05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

302. mál, félagsráðgjöf

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að vekja athygli á mjög sérstæðu atriði í sambandi við það, með hverjum hætti þetta mál er fram lagt. Um efnisatriði þess mun ég ekki ræða, enda hafði ég ekki búið míg undir það. Mér virtist, að framlagning þessa máls væri e.t.v. af einhverjum misskilningi komin úr hendi hæstv. heilbrrh.

Svo er um félagsráðgjöf, eins og raunar kom fram í umr. um þessa starfsgrein hér á Alþ. í vetur, að hún er hjálpargrein og tengiliður ýmissa annarra starfsgreina, svo sem læknisfræði, sálarfræði, lögfræði, félagsfræði og guðfræði, svo að nokkuð sé nefnt. Einnig er þessi starfsgrein mikið nýtt á sviði ýmiss konar skólastarfs og í margs konar framfærslumálum. Það er því ekki hægt að segja, að félagsráðgjöf heyri til heilbrigðismála sérstaklega, fremur en margt annað í þjóðfélaginu. En í víðtækasta skilningi má það auðvitað til sanns vegar færa, að flest, sem heiti hefur í þjóðfélaginu, geti með einhverjum hætti heyrt heilbrigðismálum til, ef maður teygir sig út í ítrustu rök. Vissulega getur ýmiss konar skólastarf verið því tengt, að nemendurnir njóti fyllstu félagslegrar heilsu og stefnt sé að því að þeir hljóti fyllsta andlega þroska o.s.frv. Út frá slíkum röksemdum gæti hæstv. heilbrrh. látið sér detta í hug að flytja frv. um hvaðeina á sviði þjóðmálanna.

Félagsráðgjöf sem slík virðist fljótt á litið beinlínis hljóta að heyra undir félmrn. Menntun í félagsráðgjöf virðist eftir núv. starfaskiptingu í stjórnarráðinu hljóta að heyra undir menntmrn. eins og menntun í öðrum starfsgreinum. En hæstv. ráðh. Alþb. láta það sig ekki miklu skipta. Þess er skemmst að minnast, að hér á Alþ. í vetur flutti hæstv. sjútvrh. frv. um menntun í fiskvinnslufræðum og skyldi sú grein tilheyra sjútvrn. Á sama tíma var hæstv. menntmrh. með annað frv. svipaðs eðlis, þar sem sú grein skyldi heyra undir það rn. Það virðist því vera ákaflega óljóst, hvað hæstv. ráðh, þykir heyra til síns verkahrings hverjum og einum.

Hæstv. heilbrrh. gat þess í framsöguræðu sinni, að það hefði verið athugað í því rn., hvort mál þetta rúmaðist ekki innan þess verkahrings, og það hefði einnig verið athugað í félmrn, og menntmrn. Mér er ekki kunnugt um, hverjir hafa athugað það í þeim rn., en ég þykist þess fullviss og reyndi að afla mér upplýsinga um það um það leyti, sem mál þetta var lagt hér fram, að hæstv. ráðh. sjálfum í þessum rn. var ekki kunnugt um framlagningu þessa máls eða undirbúning þess. Um það lá engin vitneskja fyrir og ekki var hægt að fá það upplýst, að svo væri.

Mér sýnist því fyllsta ástæða til þess að beita um þetta mál því ákvæði 8. gr. l. um stjórnarráð Íslands, 2. málsgr., að hæstv. forsrh. skeri úr um, hvaða rn. eigi um þessi mál að fjalla. 2. málsgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú þykir vafi á leika, undir hvert rn. málefni heyri, og sker forsrh. þá úr.“

Að vísu hefur hæstv. heilbrrh. tekið þetta verkefni að sér, eins og hann lýsti hér áðan, að ákveða, undir hvern þetta heyrði. En ég beini því hér með til hans að snúa sér til hæstv. forsrh. og æskja þess, að hann skeri úr um þetta efni.

