06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það voru tvö atriði, sem ég vildi vekja athygli á í sambandi við þessar umr. Ég hef ekki mikinn tíma til þess að fjalla um þetta mál, en það var tvennt, sem ég vildi undirstrika, sem fram hefur komið í þessum umr. Annað er, að þar sem augljóst er, að Byggingarsjóður er greinilega í mikilli fjárþörf og hæstv. ráðh. hefur nú tíundað hugleiðingar sínar og áætlanir um það, hvernig hann hyggst auka tekjur Byggingarsjóðsins, án þess þó að auðvelt sé að gripa á því nákvæmlega, hvernig það skuli gert, en segir um leið, að bygging leiguhúsnæðis eigi að hafa algjöran forgang, þá er það í samræmi við þáltill., sem samþ. var hér á síðasta þingi og ekkert er í sjálfu sér við að athuga annað en það, að í þessari þáltill. var jafnframt tekið fram, að bygging þessa leiguhúsnæðis og tekjuöflun til þess átaks kæmi ekki niður á lánveitingum til hinna almennu byggjenda. Þetta var alger forsenda þess, að þessi till. var samþykkt, og þess vegna finnst mér, að það stangist á, ef það er markmið og ákvörðun hæstv. ráðherra, að þetta átak verði á þann veg, að það komi niður á almennri tekjuöflun og fjárþörf Byggingarsjóðs.

Hitt atriðið, sem ég vildi fá fram frekari skýringar á hjá hæstv. ráðh., ef unnt er að gefa þau svör, þegar hann nú rekur fjárþörf Byggingarsjóðs fyrir næsta ár og telur hér upp tölur um hugsanlega fjárþörf og áætlun í því sambandi, sem erfitt er að skrifa hjá sér í einu vettvangi, hvort þá sé miðað við sömu hámarkslaun og nú er gert ráð fyrir. Það var vakin athygli á því hér af hæstv. fyrirspyrjanda, að vísitalan hafi hækkað úr rúmlega 530 stigum í 913 stig á tímabili núv. stjórnar. Lánin voru þá um 600 þús. kr., en eru nú komin upp í 800 þús. kr. og langt frá því, að það nái sama hlutfalli. Því er spurningin: Er miðað við 800 þús. kr. lán eða þá einhverja sérstaka hækkun?