05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3547 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

227. mál, notkun nafnskírteina

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hv. d. hefur haft þetta frv. til meðferðar. Það felur í sér nokkrar breyt. á l. um nafnskírteini, en höfuðatriðin eru þó aðallega tvö.

Í fyrra lagi er það, að aldursmark þeirra, sem útgefin fá nafnskírteini, verði hækkað í 14 ár úr 12, Allir þeir, sem hafa haft mest með mál af þessu tagi að gera, eru á einu máli um, að það hafi tiltölulega mjög litla þýðingu, að börn undir fermingaraldri fái í hendur gögn af þessu tagi, auk þess sparist verulega kostnaður, ef hætt yrði við útgáfu til barna á aldrinum 12–14 ára.

Í síðara lagi er það 4. gr. frv., sem segir fyrir um nokkra breytingu, á þá leið, að hverjum lögreglustjóra sé heimilt, að því er varðar hans umdæmi, að kveða á um, að nafnskírteini einstaklinga á aldursbilinu 18–23 ár skuli ekki vera gilt sönnunargagn um aldur, nema lagt sé fram sérstaklega útgefið skírteini með öðrum lit en hin almennu skírteini bera. Þetta ákvæði er talið og mun gera það að leysa af hólmi verulega skírteinaútgáfu, sem annars er mjög fyrirferðarmikil og kostnaðarsöm fyrir Hagstofuna og eins fyrir þá einstaklinga, sem leysa til sín skírteini. Ekki er síst ástæða til að minnast á sönnunargögn í sambandi við aldur, þar sem er ökuskírteini, sem eru mjög notuð í því skyni við margs konar tækifæri. En með þessari breytingu samkv. 4. gr. frv., er þó fullnægt öllum öryggiskröfum, sem gera verður í þessu efni, a.m.k. eins og kostur er á.

Aðrar breytingar í þessu frv. eru smávægilegar, og ég tel ekki ástæðu til að rekja þær. Ég vil að öðru leyti leyfa mér að skírskota til ítarlegrar framsöguræðu hæstv, menntmrh. og enn fremur grg. fyrir frv.

Umsagnir liggja fyrir frá þrem aðilum: frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Félagsmálastofnun Reykjavíkur og í þriðja lagi frá barnaverndarráði Íslands, og þær eru allar sammála um það, að þetta frv. nái fram að ganga. — Ég vil geta þess, að í einni umsögninni, þ.e.a.s. frá barnaverndarráði Íslands, er getið um það í lokin í umsögn ráðsins, að því sé treyst, að börnum á aldrinum 12–14 ára verði fengið í hendur svokallað skólaskírteini og það sé þá gert með hliðsjón af kvikmyndaeftirliti.

— En eins og ég hef sagt, mælir allshn. með samþykkt þessa frv.