04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir rétt, áður en 1. umr. um þetta mál lýkur hér í þessari hv. d., að fara um það nokkrum orðum. Forseti hefur tjáð mér, að hann hafi gert ráðstöfun til þess, að hæstv. viðskrh. yrði hér við umr., og tel ég það nauðsynlegt, þar sem hann hefur lagt ríkt á við þm. að fá málið afgreitt til n, nú fyrir páskafrí. Ég vildi helst ekki þurfa að halda áfram, fyrr en hæstv. ráðh. er kominn í salinn því að framsöguræða hans gaf tilefni til ýmissa aths., sem ég tel, að þm. eigi rétt á að fá nokkra skýringu á. (Gripið fram í.) Það virðist vera, þeir eru yfirleitt týndir, þegar á þeim þarf að halda. — Ég vil spyrja hæstv. forseta: Verður umr. frestað, þangað til ráðh, kemur í salinn, því að ég tel þetta mál það mikilsvert, að sóma síns vegna þurfi hæstv. ráðh. að vera viðstaddur, þegar málið er rætt? Það er lítilsvirðing við þm. og við d., að hann skuli vera í húsinu, en fjarverandi, meðan málið er hér rætt. (Forseti: Í tilefni af þessum orðum vil ég aðeins benda á það, að hæstv. ráðh. hefur eins og aðrir beðið eftir því nú í 2 daga, að þetta mál yrði á dagskrá, og ég býst við, að það hafi ekki enn, fyrst hann er ekki kominn, borist til hans, að þetta mál hafi verið tekið fyrir. En ég er búinn að gera ráðstafanir til þess að hann komi, og ég vænti, að það verði nú þegar.) Þá mun ég að sjálfsögðu halda áfram ræðu minni, þegar hæstv. ráðh. lætur það lítið að vera við staddur, þegar málið er tekið fyrir.

Ég vil geta þess þegar í upphafi, að þó að ég teldi, að það væri mjög gott, ef hægt væri að greiða niður allt olíuverð, þá tel ég þó, að olía til húsahitunar eigi að hafa algeran forgang, þannig að hún verði að hafa þann forgang, að ég tel, að verð hennar verði að færast niður í það, sem var á s.l. hausti, áður en hinar miklu verðhækkanir skullu á, áður en komi til greina að greiða niður olíu til iðnaðar eða annarra þarfa. Ég byggi þetta á því, að olía til íbúðarhitunar er það stór liður í framfærslu hverrar fjölskyldu, að hún verði að hafa þar allan forgang og megi ekki skerða þá möguleika, sem fyrir hendi eru til að greiða fyrir húseigendum, hún verði að sitja þar í fyrirrúmi. Ég vil benda á það, að í sambandi við rekstrarútgjöld iðnfyrirtækja, sem olíu nota, er olían aðeins til þess að gera lítill hluti af þeirra rekstrarútgjöldum flestra. Hún sem önnur rekstrarútgjöld verður frádráttarbær við skattlagningu, og í sumum tilfellum hafa fyrirtæki aðstöðu til þess að haga því þannig, að hækkunin fer út í verðlagið og lendir ekki beint á fyrirtækinu. Ég undirstrika það, að mjög væri æskilegt, ef hægt væri að greiða niður olíu til þessara aðila einnig, en vil ekki láta það mæða á niðurgreiðslu á olíu til íbúðahitunar.

