06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Þorvaldur Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki tími til nú að fara út í almennar umr. um þessi þýðingarmiklu mál. Ég tek undir það eins og aðrir, sem hér hafa tekið til máls, að æskilegt er, að það sé unnið sem best að því að að koma upp leiguíbúðum. Ég tek líka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að á þetta mál verður að líta sem heild. Það þarf að taka tillit til ekki einungis sérstakra félagsmálalegra ráðstafana, eins og leiguíbúðanna, heldur og ekki síst hinna almennu íbúðalána Byggingarsjóðs ríkisins.

Þegar l. um húsnæðismálastjórn voru sett árið 1970, var byggingavísitalan 439 stig. Hún er nú 913 stig. Þegar l. voru sett 1970, var upphæð almennra íbúðalána 600 þús. kr. en þau eru nú 800 þús. kr. Byggingarvísitalan hefur hækkað um 108%, en lánin um 33%. Þetta er hinn alvarlegi hlutur í sambandi við þróun málanna.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri æskilegt og eðlilegt að hækka lánin. Auðvitað er það æskilegt og eðlilegt. En er ekki hægt að gera þær kröfur til þessarar hæstv. ríkisstj., að hún standi að því, að hin almennu íbúðalán séu jafnhá að notagildi og ákveðið var af fyrrv. ríkisstj. árið 1970. Ég held, að það megi ekki slá af þeirri kröfu til núv. ríkisstj. Þess vegna mun ég bera fram þáltill. um hækkun íbúðalána úr 800 þús. kr. í 1200 þús. kr., og ég veit ekki betur en þeirri þáltill. verði útbýtt hér í dag.