04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3141)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., en ég reikna með, að þetta frv. verði aldrei afgreitt úr n. fyrir páskafrí úr þessu, og þess vegna væri tími til þess að senda það til umsagnar, og ég óska eftir því, að n. sendi það til Stéttarsambands bænda og Sambands ísl. sveitarfélaga. Ástæðan fyrir því er sú, að ég er á því, að það væri hægt að finna aðrar leiðir heppilegri eða a.m.k. það væri hægt að greiða þetta af meira réttlæti en mundi fást út úr því að gera þetta eins og 2. gr. þessa frv. segir fyrir um. Það er vitað mál, að t.d. þeir, sem eru í dreifbýlinu, þurfa að hafa stærra húsnæði yfirleitt fyrir sinn rekstur heldur en þeir, sem eru í bæjunum. Þegar við byggjum okkar íbúðir í sveitum, verðum við að miða þær við þann búrekstur, sem við höfum, og við getum ekki skipt um íbúðir, eins og er t.d. möguleiki á í þéttbýlinu, sérstaklega á hinum stærri stöðum. Það er sannfæring mín, að ef þetta yrði borgað bara á þann hátt, að það væri viss upphæð á hvern íbúa, þá mundi þetta koma að þessu leyti mjög illa við þetta fólk.

Ég viðurkenni, að það er ákaflega erfitt að greiða beint niður olíuna, vegna þess að það er hætt við því, að það verði farið í kringum það. En ég heyrði svo á hæstv. viðskrh., að hann vildi fara þá leið, sem mundi helst tryggja réttlæti í þessu efni. Og ég er alveg viss um, að þetta nær ekki því réttlæti, sem ég veit, að hæstv. ráðh. vill gjarnan ná með þessari niðurgreiðslu.

Það er fleira, sem kemur til í sambandi við þetta mál. Það er sannað mál, að t.d. fyrir norðan og á Vestfjörðum og a.m.k. norðan til á Austfjörðum er miklu meiri hitunarkostnaður en hér sunnanlands, vegna þess að hitastigið er töluvert miklu lægra. Hvað þetta er mikið, vil ég ekki staðhæfa, en fróðir menn segja mér, að það geti munað 25% eða jafnvel meira, a.m.k. yfir háveturinn. Þegar þetta er líka tekið til greina og stærð íbúða, t.d. í sveitum og jafnvel á hinum smærri stöðum, t.d. þar sem þarf að hafa fólk vegna atvinnurekstrar, þá kemur þetta ekki rétt út.

Ég endurtek aðeins, að ég óska eftir því, að þetta frv. verði sent til umsagnar þeirra aðila, sem ég áðan greindi og það verði reynt að skoða betur hvort ekki sé hægt að finna eitthvert frávik frá þessari reglu til þess að komast a.m.k. nær því en mundi nást að frv. óbreyttu, að fólki sé ekki eins mismunað og mundi verða með þessu frv. óbreyttu.