05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

100. mál, kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér ræðir um, er komið frá hv. Nd. og var þar shlj. samþykkt. Það fjallar um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni með öllum þeim lögfylgjum, sem eru samfara slíkum réttindum. Ég er ekki í neinum vafa um það, að Dalvíkurkauptún sem önnur þau, sem eru á ferðinni um sams konar efni, eigi skilið þessi réttindi. Hins vegar er ég ekki svo kunnugur Dalvík og búendum þar, að ég geti haft mörg orð um. En ég hygg, að þetta kauptún sé í landnámi Helga magra, og það segir nokkuð. Ef ég færi nánar að grennslast eftir sögu Dalvíkur og þeirra, sem þar hafa átt og eiga bólstað, gæti ég trúað því, að ég kæmist að líkri niðurstöðu og kom fram hjá frsm. félmn. í sambandi við Bolungarvík, að vísu að breyttu breytanda. Ég efast ekki um, að það megi jafna myndarskap og framförum á Dalvik hátt í það á borð við það, sem gerist í Bolungarvík. — Félmn. þessarar d, mælir með samþykkt þessa frv.