05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum barst okkur fulltrúum Sjálfstfl. í utanrmn. til eyrna, að ríkisstj. hefði veitt austur-þýskum flugvélum lendingarleyfi, til þess að hér gætu farið fram áhafnaskipti á austurþýskum verksmiðjutogurum.

Þar sem hér var um að ræða, ef rétt var hermt, breytta stefnu í þessum málum, báðum við hv. 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, um fund í utanrmn., þar sem ríkisstj. gerði grein fyrir máli þessu. Á fundi í utanrmn. í morgun staðfesti forsrh., sem mætti þar í fjarveru utanrrh., að rétt væri, að austur-þýskum stjórnvöldum hefði verið veitt heimild til þess að láta flugvélar lenda hér 3 sinnum á tímabilinu 12. apríl til 4. maí, nánar tiltekið 12. eða 13. apríl, 23. eða 24. apríl og 3. eða 4. maí. Hingað yrðu fluttar þrjár 85 manna áhafnir verksmiðjutogara til skipta á öðrum, og þau verksmiðjuskip kæmu hér til hafnar. Á utanrmn: fundinum kom fram, að erindi þessa efnis frá austur-þýskum stjórnvöldum hafði borist utanrrn. 22. febr. s.l., en ekki verið skýrt frá því í utanrmn. heldur, eins og fram kom áðan, þurftum við fulltrúar Sjálfstfl. að óska sérstaklega eftir fundi til þess að fá þetta mál upplýst. Við umr. í utanrmn. í morgun gagnrýndum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar mjög afgreiðslu þessa máls svo og þær leyfisveitingar, sem þar var skýrt frá, og við töldum, að hér væri um svo alvarlegt mál að ræða, að eðlilegast væri, að forsrh. gæfi þingheimi þá grg., sem hann gaf á fundi n. í morgun. Það var þess vegna, sem við fulltrúar Sjálfstfl. óskuðum eftir því við hæstv. forsrh. á fundinum, að hann beitti sér fyrir því, að fundur yrði boðaður í Sþ. þar sem þingheimi gæfist tækifæri til þess að hlýða á grg. hans, þá sem hann gaf í morgun, og stjórnarandstöðunni gæfist tækifæri til þess að láta gagnrýni sína í ljós, — þá gagnrýni, sem fram kom á fundinum í morgun.

Ég tel ekki eðlilegt, að ég í þessari ræðu minni hefji efnislega gagnrýni á þá grg., sem forsrh. gaf n. í morgun, fyrr en hann hefur flutt þingheimi þá grg. En ég vil þakka honum og hæstv. forseta SÞ. fyrir þetta tækifæri, að forsrh. mun nú flytja þingheimi þær upplýsingar, sem hann gaf utanrmn. í morgun.