17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

9. mál, grunnskóli

Björn Pálsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið að dunda hér í d. í þrjú ár eða jafnvel lengur. Fyrrv. menntmrh. skipaði n, til að semja þetta grunnskólafrv. Hann er verkmaður mikill og athafnasamur í menntamálum eins og öðru. Það er með menn, sem eru afkastamiklir, að það getur verið ágætt í vissum tilfellum, en aðalatriðið er samt, að það sé viturlegt, sem gert er, en ekki hvað mikið er gert. Ég efast ekki um, að í okkar fræðslumálum sé ýmislegt, sem væri þörf á að laga. En ég held, að þetta miðskólakerfi sé einna skást í okkar skólakerfi í dag.

Fyrrv. menntmrh., hv. 7. þm. Reykv., gerði allmikla byltingu í Háskólanum. Ég get ekki fullyrt, hve mikið fjölgaði þar af dósentum og prófessorum, því að þeir eru alltaf að koma inn. Mér er sagt, að þeir hafi komið inn undanfarið eins og á færibandi. En þetta var löggjöf, sem var samþ. í hans tíð, og stúdentunum hefur fjölgað mikið. Það eru skiptar skoðanir um það, hvort þörf er fyrir allt þetta háskólanám og hvort sumum deildum þar sé ekki að nokkru leyti ofaukið og jafnvel of margir stúdentar í öðrum deildum, þannig að ég geri jafnvel ráð fyrir því, að það væri meiri þörf að endurskoða löggjöfina um Háskólann og gera hana hagnýtari en hún er, heldur en fara að hamast í þessu grunnskólakerfi.

Kennaraskólinn var gerður að háskóla, það var hrúgað þar inn svo mörgum nemendum, að það var ekkert rúm fyrir þá, til þess að reyna að hafa þetta hóflegra að tölu, var hann allt í einu gerður að háskóla, og það voru bara stúdentar, sem þar fengu að innrita sig. Þetta væri nú allt gott og blessað, ef það væri til bóta, við fengjum betri kennara með þessu móti. En það dreg ég mjög í efa. Ég er svo hræddur um, að þeir stúdentar, sem eru miklir námsmenn, — en það þurfa vitanlega ekki alltaf að vera bestu kennararnir, það er fjarri því, — eða hafa mikla hæfileika, þegar þeir eru búnir að taka stúdentsprófið, þá fari þeir e.t.v. í eitthvað annað, en fari ekki að leggja fyrir sig barnakennslu. Reynslan var nú sú, að við fengum marga frábæra barnakennara, á meðan skólinn var styttri, var enginn fjögurra ára skóli. Þá fengum við frábæra barnakennara, þannig að ég held, að það sé ekki nokkur trygging fyrir því, að það verði betri barnakennarar, sem eru búnir að hanga fyrst í skyldunáminu, svo 4 ár í menntaskóla, eins og það hefur verið, og fara svo að dunda 3 ár í kennaraháskóla, aðallega til að læra uppeldisfræði eða eitthvað slíkt, sem er náttúrlega auðlærð fyrir suma, en sumir geta aldrei lært að verða kennarar eða miklir uppeldisfræðingar. Ég held jafnvel, að það væri réttara að endurskoða lög um þessa skóla fyrst og reyna að laga það, sem hefur verið ofgert viðvíkjandi þeim.

Núv. menntmrh. virðist hafa ákaflega mikinn áhuga á þessu frv. Ég er búinn að lesa þetta frv. tvisvar eða þrisvar sinnum, og ég las það allt saman, eftir að búið var að koma brtt. fyrir, og ég ætla ekki á nokkurn hátt að vera að deila á n. Sannleikurinn er sá, að mér fannst þeirra till. vera frekar til bóta. Þær gerðu engar stórar breytingar, en þær voru frekar til bóta, þannig að ég ætla ekkert að deila á n. Sannleikurinn er sá, að ef ætti að gera þetta frv. gott, þá þarf að semja alveg nýtt frv. og ekkert að vera að styðjast við þetta frv. Þegar maður les frv. og alla þá mælgi, sem í því er, þá held ég, að það hljóti öllum að vera ljóst, að þeir, sem semja þetta, eru alls ekki færir um að segja fyrir um, hvernig á að kenna nemendum. Ég hygg, að Snorri Sturluson hefði getað komið þessari visku, sem ekki er mikil fyrir í styttra máli en þetta. Vitanlega á margt af þessu að vera í reglugerð, en ekki í frv., og er það miklu hagnýtara, því að það getur alltaf komið í ljós, að það þurfi að breyta því, og þá er það miklu auðgerðara að hafa mikið af þessum aukaatriðum í reglugerð heldur en allt lögbundið, þannig að bara út frá þeim sjónarhól séð er frv. óskynsamlegt. Þessi mælgi er alveg dæmalaus, eins og hér er búið að minnast á.

