17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

9. mál, grunnskóli

Ólafur G. Einarsson: Herra forseti. Í þessum umr. hafa kostir og gallar frv. um grunnskóla verið tíundaðir. Þeir hv. þm., sem harðnað hafa í andstöðu sinni, hafa ekkert síður viðurkennt ýmsa kosti frv. En það er hins vegar eftirtektarvert, hversu ákveðin gagnrýni kemur fram við frv. einnig af hálfu þeirra, sem sýnt hafa vilja á því, að frv. nái fram að ganga. Þessir gagnrýnendur finnast bæði hér á hv. Alþingi og utan þess. Þó er e.t.v. enn eftirtektarverðara það áhugaleysi fyrir þessu máli, sem svo ljóst hefur komið fram hér á hv. Alþingi. Þetta áhugaleysi hefur komið fram með tvennum hætti. Annars vegar með því, að þm. sjái ekki ástæðu til þess að hlusta á umr., og ég verð að segja það, að þetta á einkum við um þm. stjórnarflokkanna, þótt heiðarlegar undantekningar finnist þar á. Hins vegar birtist áhugaleysið í dræmri þátttöku í atkvgr. við 2. umr. hér skömmu fyrir páska. Flestar greinar frv. og brtt. hv. menntmn. voru samþykktar með þetta 21–24 atkv., sumar með 16:5, 19:2 og þar fram eftir götunum. Og ágreiningurinn um grundvallaratriði birtist í þessari sömu atkvgr. Þar var t.d. brtt. hv. 9. landsk. þm. um, að skólaskyldan skyldi ekki fortakslaust ná til 16 ára aldurs, heldur breytt í fræðsluskyldu, felld með 17:16 atkv., 3 sátu hjá og 4 voru fjarverandi. Sem sagt, það er minni hl. þm. í d., sem ræður ferðinni um eitt helsta ágreiningsefnið í þessu frv. Þetta gerist í máli, sem í eðli sínu er ópólitískt og engar flokksviðjar hafa verið lagðar á þm., svo að mér sé kunnugt. Þetta sýnir, að eitthvað meira en lítið er að.

Það, sem hér veldur, er að mínu áliti það, að fjöldi þm. er sáróánægður með ýmis ákvæði frv. Þeir telja hins vegar ýmsir, að önnur ákvæði séu það mikils virði, að þeir hika við að leggja stein í götu þess. Ég viðurkenni, að ég er í hópi þeirra, sem hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn. Vandinn er sá að þurfa e.t.v. að greiða atkv. með frv. vegna nokkurra grundvallaratriða, sem horfa til heilla, ef það þarf að kosta það að samþykkja í leiðinni það, sem er til óþurftar, svo að ekki sé fastar kveðið að orði.

Það er ástæðulaust nú að fara að telja upp allt það, sem mér sýnist gott eða slæmt við frv., en nokkur atriði vil ég þó nefna.

Það, sem ég tel einkum miður hafa farið, er í fyrsta lagi, að ekki skyldi breytt 1. gr. frv., eins og till. hv. 9. landsk. gerði ráð fyrir. Ég sleppi rökstuðningi fyrir þessari skoðun minni, hann hefur komið fram hjá ýmsum þm. hér í umr. Ég tel það einnig miður, að ákvörðun um slíkt ágreiningsatriði skuli tekin af minni hl. þm. í hv. deild.

Í öðru lagi tel ég það einnig miður farið, að ekki skuli nú notað tækifærið til að einfalda hin margþættu og flóknu fjármálalegu samskipti ríkis og sveitarfélaga í skólamálum. Hér var tækifærið, en það var ekki notað.

Í þriðja lagi er stjórnunarkafli frv. allt of flókinn, og það mun koma í ljós, þótt síðar verði, að hann verður að teljast meiri háttar mistök. Ég hef það á tilfinningunni, að hann sé samin með það markmið í huga að dreifa valdinu, en það er eitt af fyrirheitum hæstv. ríkisstj. Afleiðingin verður hins vegar sú, að þar er hver silkihúfan upp af annarri, eitt stjórnvaldið vísar á annað, en allt endar þó í hinu allsráðandi menntmrn. Allt verður þetta svo þungt í vöfum, að standa mun í vegi fyrir eðlilegri ákvarðanatöku þeirra, sem í raun eiga að stjórna skóla.

Í fjórða lagi getur það vart talist vansalaust fyrir Alþingi að samþykkja frv., sem enginn veit hvaða kostnað hefur í för með sér. Það eina, sem raunverulega er vitað, er það, að þarna hlýtur að vera um nokkra milljarða að ræða. Gott dæmi um ábyrgðarleysi í þessum efnum er samþykkt brtt. við 25. gr. frv., þar sem sú skylda er lögð á við gerð nýs skólahúsnæðis og endurbætur eldra húsnæðis að sjá fyrir aðstöðu fyrir nemendur til náms utan kennslustunda og til að neyta málsverða. Einungis 5 þm. greiddu atkv. gegn þessari till., en 16 voru með. Hvað kostar þetta? Það veit enginn. Það hefur verið um það spurt, en það fæst ekkert svar. Það eitt er vitað, að um er að ræða hundruð, ef ekki þúsundir millj. kr. Þessi afgreiðsla er á ábyrgð stjórnarflokkanna, en hæstv. fjmrh. má þó eiga það, að hann var í hópi þeirra, sem greiddu atkv. gegn þessari till. Þessi atriði og raunar mörg fleiri hafa áhrif á það, hver endanleg afstaða mín verður og vafalaust margra annarra. Það má reyndar fullyrða, að hvert eitt þessara atriða, sem ég hef hér nefnt, gætu dugað ýmsum til þess að snúast gegn frv.

