05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3567 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Utanrrn. barst hinn 25. febr. 1974 orðsending frá sendiráði Austur-Þýskalands, þar sem óskað var leyfis til þess, að fram fari í Reykjavík í apríl og maí skipti á 3–4 áhöfnum útsjávarfiskiflota Þýska alþýðulýðveldisins, og tekið fram, að alls væri þar um 255 sjómenn að ræða. Jafnframt var beðið um lendingarleyfi í sambandi við 3 leiguflug austur-þýska flugfélagsins Interflug dagana 12.–13. apríl, 23.–24. apríl og 3.–4. maí. Utanrrn. sendi ofangreinda beiðni fyrst til samgrn. og síðar til sjútvrn. Hið fyrrnefnda, þ.e.a.s. samgrn., sendi málið flugmálastjóra til umsagnar. Í svari samgrn., dags. 15. mars, segir:

„Rn. fellst fyrir sitt leyti á þá niðurstöðu flugmálastjóra, að ekkert sé því til fyrirstöðu að veita umrætt leyfi, en vekur athygli á, að þar sem upplýsingar vantar um flugvélartegundina, liggur ekki ljóst fyrir, hvort mögulegt er að nota Reykjavíkurflugvöll.“

En þó að þetta erindi færi að sjálfsögðu í gegnum utanrrn., heyrir Reykjavíkurflugvöllur auðvitað undir samgrn.

Í svarbréfi sjútvrn., sem var dags. 21. mars, var sagt, að rn. staðfesti samþykki sitt við, að umrædd leyfi verði veitt í þau 3 skipti, sem tilgreind eru í bréfi Þýska alþýðulýðveldisins frá 25. febr. 1974.

Að fengnum þessum umsögnum tilkynnti utanrrn. sendiráðinu, að hið umbeðna leyfi yrði veitt, þ.e. lending 3 flugvéla frá Interflug í Reykjavík, þegar nánari upplýsingar bærust um flugið. En síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að það var hringt frá austur-þýska sendiráðinu og sagt, að þessar Interflugvélar væru svo stórar, að þær gætu ekki lent í Reykjavík, og væri þess vegna óskað lendingarleyfis fyrir þær í Keflavík. Sendiráðinu var tjáð, að slíkt væri ekki hægt að afgreiða í síma og skrifleg beiðni með ýtarlegum upplýsingum yrði að berast. Kom síðan sendifulltrúinn með bréf til ráðuneytisstjórans í utanrrn. 26. mars s.l., þar sem hann gerir grein fyrir þeim ástæðum, sem hann telur vera fyrir því, að það sé útilokað fyrir þessar flugvélar að lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Ráðuneytisstjórinn í utanrrn. tók málið til athugunar og ræddi það í síma við báða flugvallarstjórana, í Keflavík og Reykjavík, er báðir sögðu, að IL-18 flugvélar gætu lent í Reykjavík, en þó sló annar þeirra þann varnagla, að hugsanlega hefðu Austur-Þjóðverjar reglur um lendingar þessara véla, sem væru strangari en annars staðar. Það varð samt sem áður niðurstaðan í þetta skipti og þá í samráði við mig, sem þá gegndi störfum utanrrh., að þeim var enn á ný skrifað bréf, þar sem það var endurtekið, að þeir gætu fengið þessi 3 lendingarleyfi í Reykjavík og það væri skoðun íslenskra flugyfirvalda, að það væru skilyrði fyrir hendi til lendingar fyrir þessar vélar. En sendifulltrúinn kom svo enn á ný til viðtals við ráðuneytisstjórann og endurtók þau sjónarmið austurþýskra yfirvalda, að það væri gjörsamlega útilokað, að þessar flugvélar lentu á Reykjavíkurflugvelli. Færði hann fram frekari rök fyrir beiðni sinni, sem ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í hér, — vil þó aðeins geta þess, að hann skírskotaði bæði til þess, að Austur-Þýskaland hefði í verki algjörlega viðurkennt íslenska landhelgisútfærslu og skip þeirra hefðu haldið sig fjarri mörkunum, að þeir hefðu þennan hátt á um skiptingu á skipshöfnum á ýmsum öðrum stöðum, þó ekki hér í nálægum löndum, og að þessi skip veiddu alls ekki nálægt Íslandsmiðum, heldur aðallega við Nýfundnaland og Ameríkuströnd og eitthvað við Norður-Noreg. Einnig skírskotaði hann til vinsamlegra samskipta á milli landanna, en það er ekki annað hægt að segja en að mjög vinsamleg samskipti hafi verið að öllu leyti á milli Íslands og Austur-Þýskalands.