Skoðun mín viðvíkjandi þessari barna- og unglingafræðslu er, að við eigum að beita sem allra minnstum þvingunum við unglingana, við eigum ekki að þvinga þá til að læra, heldur láta þá sækja á að læra. Ég hef ekki fengist við að kenna börnum, og þótt ég hafi ekki verið lengi í skólum, þá hef ég verið með mönnum, sem vildu læra, en gátu ekki lært, og með því að vera að neyða þá til að sitja lengi í skóla, þá liða þeir alltaf fyrir minnimáttarkennd, og það getur eyðilagt líf þeirra. Ef þessir menn komast í eitthvað annað, sem þeir eru hneigðir fyrir og hafa hæfileika til, — við skulum segja, að þeir geti farið að smíða, gera við bíla, farið á sjóinn eða gera eitthvað annað, sem þeir hafa hæfileika til, þá geta þeir fengið sitt sjálfstraust og sína lífsgleði. En með því að vera að þvinga einstaklinga til þess að gera. það, sem þeir hafa ekki hæfileika til, er verið að eyðileggja þá. Þess vegna er ég á móti mjög löngu skyldunámi. Og ég er hræddur um, að það sé verið að apa þarna eftir nágrannaþjóðum okkar, sem eru núna farnar að stiga til baka aftur í þessu. Þess vegna álít ég, að skyldunámíð þurfi að vera hóflega langt. Vitanlega þurfa allir að fá fræðslu, en það á ekki að vera að þvinga þá til að vera of lengi, sem geta ekki lært. Ég hef talað um þetta við ýmsa barnakennara og þá, sem hafa kennt börnum og unglingum, og þeir hafa sagt mér, að það sé svona þriðjungur af unglingunum, sem ekki getur lært neitt að ráði bóklega. Annar þriðjungur er, sem gengur svona sæmilega. Svo er þriðji þriðjungurinn, sem á auðvelt með að læra. Það þarf ekkert að vera hæfileikaminna fólk, þótt það sé ekkert næmst á bókina, og það getur verið eins þjóðnýtt fólk í starfi eins og hitt, því að sem betur fer eru hæfileikar manna misjafnir, enda þurfa menn að vinna við ýmsa hluti, og það væri óhagkvæmt, ef allir hefðu eins hæfileika.

Annað er það, að ég álft, að það ætti að vera rýmri heimild en er í þessu frv. með unglingana, að þeir fái að hvíla sig, ef þeir vilja, þeir verði ekki þvingaðir látlaust áfram í 9 ár. Ef þeir fá að hvíla sig og fara að vinna við eitthvað annað, þá getur vaknað hjá þeim áhuginn við að læra. Þessi endalausa skylda, þeim finnst að það sé alltaf verið að reka á eftir sér, þetta gerir börnin löt og hyskin. Það á að vera heimild til þess, að þau fái að hvíla sig í eitt eða tvö ár, ef þau óska þess, og þeir, sem ekki ætla að halda áfram langskólanámi, hafa meira gagn af því, ef þeir læra frá 16–20 ára aldurs, en ef þeir læra yngri en 16 ára, enda eru unglingar mjög misjafnlega bráðþroska, þannig að þarna ætti að vera rýmri heimild en er í frv., því að hún er nánast engin til, að menn fái að fresta námi. Svo álít ég ekki nokkra þörf á að hafa skólatímann svona langan árlega. Við þekkjum það, sem búum úti á landsbyggðinni. Börnin voru þrjá mánuði í barnaskólanum árlega og lærðu eins mikið og börnin í bæjunum, sem voru í 6–7 mánuði. Það þarf ekki lengra en minnast á hv. 5. þm. Norðurl. v. Hann sagði mér, að hann hefði verið tvo mánuði í skóla árlega tvo vetur, tvo mánuði hvorn vetur, þá kunni hann fögin utanbókar. Svo var hann sér til gamans og til þess að horfa á hina þriðja árið. Menn eru misnæmir. Ég veit, að hann segir þetta satt, þannig að það er alveg ástæðulaust fyrir þá, sem hafa miklar námsgáfur, að kveljast á því að sitja 9 mánuði árlega í 9 ár, ef þeir geta lært á miklu skemmri tíma.

