05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja þessar umr. neitt sem heita má, en ég get ekki látið hjá liða að segja hér örfá orð vegna þeirra ummæla, sem hæstv. landb.- og fjmrh. hafði hér áðan varðandi till. mína. Hann sagði eitthvað á þá leið, að verð bújarðanna mætti ekki miða við laxveiði eða önnur hlunnindi. Það var ekki það, sem ég var að ræða um, því að ég veit ekki betur en það séu fyrirmæli um það í l., að hlunnindi séu metin sér, og þrátt fyrir það, þó að þeir, sem sömdu frv., séu áreiðanlega allir af vilja gerðir að gera engri atvinnustétt órétt eða neinum manni órétt, sem lögin varða, þá er ekki þar með sagt, að þeim hafi ekki getað yfirsést um neitt.

Ég verð að segja það, að þær skýringar, sem hér eru gefnar um 16. gr. og hæstv, ráðh. las upp, gefa enga vísbendingu um það, við hvað á að miða matið. Það segir aðeins: „Að því er varðar bújarðir er gert ráð fyrir, að þær séu metnar sem slíkar“. En á hvern hátt? Ég var að reyna að lýsa því hér áðan, að hvað varðaði fjármagnskostnað við uppbyggingu verðlags, þá verður ekki séð, að þar sé nein algild regla að fara eftir, og ég hef ekki séð, að það geti verkað eins og hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir. Hins vegar vildi ég árétta það, sem ég bygg, að ég hafi þó komið að hér áðan, að það er mjög algengt, að gildandi fasteignamat + 45% hækkun, sem gerð er, vegna álagningar fasteignaskatta, sé haft til viðmiðunar við sölu á bújörðum austur í Árnessýslu.