Ég vil mjög taka undir þann þátt úr ræðu hv. 9. landsk. þm., Ellerts B. Schram, er hann ræddi um það uppbótakerfi eða það styrkjakerfi, sem í þessu frv. felst, þó að ég að öðru leyti væri honum ekki sammála um það, sem hann sagði um aðalefni frv. Ég tel, að Alþ. verði að fara að gá að sér og gæta þeirrar stefnu, sem nú virðist eiga að fara að marka hér á Alþ., að skattleggja þjóðina eftir ýmsum leiðum og taka síðan upp að endurgreiða aftur hluta af þessum sköttum í beinu styrkjaformi. Ég tel þetta mjög ranga stefnu og þetta skapi kerfi, sem hljóti að hlaða mikið utan á sig og verða ákaflega dýrt í allri framkvæmd. Ég vil benda á, að það er ekki nema örstutt síðan Alþ. samþykkti hér í sambandi við afgreiðslu á skattalögum nýtt form á uppbótakerfi, þar sem 4. gr. þeirra laga gerir ráð fyrir endurgreiðslu á skatti, bæði að nokkru til ýmissa skattgreiðenda og einnig til aðila, sem engan skatt greiða. Ég held, að það hljóti að líta nokkuð einkennilega út, þegar skrá verður lögð fram yfir þá, sem eiga að fá endurgreiðslu á skatti, þá verði án efa þar um stóran hóp manna að ræða, ekki hundruð manna, heldur jafnvel þúsundir manna, og þar í fararbroddi verða án efa menn eins og t.d. Einar ríki, sem ég hygg, að almenningur eigi nokkuð bágt með að átta sig á, að skuli ekki einungis vera skattfrír, heldur fá endurgreiddan tekjuskatt, en þannig er það form, sem búið var til, þegar skattal. voru samþykkt. Ég held, að þetta ætti að verða nokkurt víti til varnaðar, að það þýði ekki að fara í þessu frv., sem hér liggur fyrir, út í sams konar eða svipað form, en það verður ábyggilega ef 2. gr. þessa frv. verður samþ. eins og hún er. Þá kemur ábyggilega í ljós, að það verður mjög stór hópur, aðilar, sem enga olíu greiðir, en mun, þegar til — kemur, fá endurgreiddan kyndingarkostnað í styrkjaformi, eins og gr. gerir ráð fyrir. Ég held, að Alþ. verði að varast það að fara að búa til mikið af slíkum reglum eins og hér er gert ráð fyrir og reglum eins og ég benti á áðan í sambandi við skattkerfið.

Í sambandi við skattkerfið eru það bæjarfógetar og lögreglustjórar, sem eiga að annast endurgreiðsluna til almennings. Í þessu kerfi eru það sveitarstjórnirnar, sem eiga að annast endurgreiðsluna. Ég tel, að það verði að finna annað og heppilegra form á þessum hlutum heldur en gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir.