Svo er eitt við þetta frv., sem gerir það að verkum, að ég get ekki greitt atkv. með því. Það virðist vera alveg gengið fram hjá — eða nær alveg — þörfum dreifbýlisins. Það er allt önnur aðstaða hér í Reykjavík en í sveitum og jafnvel í minni byggðarlögum úti á landi. Miðað við að hafa þetta 9 ár þá er þetta fyrst og fremst fósturskóli. Það á að taka börnin ung, þau geta farið heim til sín á kvöldin og verið hjá foreldrum sínum á kvöldin og nóttunni, og ef foreldrarnir vinna bæði úti, þykir þeim gott að losna við þau að deginum. En þetta horfir allt öðruvísi við hjá okkur í dreifbýlinu, og ég vil þess vegna, að þetta sé aðgreint miklu meira í frv. heldur en gert er. Það er raunar verið að tala um, að það þurfi ekki að vera nema 7 mánuði undir vissum kringumstæðum og svo 71/2, en það er bara óþarflega langt úti á landsbyggðinni. Aðalatriðið er að halda áfram að læra, meðan verið er við það, en ekki hve marga mánuði verið er við það, því að þegar menn fara að dunda við lærdóminn, þá læra þeir ekki neitt. Þeir gleyma þá jafnóðum og þeir læra. En sinni unglingur námi vel, geta þeir lært á ótrúlega skömmum tíma, einkum ef þeir hafa námsgáfur. Svo á þetta að vera miklu rýmra með að kenna börnunum heima, ef mæðurnar vinna ekki úti og eru heima hjá sér. Það er gerbreytt viðhorf í sveitunum t.d. frá því, sem var. Það er margfalt minni vinna, síðan rafmagn kom og öll þægindi. Ef konurnar eru færar um það eða foreldrarnir, annað hvort þeirra, og hafa tíma til þess, hví mega þeir ekki kenna börnunum heima og það sé bara eftirlit með því, að þau læri? Því er verið að þvinga þau í þennan skóla, kornung börnin, 7–10 ára?

Hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, var að tala um, að það væru dæmi til þess, að börn væru ekki farin að fara fyrr en 10 ára í skóla. Það eru vafalaust, sem betur fer, dæmi til þess. Það er langbest að læra heima, ef börnin hafa aðstöðu til þess, hvað ætli gáfaðir unglingar þurfi endilega í skóla til þess að læra þessi barnafög? Ef annaðhvort foreldra er sæmilega greint, er vel hægt að kenna þeim fyrstu bekkina, og það er betra fyrir börnin og gerir heimilin ánægjulegri. Hitt horfir öðruvísi við, ef konurnar vinna úti. Þá hafa þær ekki aðstöðu til þess, og þá eru þær fegnar að losna við börnin að deginum, og ég hef ekkert á móti því heldur. En ég vil bara, að þetta sé aðgreint. Þetta er svo mismunandi aðstaða. Konurnar í sveitinni vinna yfirleitt ekki úti, þær hafa enga aðstöðu til þess, og þá geta þær haft ánægju af að kenna sínum börnum og meira segja lært af því sjálfar.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að fara yfir allt þetta frv. og finna að öllu, sem er hægt að finna að í því og væri hægt að hafa á annan veg. Það mundi ekki endast mér dagurinn til þess. En það er ýmislegt, sem er dálitið skoplegt í þessu frv., og þarf raunar að semja það allt saman upp. Það, sem mér líkar ekki við hæstv. menntmrh., er, að ég vildi, að hann lagaði það, sem helst þarf að laga í menntamálakerfinu, en ekki fara að taka það, sem skást er í því í dag og koma því í ólag. Það er nú með þessar kröfur um stúdentsnám. Það var t.d. farið að setja þennan stúdentsstimpil á hjúkrunarkonurnar. Hvaða lifandi manni dettur nú í hug að það séu betri hjúkrunarkonur, þó að það sé búið að pína þær 9 ár í skyldunámi, svo í menntaskóla og svo í háskóla, — að þær verði duglegri hjúkrunarkonur en með svona venjulegri menntun? Það er dugnaðurinn að vinna, sem fyrst og fremst kemur til greina, og ýmisleg nærgætni fyrir hjúkrunarkonur, en ekki hvort þær séu góðar að læra tungumál og allra síst, að þær hafi slæpst endalaust í skólum, svo að þær nenni ekki neitt að gera. Því miður er það þannig með þetta langskólanám, að menn læra leti og slæpingshátt margir hverjir bara á því. Það er viss hópur, sem vinnur, en svo er stór hópur, sem lærir bara að dunda.