Ég viðurkenni að sjálfsögðu, að ýmislegt er gott um þetta frv. að segja. Það, sem mér sýnist skipta meginmáli, er sú grundvallarstefna, sem fram kemur í frv. um skólakerfi og grunnskólafrv. byggir á, að hvert skólastig taki með eðlilegum hætti við af öðru, nemendur hljóti ákveðin réttindi til framhaldsnáms við lokapróf úr grunnskóla o.s.frv. Með þessu eru flestir þeir lausu endar, sem nú eru í okkar skólakerfi, sem hefur þróast nánast fyrir tilviljun og án heildarstefnu á undangengnum árum og leitt hefur til misréttis í námsaðstöðu, vanmats á verklegu námi og offjölgunar í háskóla. Það er veigamest atriði að bæta hér um, og það tel ég vissulega, að gerist með þessum frv., að því er þessi atriði varðar.

Þegar ég nú met þessi atriði og lít til þess, að raunverulega breytist ekkert, þótt frv. verði ekki afgreitt nú í vor, þá sýnist mér skynsamlegast að fylgja þeirri till. til rökstuddrar dagskrár, sem hér var mælt fyrir áðan. Um afstöðu mína til frv., verði sú till. felld, fer að öðru leyti eftir afgreiðslu þeirra till., sem enn eru óafgreiddar og skipta sumar hverjar meginmáli.

Hv. 5. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, gerði hér að umræðuefni áðan ákvæðin um landshlutasamtök sveitarfélaga. Ég vil bæta þar nokkrum orðum við. Þessi ákvæði eru í ýmsum greinum frv. í 11. gr. eru ákvæði, hvernig fræðsluráð skuli skipuð 5–7 mönnum, sem kjörnir séu af viðkomandi landshlutasamtökum, og síðar í greininni segir, að um kosningu og starfshætti fari skv. lögum og reglugerð um starfshætti landshlutasamtaka sveitarfélaga. Hvar eru þessi lög? Hvar eru reglugerðir? Það segir einnig, að í Rvík kjósi borgarstjórn Reykjavíkur fræðsluráð og fari hún með hlutverk landshlutasamtaka skv. lögum þessum, eftir því sem við eigi. Og það er talað um, að framkvæmdastjórar landshlutasamtaka eigi rétt til fundasetu í fræðsluráðum. Það eru ákvæði í 15. gr. um, að landshlutasamtök sveitarfélaga ákveði fræðsluskrifstofu stað. Fræðsluráði er heimilað að semja svo við landshlutasamtök sveitarfélaga, að fræðsluskrifstofa taki að sér tiltekin verkefni o.s.frv. Og í 85. gr. er einnig vikið að Landshlutasamtökum sveitarfélaga svo og í 86. gr. Nú langar mig til að spyrja hv. 3. þm. Vestfj. Hannibal Valdimarsson form. menntmn., sem jafnframt er form. félmn., hvernig honum gangi nú glíman við sjálfan sig, annars vegar sem form. menntmn. og meðmælanda þessara ákvæða um réttindi og skyldur landshlutasamtakanna, að því er tekur til skólamála, og hins vegar sem form. félmn., þar sem hann hefur nú í vetur komið í veg fyrir, að frv. um lögfestingu landshlutasamtaka sveitarfélaga yrði afgreitt. Í fyrra barðist hv. 3. þm. Vestf. gegn þessu sama frv., hafði nánast allt á hornum sér og taldi þessi samtök nánast hreina vitleysu í stjórnkerfinu. Hv. þm. Pálmi Jónsson spurði, hvort hann hefði skipt um skoðun. Sem meðlimur félmn. tel ég mig vita, að hann hafi ekkert skipt um skoðun. Þess vegna er spurning mín: Hvernig getur hv. þm. komið þessari fjölbreytilegu afstöðu sinni heim og saman, eða ætlar hann þrátt fyrir allt að beita sér fyrir því, að nefnt frv. nái fram að ganga? Og hvað sýnist hæstv. menntmrh. um lagasetningu sem þessa? Ég þykist hafa heyrt hann láta í ljós þá skoðun, að lögfesting landshlutasamtakanna væri nauðsyn vegna ákvæðanna í grunnskólafrv. Það kann hins vegar vel að vera, að þetta geti allt saman gengið, þótt samtök sveitarfélaga fái vald og lagðar verði á þau skyldur, þrátt fyrir það að þau starfi algerlega á frjálsum grundvelli og það taki ekki nema sum þeirra þátt í samtökunum, vegna þess að ekki er um skylduaðild þeirra að ræða. En þetta eru óeðlileg vinnubrögð, og það er nauðsynlegt að fá svör við því, hvernig að þessum þætti verði staðið.