05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vakti athygli á því í fjh: og viðskn, og hef einnig vakið athygli á því við 2., umr. þessa máls, að í þessu frv. er gert ráð fyrir sérstökum 6 mánaða uppsagnarfresti á þeim starfsmönnum, sem ráðnir eru samkv. frv. Sami háttur er hins vegar ekki hafður á um aðrar nýjar stofnanir, sem gert er ráð fyrir að setja á laggirnar samkv. till. ríkisstj. Ég vil benda á, að þessi 6 mánaða uppsagnarfrestur, sem hér er gert ráð fyrir í sambandi við matsmenn, er í mótsögn við 4. gr. l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú er maður skipaður í stöðu, og ber þá að líta svo á, að hann skuli gegna stöðunni, þar til eitthvert eftirgreindra atriða kemur til:

1. Að hann brýtur af sér í starfinu, svo að honum beri að víkja úr starfi.

2. Að hann fullnægi ekki skilyrðum 3. gr. þessara laga.

3. Að hann fær lausn samkv. eigin beiðni.

4. Að hann hefur náð hámarksaldri, sbr. 13. gr.

5. Að hann flyst í aðra stöðu hjá ríkinu.

6. Að skipunartími hans samkv. tímabundnu skipunarbréfi er runninn út.

7. Að staðan er lögð niður, sbr. 14. gr.

Nú er ég ekki að segja, að ég geti ekki hugsað mér einhverjar breytingar á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, að það sé samræmi í þessu efni í lagasetningu Alþ., og ef engar sérstakar ástæður liggja fyrir um, að þessi háttur er hafður á í þessu frv., mun ég gera það að till. minni og leggja til skriflega, að þessi orð „með 6 mánaða uppsagnarfresti“ falli niður í 18. gr., þar sem segir: „Mat fasteigna annast sérstakir matsmenn, sem ráðherra ræður með 6 mánaða uppsagnarfresti úr hópi umsækjenda.“ Sömu till. mun ég gera í sambandi við 7. gr., þar sem segir: „Fasteignaskrá starfar undir stjórn forstjóra, sem ráðh. ræður til starfs með 6 mánaða uppsagnarfresti“ o.s.frv. Nú er ekki gert ráð fyrir þessu t.d. í stofnun um ríkismat á fiskafurðum. Þar er gert ráð fyrir því, að forstjórinn verði ráðinn með venjulegum kjörum. Brtt. mín hnígur í þá átt, að um alla opinbera starfsmenn gildi hin sama regla, sú sem kveðið er á um í l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.