Við skulum taka menntaskólana hérna. Ég var að lesa skýrslu um það. Það er alltaf að fjölga þeim, sem fá 3. einkunn. Námshæfnin virðist vera að minnka eða ástundunin eða hvort tveggja. Það eru miklu meiri truflanir en var. Það er sjónvarp og alls konar skemmtanir og krakkarnir eru í þessu og hugsa ekki um að læra. Þess vegna er aðalatriðið, að það þýðir ekki að vera að pína unglinga, sem hafa ekki áhuga á að læra, — að pína þá við það. Þeir læra þá bara að slæpast.

Í 20. gr. frv. er talað um vesalings skólastjórana, og 20. gr. byrjar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Skólastjóri stjórnar starfi grunnskóla í samráði við kennara undir yfirstjórn menntmrn., fræðsluráðs, fræðslustjóra og skólanefndar.“ En það er miklu meira, sem hann þarf að taka tillit til. Þetta á allt að vera tvöfalt úti í dreifbýlinu, en það á ekki að vera hér í Reykjavík. Það eiga að vera fræðsluráð og fræðslustjórar, svo eiga að vera skólanefndir og skólanefndarfulltrúar. Skólastjórnin þarf að taka tillit til þessara tveggja aðila. Svo koma foreldrafélög og svo koma nemendafélög. Og skólastjórinn þarf að taka tillit til þessa alls. Svo er hægt að gera hann ómyndugan í ýmsum hlutum. Neðar í gr. segir: „Nú greinir skólastjóra og kennara á um meðferð tiltekins máls, og má þá vísa málinu til skólanefndar og fræðslustjóra, er fellir úrskurð um það. Ákvörðun skólastjóra gildir, uns úrskurður fræðslustjóra liggur fyrir.“ M.ö.o.: það er hægt að gera þessa vesalings menn ómynduga að öllu, sem þeir gera, og það eru ótal ráð og nefndir, sem þeir þurfa alltaf að vera að boða á sinn fund og hafa samráð við. Það verður víst ekki mikið úr kennslunni hjá þessum skólastjórum eftir þetta. Svo er ekkert þægilegt fyrir yfirmann, að það sé hægt að gera hann einfaldlega ómyndugan út af einhverju þrasi við kennarana og það sé fræðslustjórinn, sem getur gert það, og liggur ekkert fyrir um það, að fræðslustjórarnir hafi meiri stjórnunarhæfileika en skólastjórarnir.

Ég er ekkert hrifinn af einræði, en ef einhver á að ráða, þá megum við ekki gera honum ómögulegt að ráða, og við vitum, að það er ekki hægt fyrir nokkurn mann að stjórna einu eða neinu, ef hægt er að taka af honum ráðin um hvaða smámuni sem er. Ég hef rætt þetta mál dálítið heima í mínu kjördæmi, og mér virðist, að stemningin sé á móti frv. Yfirleitt er fólkið á móti því, og ég hef heyrt margar raddir hjá skólastjórum, sem eru mjög óánægðir með frv. og sumir algerlega á móti því.

Ég ætla ekki að þreyta ykkur á allt of miklum lestri, svo að ég stikla aðeins á stóru, því að það er eins og ég sagði áðan, að það mundi taka allt of langan tíma.

34. gr. er um skólabrytana. Það á vitanlega að ráða bryta og eftir tveggja ára setningartíma við sama skóla á bryti rétt á skipun í starf sitt, enda hafi hann meðmæli skólastjóra um skipan í starfið. Ég held, að með öllum þessum ráðum, sem eiga að starfa í kringum skólastjórana, væri kannske rétt að láta skólastjórana ekki hafa alveg einveldi um þennan bryta. Satt að segja álit ég óskynsamlegt að gera hann að starfsmanni hjá ríkinu, því að það er nú þannig með þessa ríkisstarfsmenn að það er ómögulegt að losna við þá, og það hefði verið ákaflega þarft verk hjá núv. hæstv. menntmrh., ef hann hefði komið því inn í fræðslulögin, að það væri hægt, að skólanefndir eða fræðsluráð og skólastjórar gætu losað sig við kennara, sem ekki hefðu hæfileika til að kenna, því að það þarf ekki marga slæma kennara við skóla til þess að eyðileggja skólann a.m.k. að nokkru leyti. Er alveg óþolandi, að skólarnir verði að sitja með lélega kennara og geti ekki losnað við þá, nema þeir hafi stórlega brotið af sér. Það ætti að vera eðlilegur uppsagnarfrestur hjá báðum aðilum, bæði þeim, sem ráða yfir skólunum, og eins kennurunum. En það er hrein plága fyrir skólann að þurfa að sitja með lélegan kennara. Viðvíkjandi þessum brytum, ef búið er að skipa þá sem starfsmenn ríkisins, þá er ómögulegt að losna við þá. Og það getur vel verið, að þeir verði latir við matreiðsluna. Ég held því, að þarna sé vitleysa á ferðinni, það væri réttara að ráða þá eins og gert hefur verið, en ekki að vera að skipa þá eins og fastlaunaða ríkisstarfsmenn. Það þarf hugsunarsemi viðvíkjandi matreiðslu.