Að loknu þessu var þetta tekið á ný til yfirvegunar, og það var svo ég, sem tók um það ákvörðun, — en á sínum tíma hafði málið áður verið rætt í ríkisstj., að leyfi yrði veitt fyrir þessum 3 flugvélum á Keflavíkurflugvelli, en það væri gert með þeim hætti, að austur-þýskum yfirvöldum og sendiráðinu væri skrifað bréf. Það bréf var skrifað 2. apríl, og þar segir, að það hafi verið ákveðið að leyfa sem undantekningu — ég endurtek það: sem undantekningu 3 lendingar flugvéla í Keflavík, 12.–13. apríl, 23.–24. apríl og 3.–4. maí 1974, með því skilyrði, að sundurliðaðar upplýsingar komi um flugvélarnar og ferðaáætlun með venjulegum hætti. Þetta leyfi megi ekki skilja sem nokkurn ádrátt eða vísbendingu um það, að frekari lendingarleyfi verði veitt í framtíðinni í þeim tilgangi að skipta um áhafnir á fiskveiðitogurum.

Það er augljóst, í hvaða tilgangi beðið er um slík leyfi. Það er að sjálfsögðu til að spara þessum skipum heimsiglingartíma, og þar af leiðandi má auðvitað játa, að það er augljóst, að þessi skip geta veitt eitthvað meira en ella, og það var auðvitað ástæðan til þess, að það þótti ástæða til þess að hugsa sig nokkuð um þetta. En hvort tveggja er, að sá háttur hefur lengi tíðkast, að sjómenn af erlendum skipum hafa komið hingað og farið með flugvélum. án þess þó að mér er ekki kunnugt um það, að um heilar skipshafnir hafi verið að ræða. Sjálfir höfum við haft þennan hátt á og notað við veiðar okkar, a.m.k. í Norðursjó. þegar þurft hefur að skipta um áhafnir, þ.e. að láta sjómenn fara flugleiðis á milli. Það var enn fremur litið svo á, að það væri ómögulegt að hindra það, að Austur-Þjóðverjar hefðu þann hátt á að láta þessar skipshafnir koma hingað með venjulegum farþegaflugvélum. Það hefði enginn getað bannað það. Það hefði sjálfsagt orðíð þeim eitthvað dýrara, og það er vafalaust ástæðan fyrir því, að þeir velja þennan kostinn, að nota leiguflug til þess.

En þegar þessi varð efnislega niðurstaðan eða forsendan fyrir því, að þetta leyfi hafði þó á sínum tíma verið veitt líka sem algjör undantekning á Reykjavíkurflugvelli, þá sá ég ekki ástæðu til þess að gera í þessu sambandi upp á milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar. Fyrir okkur er að mínu viti öldungis sama, hvort flugvélarnar lenda á Reykjavíkurflugvelli eða á Keflavíkurflugvelli, og Keflavíkurflugvöllur er auðvitað opinn alþjóðlegur flugvöllur, sem erlendar leiguflugvélar fara um og við synjum yfirleitt ekki um lendingarleyfi. En það er auðvitað oft, sem beðið er um lendingarleyfi fyrir flugvélar, og mér er ekki kunnugt um, að sá háttur hafi verið hafður á, að slík málefni hafi nokkru sinni verið lögð fyrir utanrmn. til umsagnar, heldur hafa það verið flugmálayfirvöld, sem hafa þar um sagt sitt.

Í þessu tilfelli var eina atriðið, sem gat gefið ástæðu til þess að fjalla um þetta í utanrmn., að það væri verið að greiða fyrir því, að einstök þjóð gæti veitt eitthvað meira af fiski í Norðurhöfum, kannske af fiski, sem mundi koma á Íslandsmið. Hitt tel ég aftur algjört aukaatriði í málinu, hvort flugvélunum er veitt lendingarleyfi á Reykjavíkurflugvelli eða á Keflavíkurflugvelli. En ég undirstrika samt enn, með þetta sjónarmið einmitt í huga, að við viljum ekki greiða fyrir svona skiptum, að þá er það tekið alveg skýrt fram í þessu bréfi, að þetta sé algjör undantekning og það megi ekki á nokkurn hátt skoða sem vilyrði fyrir því, að slík leyfi verði veitt í framtíðinni. Ég vil líka taka fram, sem auðvitað má segja, að óþarft sé, að þarna er auðvitað um „civil“ flugvélar að tefla, sem sæta að öllu leyti þeirri meðferð, sem venjulegar „civil“ eða leiguflugvélar sæta, og verður í engu brugðið út af þeim reglum, sem þar um gilda.