06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. 9. landsk. þm. vil ég segja það, að ég tel eðlilegt og æskilegt, að lán verði hækkuð á næsta ári. Hins vegar hafa engar endanlegar ákvarðanir verið teknar um það, hvað verði gert í þeim efnum. Það hlýtur auðvitað m. a. að byggjast á því, hvernig fjárveitingavaldið bregst við vandamálum Byggingarsjóðs. Þau verða ekki hækkuð, ef ekki fæst nægilegt fé til þess. Ég hefði átt von á því, að ég heyrði það einhvers annars staðar frá en frá 4. þm, austf., vegna þess að ég veit, að Austfirðingar hafa alveg sérstakan áhuga á byggingu leiguíbúða, að það mundi draga sérstaklega ský fyrir sólu hjá almenningi í landinu, ef þessar íbúðir yrðu byggðar. Ég held, að það sé einmitt krafa úti um allt land, að þessar íbúðir hafi forgang umfram aðrar.

Til hv. 9. landsk. þm. vil ég beina því, hvort hann álíti ekki, að einhverjir hafi fengið svolítið minna úti á landi, vegna þess að Breiðholtsframkvæmdirnar hafa haft algeran forgang á undanförnum árum, sem hans flokkur átti að fjármagna, en sveikst um.