Í 36. gr., — það er alltaf verið að tala um þennan vinnutíma, — segir, að þegar kennari nær 55 ára aldri, minnkar starfsskylda hans um 1/6, og er hann nær 60 ára aldri minnkar starfsskylda hans enn um 1/6 af fullri starfsskyldu. Til þess að öðlast framangreindan afslátt þarf 20 ára kennsluferil. Satt að segja held ég, að þetta sé alveg óþarfi. Ég held, að 55 ára maður geti unnið fullan vinnudag. Það getur komið til mála, úr því að menn eru yfir 60 ára, að lækka starfsskyldu. Ég held, að þarna sé gengið óþarflega langt. Menn eru orðnir svo óskaplega hræddir við vinnuna. Það væri a.m.k. alveg óhætt að draga það yfir 60 ára aldurinn.

Í 42. gr. kemur valnámíð, í 9. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta. Skal þar við það miðað, að verklegt skyldu og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi hans að lágmarki. Nú er það svo, að það þarf viss skilyrði til þess að geta stundað verklegt nám. Svo er síðar tekið fram, að ef unglingarnir vinna heima, þá má það koma að hálfu leyti, að mig minnir, upp í þetta skyldunám, verklega námið. Það þarf viss skilyrði til þess að geta lært verklegt nám. T.d. ef á að læra að fara með vélar, þarf unglingurinn að vera þar, sem unnið er með vélum. Það er ósköp litið verklegt nám, þó að það sé einhver smíðakompa til, þar sem þeir eru að klastra saman borði eða einhverri hirslu. Þetta var nú svona, þegar ég var í skóla. Ég var að puða við þetta. Ég er nú ekki neinn smiður, og ég hafði heldur ekkert gagn af þessu. Það er annaðhvort að gera hlutinn eða að gera hann ekki. Þessir skólar okkar núna hafa ekki skilyrði til að kenna þetta verklega nám. Það er t.d. nauðsynlegt fyrir þá, sem vinna í sveitunum, að læra að fara með vélarnar. Það er orðin svo mikil véltækni. Það verða þeir að gera við heyvinnuna eða við vinnuna með vélunum. Þeir geta ekki gert það í skólunum. Það er eins með sjávarútveginn. Það þarf að læra margt viðvíkjandi honum, bæði að verka fiskinn og afla fisksins. Það geta þeir vitanlega ekki gert t.d. á Reykjum í Hrútafirði eða á Húnavöllum eða í öðrum slíkum skólum. Ég held þess vegna, að það væri betra að hafa skyldunámið styttra, láta ganga að því að læra bóklegu fögin, og svo geta þeir farið í að læra það verklegt, sem þau eiga að læra, í sérstökum verklegum skólum, hvort það er heldur fiskiðnskóli eða sjómannaskóli eða vélskóli eða annað slíkt.

Ég veit t.d., að það væri æskilegt fyrir sveitadrengi að hafa námskeið til að læra að fara með vélar, það er orðið svo mikið um vélar, og þannig er það í öllum atvinnugreinum, jafnt í iðnaði og fiskvinnslu. Ég held, að það sé ekki ástæða til að blanda þessu svona saman. Ég held, að þessir skólar hafi ekki aðstöðu til þess að kenna verklega námið. Ég hef auðvitað ekkert nema gott um það að segja, að heimild sé veitt til þess, að þau fái að vera heima hjá sér og það sé metið upp í þetta verklega nám. En ég held það væri betra að hafa tímann styttri og ganga almennilega að því að læra bóklegu fögin.

