17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3657 í B-deild Alþingistíðinda. (3267)

9. mál, grunnskóli

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem Pálmi Jónsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., sagði í lok ræðu sinnar, að þetta er mjög þýðingarmikið mál. Grundvallarmenntun þjóðarinnar á að byggjast á þessari rammalöggjöf. En það er sannarlega ekki verið að kasta höndum til þessarar lagasetningar. Tala þeirra manna skiptir tugum, sem hafa fjallað um undirbúning málsins á alllöngu árabili, og Alþ. hefur gefið sér góðan tíma til þess að athuga málið á tveimur þingum a.m.k. og lagt í það mikla vinnu. En málið er bara svo fjölþætt, að það þarf enginn að vænta þess, hversu lengi sem við veltum því fyrir okkur, að allir verði sammála um afgreiðslu þess. Einstök atriði verða alltaf ágreiningsatriði í svona stóru, víðtæku og þýðingarmiklu máli, og það þýðir ekki að ætla sér að fresta lokaafgreiðslu þess, þangað til allir verði sammála. Það verður seint eða aldrei.

En það hefur sannarlega ekki verið kastað höndunum til undirbúnings þessa máls. Það hefur verið farið með málið til umr. út um allt land á tugi funda, rætt við skólamenn og aðstandendur barna um málið og margar till., sem fram hafa komið á þessum fundum, hafa verið teknar til greina, áður en málið kom fyrir Alþ. og einnig síðan þingið tók málið til meðferðar.

Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Austf., Sverri Hermannssyni, sem talaði hér í kvöld, þegar hann sagði, að það ætti að láta reynsluna skera úr. Þegar búið er að fjalla um málið á svo vandaðan hátt sem hér hefur verið gert, er ekki um annað að ræða en ganga frá málinu. Vitanlega vitum við, að þetta verður ekki alfullkomin löggjöf. Við eigum að láta reynsluna sníða af agnúana, sem koma í ljós. Við setjum aldrei löggjöf, sem að eilífu sé varanleg. Það er oft og tíðum, að það koma agnúar í ljós, jafnvel á næsta ári eða næstu árum, og þá tekur löggjafinn við að skera þá agnúa af að fengnum dómi reynslunnar.

Ég held, að það sé ástæða til þess, að ég geri enn þá skiljanlegra en mér virðist hafa tekist hér áðan afstöðu mína til landshlutasamtakanna. Það er engin fjarstæða að fela landshlutasamtökunum, sem eru starfandi samtök, t.d. í menntamálum. Ég skal taka sem dæmi, svo að mönnum sé þetta alveg ljóst, að hér eru engin nýmæli og engin fjarstæða á ferðinni. Það eru engin lög til um Búnaðarfélag Íslands, það eru engin lög til um Fiskifélag Íslands. — Þetta eru stórkostlega víðtækar stofnanir. Það eru stórir bálkar í fjárl., sem fela þessum félagssamtökum mýmarga þýðingarmikla hluti. (Gripið fram í.) Í jarðræktarlögum, — það eru engin lög um Búnaðarfélag Íslands. Þar er margt sem snertir það, þar eru mörg atriði, sem Búnaðarfélagi Íslands eru falin, einmitt eins og hér er um að ræða. Það eru mörg mál, sem eru falin Fiskifélagi Íslands, þó að engin lög séu um Fiskifélagið. Og alveg eins má fela landshlutasamtökum sem starfandi samtökum þennan og hinn þáttinn, sem við þykir eiga að fela þeim, — nákvæmlega hliðstætt.

