04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál við þessa 1. umr. Ég geymi mér það frekar til 2. umr. að ræða frv. ítarlega. En hér er eins og fyrri daginn hjá hæstv. ríkisstj. haldið áfram að leggja nýja skatta á þjóðina í einni eða annarri mynd. Við sjáum vart svo frv. orðið, að það hafi ekki í för með sér, ef ekki beinar skattaálögur, þá skuldbindingu um það, að svo og svo mikið skuli greitt úr ríkissjóði.

Við vorum hér fyrr í dag að afgreiða við 2. umr. frv. um grunnskóla. Ég efast reyndar um, nokkur hv. þm. og ekki heldur hæstv. ráðh. hafi hugmynd um, hvað lögfesting þess frv. kemur til með að kosta. En það virðist ekki þvælast fyrir hæstv. ríkisstj. Strax í 1. gr. þessa frv. fáum við ákveðnar hækkanir. Enn á að bæta pinklum á umferðina, þar sem bensíngjaldið á að hækka úr 9.87 kr. í 15 kr. af hverjum lítra. 3. gr. frv. virðist vera til þess sett að réttlæta þetta allt saman, þar sem segir, að gjöld samkv. ákvæðum 1. og 2. gr. skuli innheimt til ríkissjóðs, en tekjum samkv. lögum þessum skuli einungis varið til vegagerðar samkv. vegáætlun. Ég spyr nú bara: Hvert annað ættu þessi gjöld að fara, eins og málum er nú komið? En hér er allt of langt gengið í álögum á umferðina, og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að bera því við, að ella verði að draga úr framkvæmdum. Það, sem þarf að gera, til þess að framkvæmdir dragist ekki saman, er, að ríkissjóður skili til vegamála einhverjum meiri hluta heldur en hann hefur gert að undanförnu af öllum þeim tekjum, sem hann hefur af umferðinni.

Það hefur margsinnis verið sýnt fram á það, hve naumur hluti það raunverulega er, sem fer til vegamála, af öllum þeim miklu tekjum, sem ríkissjóður hefur af umferðinni. Ég hef hér í höndunum töflu, sem segir, að árið 1973 sé þessi hluti 47.1%, sem til vegamála fer. Það er sjálfsagt að viðurkenna, að þessi hluti hefur oft verið minni, en hæstur mun hann hafa orðið árið 1969 í tíð fyrrv. ríkisstj., 56.5%, en síðan hefur sigið á ógæfuhlið. Þetta hlutfall verður að breytast.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í dag, að þm. hafi ætið verið áhugasamir um framkvæmdir í vegagerð og þess vegna treysti hana því, að þetta frv. verði samþ. Við höfum fyrr á þessu þingi heyrt hæstv. ráðh. setja traust sitt á þm. yfirleitt. Við heyrðum það, þegar frv. um skattkerfisbreytingu var hér til meðferðar. Við heyrðum það líka, þegar frv. um tollskrá var til meðferðar, þannig að þetta er ekkert nýtt. En ég hygg, að hæstv. ráðh. verði að sætta sig við eitthvað minna en ætlunin er að innheimta samkv. þessu frv.

Það hefur verið minnst hér í umr. á 8. gr. frv., þar sem ráðh. er heimilað að hækka tiltekin gjöld í réttu hlutfalli við þá hækkun, sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar. Hér er á ferðinni nokkuð sérstæð regla, sem ég er reyndar ekkert viss um, að standist, en um það ætla ég ekki að ræða núna. Það er sjálfsagt að athuga það mál frekar, en í grg. segir, að gr. feli í sér heimild til handa ráðh. að breyta bensíngjaldinu og þungaskattinum, þó með þeim takmörkunum, að hækkun gjaldanna verði ekki meiri en svarar til breytinga á vísitölu byggingarkostnaðar. Ég segi nú bara: Merkilegt er það, að ekki eigi að veita ráðh. frekari heimildir en að hækka þetta eftir vísitölu byggingarkostnaðar. En það verður að teljast satt að segja dálítið vafasöm viðmiðun að miða þetta við vísitölu byggingarkostnaðar. Þetta er að vísu skiljanlegt, því að það vita allir, að sú vísitala hækkar hvað mest.

