06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

358. mál, áhugaleikfélög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 6. landsk. þm. um viðbrögð við þál. frá 8. febr. 1972 er svolátandi:

Í október 1972 var fullskipuð nefnd til þess að endurskoða lög um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna. N. hóf störf í nóvembermánuði sama ár. Í n. eiga sæti Sveinbjörn Jónsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra leikfélaga, Eyvindur Erlendsson leikstjóri og Knútur Hallsson skrifstofustjóri í menntmrn., og hinn síðastnefndi er form. nefndarinnar.

Mér er tjáð, að n. hafi nýlokið við að semja nýtt lagafrv. um framangreint efni. Er nú unnið að því að ljúka við að semja grg. með frv. og aths. við einstakar gr. Því er þess að vænta, að unnt verði að leggja lagafrv. fram innan skamms tíma. Einnig er í ráði að leggja fram hið fyrsta endurskoðað lagafrv. um Þjóðleikhús, og teldi ég vel fara á því, ef kleift reynist að leggja bæði frv. fram samtímis, þar sem efni þeirra er svo náskylt og samanlagt hafa frv. að geyma ákvæði um heildarskipan íslenskra leiklistarmála.