Nú er það ekki mitt að svara fyrir hæstv. menntmrh. Ég geri ráð fyrir, að hann sé fyllilega maður til þess sjálfur og hans flokksmenn. En óneitanlega sýnist mér það ákaflega óviðurkvæmilega að farið, þegar það er vitað og raunar því lýst hér á Alþ. í vetur, að menntun í félagsráðgjöf er í vandlegri athugun á vegum menntmrn. og hefur raunar verið það í tvö ár, undirbúningur að námsbraut í Háskóla Íslands á þessu sviði stendur yfir, og það var raunar að því stefnt og þess getið í áliti háskólanefndar, sem hafði lokið störfum, áður en þessi hæstv. ríkisstj. tók við, og á þeim grundvelli starfaði svo og starfar enn þessi n. á vegum hæstv. menntmrn. En nú bregður svo við, að hér koma nýjar till. um menntun félagsráðgjafa frá hæstv. heilbrrh. og það þarf að upplýsa, hvort þær till. rekast á till. hæstv. menntmrh.

Fyrir því spyr ég um þetta efnisatriði, að mér þykir það mjög miklu skipta, að menntun á þessu sviði færist inn í okkar land. Starf félagsráðgjafa byggist m.a, á þekkingu, sem verður að vera staðbundin og bundin við sérstök lög og reglur og aðstæður þess lands, þar sem starfið er stundað, ef það á að koma að hinum fyllstu notum. Við eigum sem betur fer nokkrum ágætlega menntuðum félagsráðgjöfum á að skipa, en þeir þyrftu að vera miklu fleiri, og á meðan þessi menntun er ekki flutt inn í landið verða þeir ekki nægilega margir.

Ýmiss konar ný löggjöf, sem við munum setja sennilega á næstunni, gerir einmitt ráð fyrir talsverðum fjölda nýrra félagsráðgjafa, og forsenda til framkvæmdar ýmiss konar nýrrar löggjafar er einmitt, að við eigum nægilega mörgum vel menntuðum félagsráðgjöfum á að skipa.

Ég vil því leyfa mér að beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, — ég man nú ekki, til hvaða n. hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) — hæstv. ráðh. lagði til, að málið færi til heilbr.og trn., — mér sýnist að vísu, að það eigi ekki fremur heima þar en málið yfir höfuð í heilbrn. Ég mun samt alls ekki setja mig á móti þeirri till. hæstv. ráðh. á þessu stigi. En þar eð ég á sjálf sæti í þessari n., mun ég ekki þurfa að bera fram þau tilmæli til n., sem ég ætlaði að gera hér úr ræðustól. Ég mun þá beita mínum litlu áhrifum í þeirri n. til þess að sjá svo til, að þarna verði ekki um árekstur að ræða á milli þess verkefnis, sem mér skildist á hæstv. ráðh. í vetur, að verið væri að leysa á vegum þess rn., og þeirra till., sem liggja fyrir í þessu frv.

Hitt er svo annað mál, að ég er engan veginn með þessum aths. að mæla gegn því, að sett verði sérstök lög um starfsréttindi og skyldur félagsráðgjafa. Þvert á móti tel ég nauðsyn, að slík löggjöf verði sett. Ég vil aðeins vekja á því athygli, að það hlýtur að vera svo með þessa stétt eins og aðrar, að menn verði að halda sig við almennar reglur, sem gilda um starfaskiptingu í stjórnarráðinu.

Þegar ég leyfði mér í vetur að bera fram fsp. um menntun félagsráðgjafa til þess að knýja á um það, að framkvæmd yrði fyrirætlun um að koma á íslenskri félagsráðgjafamenntun, sagði hæstv. menntmrh. svo í lok ræðu sinnar:

„Aðgangur er víða þröngur að námsstofnunum á þessu sviði, og þar sem starfsvettvangur félagsráðgjafa virðist jafnframt fara vaxandi, eins og fyrr var drepið á, virðast flest rök hníga að því, að sem fyrst beri að stofna til menntunar í félagsráðgjöf hér á landi. Menntmrn. hefur fyrir sitt leyti fullan hug á að fylgja því máli fram.“

Á þessu vildi ég leyfa mér að vekja athygli og mun svo reyna að gera mitt til að athuga málið betur í nefnd.