Svo er 44. gr. ákaflega skopleg. Þar er nú vinnutímastyttingin komin. Þá er verið að reikna út, hvað barnið má vinna eða unglingurinn margar mínútur. Ég breytti þessu í klukkutíma, og það verður í 1. bekk eitthvað 14 eða 15 tímar á viku, sem má læra, og lesturinn á víst að vera í þeim tíma. Ætli það væri ekki betra fyrir þau að vera heima hjá móður sinni, blessuð börnin, en að vera að pína þau á heimavistarskóla og þau mega ekki vinna nema 14 eða 15 tíma vikulega? Það verða 3 tímar á dag. Svo eiga þau víst að læra að slæpast hinn tímann. Ég held, að það væri hollara fyrir börn í dreifbýlinu að fá að vera heima hjá sér. Hitt horfir öðruvísi við, eins og ég minntist á áðan, hjá þeim, sem þurfa endilega að losna við börnin að deginum, þar sem foreldrarnir vinna bæði úti. Þessu er of mikið ruglað saman. Svo er hjá eldri krökkunum, að þá á að miða við 40 stunda vinnuviku, og ég veit ekki, hvort það er ástæða til að hafa það svo nákvæmt. Ætli þau eigi ekki að sitja í tímum svona 25 tíma á viku, og þá ættu þau að hafa 10–15 tíma til að lesa. Ég held það sé nú alveg ástæðulaust að vera að banna blessuðum börnunum að lesa lengur, ef þau hafa gaman af því og langar til þess, og þyrfti ekki svona klausur. Hin, sem ekki nenna því, gera það ekki. Það væri hægt að sleppa þessu að einhverju eða öllu leyti, held ég. Þetta er dálítið hlægilegt.

Svo kemur hérna um tímann, sem þau eiga að vera í hverri kennslustund: „Lengd kennslustundar fer eftir ákvörðun skólastjóra. Eigi má þó samfelld kennslustund vera lengri en 80 mínútur og eigi að jafnaði skemmri en 20 mínútur. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla telst vera 40 mínútur.“ Hvað á eiginlega að þýða að fara að setja þetta í lögin? Það má vera 80 mínútur, það má vera 20 mínútur, en meðaltalið á að vera 40 mínútur og kennaranum sagt að ráða þessu að mestu leyti. Til hvers er þetta skraf? Þeir hafa ekki verið beint sparir á orðin, sem sömdu þetta. Þetta er náttúrlega eins og hver önnur vitleysa. Það er allt of langt að hafa börnin 80 mínútur og óþarflega stutt að hafa þau 20 mínútur, og hvað þarf að vera að rugla um þetta? Var þá ekki bara hægt að segja, að það ætti að vera 40 mínútur.

Svo kemur 57. gr., mjög merkileg grein. Sannleikurinn er sá, að bað er verið að tala um það, að þau hafi verið of erfið, þessi landspróf. En staðreyndin er sú, að þegar þessir unglingar eru búnir að taka landsprófin, þá standa þeir sig ekki of vel í menntaskólanum, þannig að reynslan er sú, að landsprófin hafa ekki verið of ströng. Það fara jafnvel fleiri í menntaskóla en eiga þangað erindi. En það, sem fyrst og fremst pínir unglingana áfram til þó að reyna að læra eitthvað, eru prófin. Ég var einu sinni á lýðskóla úti í Noregi. Þá voru engin próf þar. Þá voru fyrirlestrar og svoleiðis. Það lærði heldur enginn neitt. Það eru prófin, sem pína börnin til að læra, og ef prófin eru ekki, þá nenna þau ekki að læra. Þeir, sem eru námsmenn, læra, þeir standa sig í gegnum landsprófið. Hin læra minna, m.a. af getuleysi og í sumum tilfellum af leti, og það er ekkert um það að segja. Ef menn nenna ekki að læra, þá þýðir ekkert að vera að pína þá við það.

57. gr. hljóðar svo: „Próf í grunnskóla skulu jafnan vera framkvæmd af kennurum skólans, sbr. þó 58. gr. Kennarar skulu gefa umsögn og/eða einkunnir í loks hvers skólaárs eða námsáfanga, er gefi til kynna námsárangur, vinnubrögð og framfarir nemandans og viðhorf hans til viðfangsefna skólans. Upplýsingar þessar skulu færðir á spjaldskrá skólans og prófskýrslur veittar nemendum og foreldrum.“ M.ö.o.: það virðist eiga að mestu leyti að fella próf niður. Það er talað um það í öðrum greinum, að það eigi að vera einhverjar staðlaðar prófreglur um íslensku og stærðfræði, en það á a.m.k. að gera þetta allt saman vægara og óljósara. Það á að lengja tímann, og það á að stuðla að því, að börnin læri ekkert í þessum skólum. Ef ekkert aðhald er fyrir þau af prófunum, þá hætta þau að læra. Það hafa sagt mér kennarar hér í Reykjavík, sem kenna börnum, að það sé hluti af krökkunum, sem ekki geta lært, og þeim er hleypt í gegnum barnaprófið, án þess í raun og veru að þau hafi lokið því námi, sem til þess þarf, og er e.t.v. ekkert annað að gera. En ég held, að þarna sé gengið of langt. Ég held, að prófin, eins og þau eru, — það er hægt að gera einhverjar smávegis breytingar á því fyrirkomulagi, — en ég held, að þau séu bara nauðsynleg og góð.