Það, sem þarf að gera nú, er að koma í veg fyrir þessar sífelldu auknu álögur, sem alltaf eru að skella yfir þjóðina. Við búum nú við, að ég held ég megi fullyrða, hærra bensínverð en nokkur önnur þjóð, a.m.k. í nágrenni við okkur. Og eins og hv. þm. Stefán Gunnlaugsson sýndi fram á í ræðu sinni, hefur bensínverðið hækkað í tíð núv. ríkisstj, um 94%. Það hafa sjö sinnum orðið hækkanir, og sú áttunda er á leiðinni. Þá hefur ríkisstj. unnið það afrek, að á tæpum þremur árum hefur bensínverðið hækkað um meira en 100%. Annars er hér í grg. nokkuð athyglisverð setning, og er kannske dálítil glæta í þessu öllu saman. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst má vera, að eigi eru efni til frekari hækkunar á bensíngjaldi og þungaskatti, eins og á stendur, en frv. þetta gerir ráð fyrir.“

Við megum sem sagt reikna með, að sjálfri ríkisstj. þyki nú sem mælirinn sé fullur, og er það vissulega góðs viti.

Niðurfelling hinna 38 gjalda er sjálfsagt góðra gjalda verð. Ekki ætla ég að mæla á móti því. Í grg. segir á einum stað, að við niðurfellingu þeirra gjaldstofna sé talið, að tekjur ríkissjóðs og Tryggingastofnunar ríkisins skerðist um 150 millj. kr. Það er áætlað í ár, að um 72 millj. kr. renni til Tryggingastofnunar ríkisins sem tryggingaiðgjöld ökumanna og um 30 millj. komi í ríkissjóð sem ómerktar tekjur. Mér þætti mjög fróðlegt að vita, hvað Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt út mikið fé vegna þessara mála á undanförnum árum, við skulum segja á 2–3 síðustu árum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessari spurningu minni verði svarað hér í kvöld, en það væri mjög æskilegt að fá upplýsingar um þetta atriði.

Þá langar mig að fara hér örfáum orðum um 12. gr. frv. Hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, gerði hana hér lítillega að umtalsefni og sagði, að þessi gr. væri tekin nákvæmlega upp úr gildandi vegalögum. Þetta er að vísu ekki alveg rétt hjá honum, það er bætt inn tveimur orðum, sem ég er ekki alveg viss um, hvað þýða, en mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. eða hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson vildi upplýsa það. Þessi orð eru „til ríkissjóðs“. Þar segir: „Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð, að greiða skuli sérstakt umferðargjald til ríkissjóðs af bifreiðum.“ Þessi tvö orð voru ekki og eru ekki í gildandi lögum. Spurning mín er, hvort þetta veggjald, sem á nú að reyna enn einu sinni að koma á, eigi að fara beint í ríkissjóð. Eða á þetta að fara í Vegasjóð? Á því er nefnilega meginmunur, og þessi tvö orð, sem þarna er skotið inn í, gefa a.m.k. tilefni til vissra grunsemda.

Annars þykir mér einkennilegt, að þessi gr. skuli tekin upp í þetta frv. Það hefur verið rakið hér þegar í umr., hver afskipti þingsins hafa verið af þessu máli á undanförnum árum. Það hefur tvisvar komið til kasta þingsins á þessu kjörtímabili. Árið 1972 var þetta fellt úr vegáætlun og 1973 var felld till. þess efnis, að veggjald skyldi tekið upp að nýju. Enn á að reyna, og ég spyr: Hvað á þetta að þýða? Núv. þing, það þing, sem kjörið var í síðustu kosningum, hefur tvisvar sinnum lýst yfir vilja sínum í þessu efni. En enn þá er verið að. Ég held, að skynsamlegast væri nú að fella þetta ákvæði einfaldlega úr frv., þannig að menn hætti þessum hugleiðingum um álagningu sérstaks veggjalds. En ef menn vilja endilega hafa þessa heimild í lögum, þarf þessi lagagr. að vera öðruvísi úr garði gerð. Eins og þetta hefur verið tíðkað eða var, meðan veggjaldið var á Reykjanesbraut, hafði það í för með sér ójöfnuð, og það er áfram gert ráð fyrir ójöfnuði með því að ætla að taka veggjald af Reykjanesbraut og af Suðurlandsvegi. Það þarf að bæta inn í þessa lagagr. ákvæðum þess efnis, að ekki verði tekin ákvörðun um álagningu slíks gjalds nema við afgreiðslu vegáætlunar og þá verði það tilgreint, hvar umferðargjaldið eigi að taka. Og við mat á því, hvar umferðargjald skuli lagt á, verður að gæta fyllsta samræmis, og það verður að líta til þeirra breytinga á vegakerfinu, sem hafa í för með sér sparnað eða bætta þjónustu fyrir notendur veganna frá því, sem áður var, og þar nefni ég styttingu vegalengda milli staða, lagningu bundins slitlags, gerð jarðganga, brúa o.fl. þess háttar. Það er ekki réttlætanlegt að leggja veggjald á eingöngu vegna þess, að bundið slitlag sé komið á veginn.

