er unnt að taka af landsmönnum nú 1400 millj. kr. í nýjum álögum, eins og nú háttar hjá skattpíndri þjóð.

Síðasti ræðumaður taldi, að þeir, sem væru að gagnrýna þennan mikla fjárskort og þessa vöntun og þessar miklu álögur, hefðu ekkert fram að færa, þeir vildu ekki benda á neinar leiðir, ekki vildu þeir draga úr vegagerðinni. En þetta er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, hvernig stendur á því, að málin hafa þróast þannig, að það er vöntun á þessu gífurlega fjármagni. Þar liggur hundurinn grafinn. Það er ekki hægt að standa hér frammi fyrir þingheimi, ef það vantar 11/2 milljarð, og krefja svo einstaka þm, um að benda á tekjustofna. Ég og aðrir hafa nú í 11/2 ár bent á það, hvert stefndi, og þeir menn, sem hafa ráðið efnahagsmálum, hljóta þá að taka á sig annaðhvort að útvega þessar 1400 millj. kr., benda á leiðir eða draga úr framkvæmdum. Þetta er þeirra mál.

Ég verð að segja það því miður, að þetta er fullkomin spegilmynd af ástandinu í efnahagsmálum, og var það þó í raun og veru verra en mér gat nokkurn tíma dottið í hug. Nú er það svo, að það fer ekki milli mála, að helsti styrkur núv, ríkisstj, hefur verið dreifbýlispólitíkin. Það hefur verið lagt mikið fjármagn í að afla atvinnutækja, byggja upp frystihús o.s.frv. Það held ég, að sé sá þáttur málsins, sem verður sagt um ríkisstj. mest til hróss. En nú eru málin komin á það stig, að dreifbýlispólitíkin er að hrynja, því að dreifbýlispólitík er fyrst og fremst vegagerð, vegagerð og aftur vegagerð út um dreifbýlið. Það er ekki til auðveldari leið og engin leið greiðfærari til að efla stöðu dreifbýlisins, atvinnuvegi þar og búsetu en góðir vegir. Vegagerð er undirstaða undir allri dreifbýlispólitík, hjá því verður ekki komist. Þess vegna verður að segja sem svo, að ef ekki verður unnt að halda áfram vegagerð eins og til var ætlast árið 1972, þá er sjálfur kjarninn í dreifbýlisstefnunni brostinn, og því miður hef ég enga getu til þess að koma með ábendingar um það, hvar eigi að bera niður hjá almenningi til þess að taka 1400 millj. kr. á þessu ári. Mér er ógerlegt að sjá það. Og þá hlýtur náttúrlega að vera eftir sú leið að ráðast að sjálfum vandanum, og það er efnahagsþróunin. Við komum alltaf að sama upphafspunkti, þ.e. verðlags- og efnahagsþróuninni. Það er bölvaldurinn. Mér er sagt, að það séu jafnvel horfur á því, að verðbólgan muni á þessu ári verða jafnvel allt að 60% að óbreyttu ástandi, og á meðan ekki er tekist á við þann vanda, stöndum við alltaf vanmegnugir gagnvart hlutum eins og þeim að afla fjár til Vegasjóðs. Kjarni vandans liggur ekki í sjálfum Vegasjóðnum, ekki að afla fjár til Vegasjóðs, heldur í sjálfri efnahagsstefnunni, í sjálfri verðlagsþróuninni.

Að öðru leyti eru tvö atriði, sem ég vil benda á áður en ég hverf frá þessu. Það er í sambandi við það, eins og segir í 8. gr. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra er heimilt að hækka gjöld þessi,“ þ.e.a.s. bensíngjald og þungaskatt, „í réttu hlutfalli við þá hækkun, sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar.“ Ekki er ég hamingjusamur að lesa þetta. Í raun og veru, ef þetta væri tekið upp, mundi þetta líklega enn auka á verðbólguna. Þarna er komið sjálfvirkt verðbólgukerfi, og ég hygg, að það sé nauðsynlegt fyrir ríkisvaldið að reyna að sporna heldur gegn þessu en að reyna að hafa verðbólguna beinlínis sjálfvirka til hækkunar, fyrir utan það, að mér virðist eftir þær gífurlegu hækkanir, sem urðu á uppmælingartaxta byggingariðnaðarmanna, að það muni leiða til svo stórfelldrar hækkunar á byggingarvísitölu, að menn almennt geri sér ekki grein fyrir þeirri hækkun, þannig að ég dreg í efa, að þetta sé æskilegt heimildarákvæði.

Síðan kemur hið klassíska veggjald í 12. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðh, er heimilt að ákveða með reglugerð, að greiða skuli sérstakt umferðargjald til ríkissjóðs af bifreiðum, sem fara um tiltekna vegi eða brýr.“ Þetta mál hefur nú komið tvívegis til nokkurrar umr. hér á þingi, og ég hef verið andvígur því, og liggja til þess margar ástæður, sem ég ætla ekki að fara út í að þessu sinni. En ég mundi horfa til þess með litilli tilhlökkun, ef Reykvíkingar væru girtir af hér með um ferðarskýlum og kæmust ekki út úr borginni nema greiða eitthvert lausnargjald. Hvað mundu Stokkhólmsbúar segja, ef þeir kæmust ekki suður á bóginn eða norður á bóginn án þess að greiða lausnargjald, eða Kaupmannahafnarbúar o.s.frv.? Svo er náttúrlega fyrir bændur austanfjalls, sem þurfa að koma til verslunarerinda og ýmiss konar erindagerða hingað til höfuðborgarinnar.

Ég held líka, að í þessu þjóðfélagi okkar, þar sem við erum að reyna að koma upp félagslegri þjónustu á ýmsum sviðum, megum við varast það að íþyngja einstaklingum með alls konar endalausum smásköttum. Það er allt orðið skattað. Maður getur varla andað að sér lofti, án þess að það sé skattað. Hitt er svo alveg rétt, að það vantar fé til vegagerðar, en ég hygg, að það sé ekki ástæða til þess að hafa þennan háttinn á.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira að sinni. En ég verð að segja það, að ég hef sjaldan orðið meira undrandi við lestur á einni grg. í frv. og þessari, því að þetta frv. leysir ekki þann vanda, sem Vegasjóður á við að glíma, og mér er óljóst, hvernig á að afla þessara 1400 millj. kr. En mér er eitt ljóst, að svona getur þetta ekki haldið áfram. Það verður að takast á við kjarna málsins, þ.e. sjálf efnahagsmálin.