Það er talið nauðsynlegt að koma í gegn þessari vitleysu til þess að geta samræmt kerfið. Á svo öll þessi hersing, hvort sem hún getur lært eða ekki lært, að fá aðild að menntaskólunum. Það þarf þá víst að stækka þá eitthvað. Svo, ef einhver próf eru þar, þá fellur mikið af unglingunum. En er nokkuð unnið við þessa breytingu? Er ekki best að hafa prófin eitthvað lík því, sem þau hafa verið? Ég er ekki að halda því fram, að það eigi að hafa þau allt of ströng, en ef próf eru ekki, þá læra menn ekki, nema einstaka maður. Þau eru aðhald.

Svo kemur ráðgjafar- og fræðsluþjónustan. Það er nú alveg kostulegt. Alls staðar eiga þessir sálfræðingar að vera. Það er bara, að eitthvað af börnunum verði ekki sálsjúkt af þessum sálfræðingum. Ég efa það ekki, að það eru ýmis börn, sem eru vandmeðfarin andlega, en þá er meiri þörf að taka fyrir rætur meinsins. Ég hygg, að það beri miklu meira á þessu hér í þéttbýlinu en hjá okkur úti í sveitunum. Ég hef afar lítið orðið var við, að börn séu mjög taugaveikluð hjá okkur a.m.k. Ég hef hlerað það hjá kennurum, að það eru ýmis börn hér taugaveikluð. Og ætli það sé ekki ástæðan fyrir þessu m.a., að þau hafi verið vanrækt á heimilunum? Of margir hjónaskilnaðir, konurnar vinna úti, og það er ekki hugsað nógu vel um börnin. Þau veiklast á þessu. Það væri sennilega meiri ástæða til að taka fyrir rætur meinsins. Ég hef ekki trú á, ef búið er að gera barn hálfvitlaust, að einhver hálfvitlaus sálfræðingur geri það með fullu viti. Það er fyrst og fremst undirstaðan að heilbrigðu sálarlífi barnsins, að heimilislífið sé í lagi, þar sem börnin eru alin upp, og það væri þarflegra af menntmrn., ef það væri hægt að hafa strangari lög viðvíkjandi hjónaskilnuðum og upplausn heimila, en að vera með sálfræðinga á eftir hverjum krakka. Sem betur fer hafa mörg börn ekkert með það að gera. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að hafa sérskóla fyrir slík börn, en það mun vera fyrst og fremst uppeldi barnanna, sem gerir þetta. Fyrir utan það eru náttúrlega nokkur börn, sem eru vangefin, eru fædd þannig, og það er ekki hægt að gera við því.

Svo er talað um forskóla og einkaskóla. Það er vafalaust ekkert á móti því að hafa forskóla fyrir unga krakka og ekki heldur einkaskóla, en þá eiga menn að kosta sjálfir. Forskólann á svo aftur ríkið að kosta. En það er eins og ég minntist á áðan með þessa einkaskóla. Það er alveg eins gott að kenna börnunum heima. Það þarf engan einkaskóla öðruvísi. En það er ekki gert ráð fyrir því, heldur á að hafa þetta með sérstakri skólakerfishliðstæðu. Það á að rýmka þetta. Það á að prófa unglingana. Það á ekkert að vera að neyða þá í skóla. Ef þeir hafa aðstöðu til þess að læra utan skóla eða heima og standa sig eins vel og krakkarnir í skólanum, þá á að lofa þeim það. Það er illa farið með gáfaða unglinga að vera að neyða þá til að sitja allt of lengi í skóla. Þeir fá leiða á náminu á því.

Ég ætla ekki að þreyta ykkur á því að vera að lesa meira upp úr þessu frv. Þetta er furðuleg langloka, og eins og ég sagði áðan, ég er ekkert að kenna menntmrn. um þetta. Þetta var lagt upp í hendurnar á henni, og n. reyndi að laga þetta, og till. hennar voru heldur til bóta, þannig að ég er ekkert að deila á n. En þetta er fáránlegt. Það er eins og þessir menn hafi verið að strekkja við að hafa þetta sem allra lengst, teygja lopann. Þeir hafa sennilega haldið, að það væri því meira vit í því sem þeir hefðu það lengra, og hafa þess vegna gleymt viskunni.