Eitt af því, sem hefur verið gagnrýnt varðandi þessa nýju skólalöggjöf, er það, að yfirbyggingin sé svo mikið bákn. Nú verður a.m.k. ekki fram hjá því gengið, að í meðförum þingsins hefur verið gert nokkuð að því að draga úr yfirbyggingunni. Við leggjum t.d. til, að skólaráðgjafar falli niður. Við leggjum til, að fagnámsstjórar í hverju fræðsluumdæmi falli niður. Við leggjum til, að 46. gr. um 10 manna grunnskólaráð falli niður. Við drögum þannig mjög mikið úr yfirbyggingarbákninu. Það, sem við hins vegar látum standa og er nýtt, eru fræðsluráðin. En það er hluti af fræðslumálaskrifstofunni, sem er færður út á landsbyggðina og menn eru að hamast á móti og kalla það bara útibú frá ríkisvaldinu. Þetta er fengið í hendur héruðunum sjálfum til þess að hafa frekari stjórn á skólamálunum, og landshlutasamtökin eiga að ráða 5 af 7 í fræðsluráðunum. Menn eru ekki sjálfum sér samkvæmir, þegar þeir segjast vilja færa valdið út á landsbyggðina og hamast svo á móti þessu. — Ég er sannarlega sammála hv. 5. þm. Norðurl. v. um, að það beri að vanda vel slíka löggjöf sem þessa. En gagnrýni hans sum hver styðst ekki við veigamikil rök, t.d. þetta með stjórnunarbáknið. Við höfum dregið stórkostlega úr því samkv. okkar till., ef menn taka eftir þeim.

Við viljum fá aukið jafnrétti um alla fræðsluaðstöðu í landinu, og að því miðar þetta frv. stórkostlega og þá ekki síður frv. um skólakerfi. En ef við viljum hafa samræmda framkvæmd á jafnréttisgrundvelli um landið allt, verðum víð að hafa eina sameiginlega yfirstjórn. Ef ekki er yfirstjórn, verður framkvæmdin á skólalöggjöfinni sitt með hverjum hætti. Og það er meginágallinn á því að fela sveitarfélögunum, mismunandi sterkum, fjárhagslega framkvæmd skólamálanna, að það mundi verða mjög mismunandi framkvæmd og veiku sveitarfélögin drægjust aftur úr, væru ekki fær um að veita sínum ungmennum jafngóða menntunaraðstöðu og fjársterkari sveitarfélögin. Ég hygg, að innra með sér hljóti gagnrýnendur málsins að viðurkenna þetta.

Þegar ég hafði upplýst áðan um áætlaðan aukinn kostnað af rekstri skólahaldsins í landinu að samþykktum þessum frv., sagði hv. 6. þm. Norðurl. v., að það lægju a.m.k. engar stofnkostnaðaráætlanir fyrir, og ég játa það, enda væri varla hægt að gera þær. Það fer eftir því, hve mikið byggingarkostnaður eykst, hversu fljótt verður ráðist í að byggja upp húsnæði fyrir hina nýju tækniskóla, bókasöfnin og annað fleira, sem er eitt af nýmælum þessa frv. Ég held, að það sé ómögulegt að gera áætlanir um þetta. Menn vita ekkert, menn renna blint í sjóinn um það, hver byggingarkostnaðurinn verður á þeim ýmsu tímum, sem framkvæmdirnar eiga sér stað á.

Menn hafa talað um það, að eitt ákvæði sé í frv., sem muni leiða af sér gífurlegan kostnað, jafnvel milljónatuga kostnað, það sé ákvæðið um, að það eigi í nýjum skólabyggingum og þar sem grundvallarendurbætur verði gerðar á skólahúsnæði að stefna að því, að til sé búsnæði til þess, að nemendur geti neytt máltíða og annast lestur námsgreina í staðinn fyrir heimanám. Ég legg ekki þann skilning í, að hér séu fyrirmæli um það að stofna til mötuneytis í hverjum skóla. Ég tel það rangan skilning og vil, að það komi fram, að það er ekki skilningur minn, að þetta séu fyrirmæli um, að það skuli stofna til mötuneytisaðstöðu við hvern einasta skóla. Ég tel það rangan skilning á þessum orðum, þegar stendur, að stefnt skuli að því, að aðstaða sé í nýjum skólum og endurbyggðum skólum, til þess að menn geti neytt matar í skólahúsnæðinu. (Gripið fram í.) Til að neyta málsverðar og til þess að lesa í skólanum, fremur en að það sé á heimilunum. Það er eitt af því, sem veitir nemendum einna ójafnasta aðstöðu til náms, það er hin mismunandi aðstaða á heimilunum. Sumir hafa mjög lélega aðstöðu á sínu heimili til þess að stunda nám í ró og næði, en á öðrum heimilum er til þess hin prýðilegasta aðstaða. Það að færa þetta inn fyrir veggi skólanna er eitt af jafnréttisákvæðunum í frv.

