04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mig langar til að skýra ástæðuna fyrir því, að ég leyfi mér að taka til máls um það frv., sem hér liggur fyrir. Þannig er, að þegar frv. um 1% gjaldið, sem lagt var á söluskattsstofn til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, var hér til umr, fyrir mánuði, sat ég hjá við afgreiðslu þess máls. Það var ekki vegna þess, að mér væri ekki ljós nauðsynin á því að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr þessum áhrifum verðhækkana á olíu. Ég var fyllilega sammála því erindi, sem Sjálfstfl. hafði ritað ríkisstj., um það, að hann væri til viðræðu um skynsamlegar ráðstafanir til þess að ráða bót á þessum vanda, sem skapaðist af óvæntum og utanaðkomandi orsökum. En hins vegar var ég ekki reiðubúin til þess að samþykkja heimild fyrir ríkisstj. til þess að leggja þetta skattgjald á landsmenn, án þess að ég sæi um leið, á hvern hátt ætti að verja því. Það er eitt að leggja á skatt og afla tekna í vissu skyni og annað að dreifa þeim tekjum réttlátlega.

Í 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, segir svo: „Tilgangur laga þessara er að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis.“ Þessu er ég eins og hv. seinasti ræðumaður fyllilega sammála, en gallinn á þessu frv. er sá, sem greinilega kemur í ljós, þegar áfram er lesið, að það fjallar að mínu viti ekki um það að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, heldur fjallar þetta frv. um nýja tegund fjölskyldubóta. Það er ekkert samband á milli þess, hve margt fólk er í fjölskyldu og hve hátt verð er á olíu. Ég get ekki séð það a.m.k. Ef leitað er skýringa á því, hvers vegna ríkisstj. leggur til, að nú verði farið inn á nýja braut í fyrirkomulagi á greiðslu fjölskyldubóta, þá mætti kannske láta sér detta í hug, að skýringuna gæti að einhverju leyti verið að finna í öðru frv., sem lagt hefur verið fram hér, um breyt. á almannatryggingalögum. Þar er lagt til, að dregið verði úr fjölskyldubótum frá því, sem verið hefur, en með þessu frv. er aftur á móti lagt til, að fjölskyldubætur verði stórauknar til handa þeim, sem búa í olíukyntu húsnæði. Fólkið, sem býr við hitaveitu, kemur til með að hlíta hinum nýju lögum ríkisstj., ef samþ. verða, þar sem dregið verður úr fjölskyldubótum. Með því er ég ekki að segja, að það megi ekki koma á nýju fyrirkomulagi fjölskyldubóta. En engu að síður er það svo, að einhverjir hljóta að bera skarðari hlut frá borði en áður hefur verið. Niðurstaða mín er sú, að ef bæði þessi frv. verða samþykkt, þá missa þeir, sem eiga börn innan við 16 ára aldur og búa á hitaveitusvæðum, nokkuð af tekjum sínum. En aftur á móti fær fjölskyldufólk, sem býr í olíukyntu húsnæði, stórauknar fjölskyldubætur og að auki fjölskyldubætur vegna aldraðra og yfir höfuð allra meðlima fjölskyldunnar.

Þá er á það að líta, að það er tekið fram, að 1% söluskattsstigið, sem samþ. var hér á dögunum í því skyni að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, á ekki að ganga inn í kaupgreiðsluvísitölu. Hins vegar stendur ekkert um það í þessu frv., hvort þetta gjald, sem nota á nú til þess að auka fjölskyldubætur, sem ég leyfi mér að kalla svo, verður á einhvern hátt til þess að lækka framfærsluvísitölu. Þetta vildi ég biðja hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, að skoða sérstaklega. Þótt ég sé ekki sérlega vel að mér í vísitölufræðum, þykist ég vita, að olíukostnaðurinn hljóti að einhverju leyti að ganga inn í framfærsluvísitöluna. E.t.v. vegur hann ekki eins þungt og hitunarkostnaður hjá vísitölufjölskyldunni í hitaveituhúsnæði, en engu að síður hlýtur þetta að einhverju leyti að koma inn í þetta dæmi. Og ég sé ekki, að það sé alveg samræmi, að fyrst sé fólk látið greiða söluskatt, sem ekki reiknist inn í kaupgreiðsluvísitölu, og síðan sé það fé notað til þess að greiða til fjölskyldufólks og verði e.t.v. til lækkunar á framfærsluvísitölu, því að þetta nær ekki til nema brots af öllum þjóðfélagsborgurunum.

Þá er það skoðun mín, að þetta hljóti að koma ákaflega misjafnlega niður hjá því fólki, sem þarf að leggja í stóraukinn kostnað vegna verðhækkana á olíu til húsakyndingar. Við skulum bara hugsa okkur, hvernig þetta getur komið út fyrir stór svæði í dreifbýlinu. Þar háttar ákaflega viða svo til, að eftir eru á heimilunum hjón, sem eiga uppkomin börn, sem eru annaðhvort við nám eða störf í þéttbýlinu, og þau búa í sama húsnæði og öll fjölskyldan bjó í áður. Þetta fólk verður að bera þennan kostnað með mun meiri þunga heldur en aftur á móti stór fjölskylda, sem býr í lítilli íbúð í þéttbýlinu. Og hjá fólki í þéttbýlinu getur þetta víða komið mjög ranglátlega niður, þar sem um er að ræða fullorðin hjón, sem búa enn á sínu gamla heimili eða fullorðinn einstakling, sem býr einn í íbúð sinni og verður að standa einn straum af kyndingarkostnaðinum. Er greinilegt í þessum dæmum, að það er ekki olíuverðhækkunin, sem er bætt þessu fólki, heldur bíður það tjón vegna þess, að það hefur ekki fleira fólk í sinni fjölskyldu.