Það er margt fleira í þessu. Það eru t.d. öll þessi blessuð ráð, þessi tvöföldu kerfi. Úti í dreifbýlinu eiga kerfin að vera tvöföld. Það eiga að vera skólanefndir, það eiga að vera fræðsluráð, svo á að vera fræðslustjóri og svo á að vera skólanefndarfulltrúi. Hér í Reykjavík á þetta að vera einfalt. Það er miklu viturlegra. Hvað eiga þessar kúnstir að þýða? Er ekki hægt að hafa þetta einfalt kerfi? Og svo eiga héraðssamtökin, sem ekki er búið að lögfesta, eða kjördæmasamtökin að velja þetta fræðsluráð. Er ekki annaðhvort hægt að hafa skólanefndir eða fræðsluráð, en ekki hvort tveggja? Svo eiga báðir þessir aðilar að geta haft skrifstofur og starfsfólk, og ríkið á að borga helminginn af þessu. Þetta er tóm vitleysa. Það var áætlað, að þetta ætti að kosta eitthvað um 300 millj. kr. Nú vitum við, að allt hefur hækkað, og ætli hækkunin verði ekki sennilega nærri tvöföld? Sannleikurinn er sá, að það er ómögulegt að áætla þetta, og ég skal ekkert fullyrða um, hvað það verður, og verður e.t.v. minna, vegna þess að það verður aldrei framkvæmt. En það er enginn efi, að þarna verður um allmikið fé að ræða.

Mér skilst í frv. um verðstöðvun, að það eigi að skera útgjöldin niður um álitlega upphæð, eitthvað 1000 millj. kr. eða kannske meira. En þarna er verið að samþykkja aukna eyðslu, sem þið gerið ykkur ekki grein fyrir, hvað verður mikil, og því síður, að hún verði nokkuð til gagns, því að þessi lög verða á allan hátt verri en þau lög, sem eru í gildi núna. Þessi próf miða að því, að unglingarnir þurfi ekki endilega að læra mikið, enda verður það vafalaust þannig. Fyrst var þessi skattafsláttur okkar, sem gerir svona 550 millj. kr., svo kemur Akranesferjan, sem beint og óbeint fer sennilega upp undir 100 millj. kr. Svo kemur grunnskólafrv., sem verður 500–600 millj. Þessar þrjár vitleysur á þinginu nú gera sennilega eitthvað á annan milljarð. Svo þykjumst við ætla að skera niður útgjöld, af því að þau séu of há, — útgjöld, sem eru ekki að öllu leyti óþörf, og væri æskilegra að geta veitt fé 9 þær framkvæmdir en bæta hverri vitleysunni ofan á aðra.

Ég væri ekki að telja þetta eftir, ef ég hefði trú á því, að þessi lög væru til bóta, þau verða bara til ills. Ég sé yfirleitt afar fátt jákvætt við þennan lagabálk. Ég er í engum vafa um það, að Nd. samþykkir þetta frv. Það er nú nokkurn veginn vist. En ég er ekki alveg vonlaus um, að það dagi uppi í Ed. Það er nú þannig, að þeir eru öllu meiri fjármálamenn, kratarnir í Ed. en Nd. Svo höfum við mann í Ed., sem hefur dálitla reynslu og vit í fjármálum, þar sem Geir Gunnarsson er. Ég veit ekki, hversu ákafur hann verður að koma þessu í gegn. En reynslan sýnir það. Annars var hann að segja við mig áðan, að það væri ekkert ósanngjarnt, að frv. dveldi tvö ár í Ed., úr því að bað væri búið að dvelja þrjú ár í Nd., og ég var honum hjartanlega sammála um það. Þó ég sé vonlaus um það, að Nd. stöðvi þessa vitleysu alla, þá vona ég að hana dagi uppi. Ef svo leiðinlega fer, að frv. verði samþ., er það eins og hver önnur vitleysa, og þau lög verða vafalaust ekki ellidauð. En ég skil ekki vel, hvernig stendur á þessum áhuga hjá menntmrh. að koma þessu frv. í gegn. Sennilega er það fyrir honum eins og fuglunum, þegar þeir eru að unga út gaukseggjunum, að þeim þykir vænst um gaukseggið, af því að það er stærst, á meðan það er í hreiðrinu, en svo þegar unginn kemur úr því og étur allt frá hinum ungunum, þá fer ástin að minnka. Fuglarnir geta varla fóðrað gauksungann, því að hann þarf svo mikið. Ætli það verði ekki þannig með þetta frv.?