05.04.1974
Efri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

303. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr. og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið afgreitt í hv. Nd. einróma eins og það var flutt. Það er tengt samningum þeim, sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu 26. febr. 1974, en í þeim samningum voru m.a. ákvæði um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu. Í því samkomulagi var gert ráð fyrir nokkurri fyrirgreiðslu frá Atvinnuleysistryggingasjóði, meðan verið væri að koma þessari skipan á, og vil ég leyfa mér að lesa þau ákvæði, sem í samkomulaginu voru um þetta atriði:

„60% greiðslu, sem vinnuveitendur greiða vegna þessarar tryggingar, skal Atvinnuleysistryggingasjóður endurgreiða viðkomandi fyrirtæki mánaðarlega, enda hafi trúnaðarmaður og annar launþegi, er trúnaðarmaður eða stéttarfélag velur, staðfest framlögð gögn með daglegri uppáskrift.

Þann 1. mars 1979 lækkar greiðsluhlutfall Atvinnuleysistryggingasjóðs um 50% og síðan um 10% á ári næstu 5 ár, þannig að greiðsla sjóðsins fellur niður frá og með 1. mars 1984.

Samkomulag þetta tekur gildi við undirskrift samnings þessa, enda hafi ríkisstj. lofað að beita sér fyrir, að breyt. á l. um Atvinnuleysistryggingasjóð verði gerð á Alþingi því, er nú situr, er heimili greiðslu til vinnuveitenda, sbr. tölul. 7 hér að framan.

Reglugerð um framkvæmd og eftirlit verði gerð í samráði við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands.“

Ríkisstj. gaf yfirlýsingu um, að hún mundi beita sér fyrir þessari breytingu, og ég fól þremur mönnum að semja frv. til I. um breyt. á l. um Atvinnuleysistryggingar til efnda á þessu fyrirheiti. Í n. voru Hjálmar Vilhjálmsson fyrrv. ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., enn fremur Eðvarð Sigurðsson alþm. og Kristján Ragnarsson framkvstj.

Meginefni frv. felst í 5. gr. þess og er í samræmi við þau ákvæði, sem ég las upp hér áðan, en hér fylgja með einnig drög að reglugerð um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu, einnig drög að ráðningarsamningi um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu og loks drög að skrá yfir atvinnuleysisdaga, sem vinnuveitanda ber að greiða dagvinnukaup fyrir, til þess að hv. alþm. og allir sjái, hvernig fyrirhugað er að framkvæma þessa lagabreytingu.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.og trn.