Hæstv. viðskrh. taldi á því öll tormerki, að það væri hægt að koma við henni niðurgreiðslu í sambandi við lækkun olíuverðs, til hitunar íbúðarhúsnæðis. Ég satt að segja held, að hæstv. ráðh. hljóti að vera þarna með fullyrðingar, sem hann veit, að ekki fá staðist, því að sú staðreynd er fyrir hendi, að hann hefur sjálfur nú mjög nýlega, fyrir aðeins nokkrum vikum, komið á niðurgreiðslukerfi í sambandi við olíusöluna, þar sem er um að ræða sölu á olíu til fiskiskipa. Hann gerði þetta á mjög einfaldan hátt. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá olíufélögunum, gerist þetta á þann veg, að fiskiskipum er seld olían á því verði, sem var á henni í nóvembermánuði s.l. Olíufélögin gera síðan upp sölu með sundurliðaðri grg. um sölu sína til fiskiskipanna og fá endurgreitt hjá Seðlabanka Íslands mismun á olíuverðinu, eins og það raunverulega er viðurkennt af verðlagsyfirvöldum og miðað við það, sem það var í nóv. s.l. Hæstv. ráðh, fór ekki í þessu tilfelli a.m.k. inn á neitt beint styrkjakerfi, þar sem olían væri greidd til skipanna eftir einhverjum ákveðnum reglum um stærð véla, stærð skipa eða visst á tonn eða annað slíkt, heldur gerði þetta í því formi, að það yrði um beina verðlækkun til þessara aðila á olíunni að ræða, og er það að mínum dómi miklu einfaldara og heilbrigðara kerfi heldur en gert er ráð fyrir í 2. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki annað en svipuðu kerfi væri mjög hægt að koma við í sölu á olíu til húsahitunar. Ég sé ekki það tormerki, sem hæstv. ráðh. vill vera láta, að séu á þessari leið, því að það er vitað, að olíufélögin annast alla útkeyrslu á olíu til hvers húseigenda í olíugeyma, sem þau yfirleitt eiga. Þau fylgjast alveg með og færa skýrslur um þá olíu, sem hver húseigandi kaupir hjá hverju olíufélagi. Þau gætu á nákvæmlega sama hátt og þau afgreiða olíu til fiskiskipa og halda yfir það nákvæmar skýrslur haldið skýrslur yfir olíuna til húsahitunar, og reyndar gera þau það, því að það er vitað, að olían er yfirleitt seld í mánaðarreikning eða gefinn á henni einhver gjaldfrestur. Það mun vera hin almennasta regla, og þarf því að bókfæra úttekt hvers aðila í viðskiptareikning, þannig að þetta er allt til hjá olíufélögunum, og er að mínum dómi ekki nokkuð verulegt aukið umstang fyrir þau að halda nákvæmari skýrslu yfir það, hve mikið hver kaupandi notaði af olíu til húsahitunar. Því hefur verið haldið fram, að þetta mundi e.t.v. verða misnotað. Ég tel það hreina fjarstæðu og ekki rök, sem muni fá staðist. Ég læt mér ekki detta í hug, að nokkur húseigandi mundi vilja láta það spyrjast um sig og láta það sjást til sín, að hann væri að dæla olíu upp úr olíugeyminum við hús sitt og setja það á önnur tæki eða flytja það burt. Ég tel það hreina fjarstæðu, að menn færu inn á þá braut að láta sér detta slíkt í hug. Ef það fær staðist, sem er að finna í grg. með því frv., sem hér var afgreitt fyrir nokkru um álagt sérstakt gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkunar, að olía til kyndingar hækki úr 620 millj. árið 1973 í 1350 millj. árið 1974 og til rafveitna úr 120 millj. 1973 í 145 millj. 1974, þá er hér samanlagt um hækkun að ræða, sem nemur 755 millj. Ef þessar tölur fá staðist, sem ég hlýt að taka trúanlegar, meðan annað kemur ekki í ljós eða verður ekki leiðrétt, þá sýnist mér það liggja beint fyrir, að hægt sé að færa niður olíuverð til hitunar á íbúðarhúsnæði til samræmis við það, sem það var í nóv. 1973, þar sem þetta eina söluskattsprósent, sem búið er að samþykkja til þessara hluta, gefur um 800 millj. kr. Ég mundi telja það langsamlega eðlilegustu leiðina og um leið þá leið, sem væri langsamlega einföldust fyrir alla aðila, bæði fyrir neytendur og fyrir stjórnvöld, að þetta yrði gert, og ég vil fá að heyra rök hæstv. viðskrh. fyrir því, hvaða tormerki hann telur á því, að þetta sé ekki framkvæmanlegt gagnvart íbúðarhúsnæði, eins og hann telur það mjög framkvæmanlegt á allri sölu olíu til fiskiskipa. Ég skal viðurkenna, að þar er um nokkru færri aðila að ræða heldur en er í sambandi við húsakyndinguna, en ég held, að það hljóti að vera svo, og þykist reyndar vita, að það sé svo, að olíufélögin halda nákvæma reikninga yfir alla sína olíusölu og þau eigi að geta haldið um það mjög öruggar og nákvæmar skýrslur. Það væri þá hægt fyrir stjórnvöld að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að treysta mætti þeim skýrslum, sem olíufélögin gæfu upp í sambandi við olíu til íbúðarhúsnæðis, eins og því er treyst af hæstv. viðskrh., að skýrslur olíufélaganna um sölu á olíu til fiskiskipa séu réttar. Meðan hann vefengir það ekki, tel ég ekki, að hann hafi ástæðu til að vefengja skýrslur olíufélaganna um aðra olíusölu.

Ég var með í huga að bera fram brtt. við 2. gr., að gr. orðist eitthvað á þá leið, að olía til kyndingar íbúðarhúsnæðis yrði færð til samræmis við verðlag á olíu, sem var í nóv. s.l., og er það í samræmi við það, sem gert hefur verið við sölu á olíu til fiskiskipa.

Ég skal ekki tefja umr, um þetta mál meira, en ég vildi mjög gjarnan fá að heyra rök hæstv. ráðh. fyrir því hvers vegna ekki er hægt að fara með olíu til íbúðarhitunar á sama veg og gert er með sölu á olíu til fiskiskipa, þar sem mér sýnist vera um mjög einfalt og handhægt kerfi að ræða, og það er kerfi, sem hæstv. viðskrh. hefur komið á, án þess að um það væru samþykkt nokkur sérstök lög.