En ég vildi gjarnan heyra rök fyrir því, hvers vegna er verið með þessa gr. enn þá inni í l. eða ætlunin sé að hafa hana enn þá inni í I. Það hefur verið bent á það áður, að fyrirkomulag eins og hér er hugsað og hér var er algerlega óþekkt í nokkru landi. Það er út í hött að vera að vísa til reglna, sem gilda í öðrum löndum, og vissulega er viða tekið veggjald. Það er algengt t.d. á Ítalíu. En þeir vegir, sem eru þannig skattaðir, eru ekki í eigu ríkisins. Þeir eru flestir í eigu Vatíkansins, það er páfinn, sem ræður yfir þeim. Og þó að hæstv. fjmrh. hafi hér mikil völd, þá held ég, að hann ráði ekki yfir vegakerfinu eins og páfinn gerir með sína vegi á Ítalíu. Alveg sama er með Bandaríkin. Þeir vegir, sem eru tollaðir, eru ekki ríkisvegir, og það er beinlínis skilyrði fyrir framlagi úr alríkissjóði, að vegirnir verði ekki tollaðir. Á þessu er meginmunur og að vera að tolla hér einstaka ríkisvegi.

Ég sagði áðan, að í þessu veggjaldi fælist ójöfnuður. Það vita allir, að ekki er hægt að leggja á veggjald nema hér í næsta nágrenni við höfuðborgina, og þetta verður til þess, eins og hér hefur komið fram, að það kemst enginn út úr borginni nema borga fyrir það gjald eða þá, ef innheimtumönnunum skyldi nú verða snúið í hina áttina, þá kemst enginn inn í borgina nema borga fyrir það. Þetta er ekki réttlætanlegt á nokkurn hátt.

Það hefur líka verið bent á það, hversu dýr innheimtan er á slíku veggjaldi. Ég hef satt að segja ekki trú á, að það verði fundin upp ódýrari leið í skattheimtunni en var hér, meðan hún var.

Ég vil minna á, að ég flutti brtt. í vetur við tollskrárfrv., þegar það var hér til meðferðar. Sú brtt. var á þá leið, að það yrði lagður þungatollur á bensín í staðinn fyrir verðtoll. Rökstuðningurinn fyrir till. var sá, að með því yrði dregið úr áhrifum hinna miklu verðhækkana, sem orðið hafa erlendis á bensíni. Þessi till. var að sjálfsögðu felld af hv. stjórnarliðum einfaldlega vegna þess að auðvitað eygði ríkissjóður þarna möguleika á meiri tekjum, og þannig var þessi hækkun, sem orðið hafði á bensíni, beinlínis notuð til þess að auka tekjur ríkissjóðs, en vel að merkja ekki Vegasjóðs.

Ríkissjóður á að skila til umferðarmála illa fengnum tekjum„ sem hann hefur fengið á undanförnum árum, og það á að hætta þessari stöðugu ásókn í skatta af umferðinni.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum í tilefni þess, sem hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson sagði hér áðan, að það er til lítils að vera að guma af því, að hæstv. ríkisstj. hafi gert mikið í atvinnumálum úti um landsbyggðina. Það hefur enga þýðingu að vera með slíkan málflutning, þegar við erum að ræða hér aukna skattlagningu á umferðina. Ég viðurkenni, að ríkisstj. hefur sjálfsagt margt vel gert, en fleira held ég, að hún hafi gert illa og þá sérstaklega í öllu, sem lýtur að efnahagsmálum. Hún hefur komið þeim í hreinan voða. fjárlögin hafa þrefaldast á þeim tíma, sem hún hefur verið við völd, og það á eftir að súpa seyðið af þessum athöfnum hæstv. ríkisstj.