Um meginágreiningin um skólaskylduna vil ég svo að lokum segja það, að með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á frv., og raunar í frv. sjálfu er skólum á Íslandi breytt mjög í það horf, að þeir viðurkenni verklegt nám í miklu ríkari mæli en áður. Það er víða vikið að því, að verklegt nám skuli metið til jafns við bóklegt nám og þátttaka í atvinnulífinu skuli metin sem nám. Þetta eru nýmæli. Þetta er tilraun í þá átt að breyta skólunum á þann veg, að þeir séu betur við hæfi þeirra ungmenna, sem ekki eru einhliða vel fallin til bóklegs náms. Þar með verður dvölin í skólanum, vegna þess að þeir eru breyttar stofnanir, gagnlegri fyrir það fólk, sem ekki er hneigt til bóklegs náms.

Hér hefur verið spurt um það, af hvaða ástæðu komi ekki allir í skólana og af hverju séu 16 –19%, sem verða utan skólanna, þegar skólaskyldunni sleppir. Það er vitanlega af mörgum ástæðum. Það er af því, að sumir nemendur eru fráhverfir áframhaldandi bóklegu námi, en kunna svo að iðrast þess margfaldlega síðar, eins og ég vék að áðan. Það er af því, að fjárhagsleg geta sé ekki til á heimilunum til þess í mörgum tilfellum. Úr því bæta ákvæðin í frv. um skólakerfi mjög, setja undir þann leka og tryggja að verulegu leyti, að mismunandi efnahagsleg aðstaða valdi því ekki, að menn verði að hverfa frá námi. Og svo hefur það verið óneitanlega fram að þessu víða, að skólaaðstaða hefur ekki verið í heimahéraði.

Með setningu þessara löggjafar er tekið á öllum þessum þáttum, auk þess sem skólunum er breytt meira í þá átt, að allir nemendur hafi þeirra not. Og markmiðið er þetta, að það verði sem fæstir úti á námsbrautinni, sem oft hefur komið fyrir, einmitt eftir að skólaskyldunni sleppir. Mér er ekki sama um þau 16–19%, sem hverfa frá námi, eftir að skólaskyldu sleppir, og ég veit það og ég sagði það áðan, að það hefur margur ungur maðurinn sárlega iðrast þess að hafa ekki haldið áfram eitt ár í viðbót til þess að öðlast prófréttindi til þess að halda áfram námi síðar. Það hefði jafnvel verið tilvinnandi fyrir þessa unglinga að hafa lagt á sig að vera í skóla einn vetur til. Og margan hef ég heyrt barma sér yfir því að hafa ekki gert það. Það má vel vera, að það skapist betri skólabragur, þegar þeir nemendur, sem eru minna hæfir til náms og hafa minni námslöngun, eru hafðir utan veggja. En hvar eru þeir betur komnir en í uppeldisstofnun og fræðslustofnun? Ég trúi ekki á, að þeir leiti betri mannbóta utan skólanna heldur en með því að vera í þeim.

Það er miklu þægilegra fyrir kennarana að losna við alla þá nemendur, sem ekki eru fluggáfaðir til bóklegs náms og ekki fullir af áhuga. Erfiðleikar kennarastarfsins eru fyrst og fremst í því að haga námi svo, að þeir nái einnig til þeirra nemenda, sem minni námsáhuga hafa og minni námsgetu. En kennararnir eiga ekki rétt á því að vera leystir frá þessum vanda, því að þeir eru einmitt til þess settir fyrst og fremst að bjarga þessu fólki ekki siður en hinum bóklega gáfuðustu.

Ég er alveg sannfærður um það, að maður eins og hv. 5, þm. Norðurl. v., ef hann athugar þetta mál, þá mundi hann harma það, ef 16– 19% af ungmennum næðu ekki að ljúka grunnskólaprófi, vegna þess að þeim hafi ekki verið haldið fast að því að ná þessum áfanga, sem opnar allar leiðir til inngöngu í alla skóla framhaldsstigsins.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tel, að við höfum skipst á skoðunum um frv. í þeirri mynd, sem það er nú, og ég geri mér engar vonir um það, að við, hversu lengi sem við ræðum það, verðum sammála um alla hluti. Reynslan verður að skera úr, þegar þetta frv. hefur orðið að lögum, hvaða agnúar koma þá í ljós, og þá tekur Alþ. sig til og sníður þá af samkvæmt dómi reynslunnar.