Mér sýnist sem sagt augljóst, að þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að gripið verði til til þess að dreifa því fé, sem samþykkt hefur verið á Alþingi að afla, séu í mótsögn við 1. gr. þessa frv., við tilganginn í l., að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til íbúðarhúsnæðis. Það er annað en þetta frv. fjallar um. Með því er ég ekki að segja, að það geti ekki vel verið ástæða til þess og hægt að færa að því rök, að fólk með stórar fjölskyldur þurfi að hafa meiri tekjur. Það er bara allt annað en verðhækkun á olíu og þarf að leysast eftir einhverjum öðrum leiðum.

Ég held, að það verði langskynsamlegasta og eðlilegasta leiðin að greiða sjálfa olíuna niður með einhverjum hætti. Og ég kann illa þeim röksemdum, sem sumir hafa sett hér fram, að slíkt mundi skapa hættu á misnotkun á þeim reglum, sem um það giltu, fólk færi með einhverjum sérstökum tilfæringum og tækjum að reyna að verða sér úti um ódýrari olíu en það ella þyrfti að kaupa til ýmissa hluta eða þá jafnvel mundi bruðla með olíuna. Ég hef satt að segja ekki trú á því, að fólk færi að gamni sínu að bruðla með olíuna, jafnvel þótt verðið yrði ekki hærra en vera mundi, ef hún væri niðurgreidd. Hún er dýr samt. Mér finnst sú röksemd ekki sterkari en setja hefði mátt fram um ýmsar aðrar niðurgreiðslur, sem hafa oft og á mörgum sviðum tíðkast í þessu landi. Það má e.t.v. færa að því rök, að á tímabili hafi kannske fleiri kartöflur farið í ruslaföturnar hjá fólki vegna þess, hve mikið þær voru niðurgreiddar. En þó held ég, að varla hafi verið svo mikil brögð að því, að mönnum hafi ekki sýnst, að búa mætti við þá aðferð. En síður held ég, að slík röksemd gæti komið til greina í sambandi við svo dýran varning sem olía er. Virðist hún tæpast frambærileg, allra síst þegar litið er til þess, að nú þegar er olía niðurgreidd handa miklum fjölda fólks, sem hana notar við atvinnu sína á bátaflotanum. Ég held, að það sé ekkert meiri ástæða til þess að vantreysta fólki, sem stundar sín störf í landi, heldur en þeim, sem stunda sjóinn. Ég held, að það megi alveg eins búast við því, að sú aðferð geti komið að fullu gagni til þess að greiða niður olíu til húsahitunar. Það er miklu einfaldari og eðlilegri aðferð á allan hátt.

Þar við bætist, að það er ákaflega furðuleg ráðstöfun að ætla sveitarfélögum að setja upp nýtt bákn til að framkvæma þetta kerfi, sem frv. gerir ráð fyrir og hlýtur að verða geysiflókið. Í því sambandi langar mig til að beina því til n., sem fær málið til meðferðar, ef nú mót vonum mínum verður að því ráði horfið að taka upp þetta flókna kerfi, þá sýnist mér alveg nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga en lagðar hafa verið fram með þessu frv. Ég man ekki til þess, að nokkuð hafi komið fram um það, hversu margt fólk í landinu býr við olíukyndingu í húsum sínum, né heldur að lægi fyrir nákvæm áætlun um það, hve mikið þyrfti að greiða til þess að ná jöfnuði milli olíukynts húsnæðis og t.d. hitaveituhúsnæðis. Þess vegna vitum við ekki, hve mikið það er, sem á að greiða hverjum íbúa olíukynts húsnæðis eftir þessu frv.

Varðandi þá umsagnaraðila, sem hér hefur verið bent á, að þyrfti að leita til, þá sýnist mér fyllilega ástæða til að taka undir það. Það er óhugsandi, sýnist mér, að fella þessa skyldu á sveitarstjórnirnar algerlega að þeim fornspurðum, og svo er satt að segja með ýmislegt í sambandi við þetta frv. Það er sannast sagna alls ekki nógu rækilega undirbúið að því leyti, að það liggja ekki fyrir nákvæmar áætlanir um þann kostnað, sem af framkvæmd þess mundi leiða, né heldur um það, til hve margs fólks þetta mundi ná og hve margar íbúðir um væri að ræða. Ekki liggur heldur fyrir samanburður á kostnaði af því að greiða olíuna niður beint annars vegar og hins vegar af því að taka upp það fyrirkomulag, sem hér er lagt til. Einnig þyrfti að liggja fyrir sérstakar upplýsingar um fjölda íbúða, þar sem aðeins býr fullorðið fólk, sem mundi verða mjög illa úti í samanburði við mannmörg heimili, sem byggju í tiltölulega litlum íbúðum. Að öllu samanlögðu held ég, að sá hópur, sem fær minnstar bætur út úr þessu frv., verði aldraða fólkið, sem oft er og að öðru jöfnu verr sett fjárhagslega en hinir, og held ég, að þeir biði skarðan hlut, sem síst skildu.

Þessi atriði vil ég leyfa mér að óska, að hv. n., sem málið fær til athugunar, skoði.