05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég held, að ég hafi ekki miklu við að bæta það, sem fram kom hjá mér við 2. umr. málsins. En síðan hafa komið fram brtt. Ég vil taka fram, að ég er andvígur brtt. hv. þm. Steinþórs Gestssonar, sem leggur til, að 2, mgr. 16. gr. verði felld niður, þannig að bújarðir verði metnar miðað við gangverð, en ekki miðað við notkun þeirra til búskapar. Ég er sannfærður um, að bújarðir eru í dag tiltölulega lágt metnar miðað við raungildi þeirra á almennum markaði, og þær hækkanir, sem orðið hafa á fasteignamati og hafa verið bundnar við ákveðna prósentutölu yfir landið allt, eru ekki í mörgum tilvikum a.m.k. í neinu sambandi við raunverulega hækkun gangverðs, ef miðað væri við, að löndin væru nytjuð til allt annarra hluta en búskapar eða þau væru bútuð niður í sumarbústaðalönd. Ég er því sannfærður um, að samþykkt till. hv. þm. mundi leiða til þess, að fasteignamat á mörgum jörðum mundi stórhækka og með því væri tvímælalaust verið að torvelda búskaparmöguleika á þessum jörðum.

Ég get samþykkt það, að frá almennu sjónarmiði er að sjálfsögðu eðlilegast, að allar fasteignir í landinu séu metnar út frá sömu reglunni. Hv. þm. getur að sjálfsögðu kallað þær eignir annars flokks, sem metnar eru út frá annarri reglu. En þetta skiptir bara ekki máli. Ég er sannfærður um það, að lægra fasteignamatsverð á bújörðum mun ekki torvelda sölu þeirra, og það mun ekki heldur hafa áhrif á gangverðið sem slíkt. Gangverðið getur verið með öðrum hætti. En með þessu er verið að torvelda búskaparmöguleika á þessum jörðum, og ég er sannfærður um, að bændum er enginn greiði gerður með samþykkt þessarar till. hv. þm. Þess vegna er ég henni andvígur og mun greiða atkv. gegn henni.

Ég hef á þskj. 678 lagt fram örlitla brtt. við 2. gr. vegna umkvartana, sem komu frá hv. þm. Steinþóri Gestssyni um orðið „landmörk“. Ég var honum fyllilega sammála um, að þetta orð væri hortittur í frv. og bæri að lagfæra. Ég nefndi það hér við 2, umr., að hægt væri að hugsa sér annaðhvort að tala um landamörk eða landamerki. Ég hef lagt fram brtt. á þskj. 678, og með hliðsjón af því, að ég tel eðlilegra, að orðalagið verði landamerki, þannig að í stað orðsins „landmarka“ komi landamerkja, en ekki landamörk, eins og stendur á þskj. 678, þá óska ég eftir því, að till. verði borin upp með þeim hætti og prentuð upp með þessari leiðréttingu.