18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., er flutt í tengslum við skýrslu hæstv. iðnrh. um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu. Það er góðra gjalda vert, að hæstv. ráðh. skuli hafa látið gera þessa skýrslu og í framhaldi af henni lagt fram þáltill., þar sem gert er ráð fyrir gerð framkvæmdaáætlunar um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Af lestri hennar kemur í ljós, að hún er fyrst og fremst könnun, sem

Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen s/f gerði um húshitunarmál landsmanna og nýtingu orkugjafa í stað olíu og hvernig þau mál nú standa.

Í inngangi segir, að fyrsti hluti álitsgerðar verkfræðistofnunnar fjalli um núv. notkun orku til húshitunar og hvernig notkunin skiptist milli jarðvarma, rafhitunar og olíuhitunar, einnig um samsvarandi skiptingu orkunnar 1980, eins og áætlað var, að hún yrði þá, ef öll olíuhitun væri lögð niður.

Í öðrum hluta er samanburður á kostnaði mismunandi hitunargjafa og samanburðar á hitunarkostnaði með mismunandi orkugjöfum.

Í þriðja hluta er samantekt á framkvæmdum og kostnaði við þær, sem nauðsynlegar eru, til þess að unnt sé að nýta innlenda orku til húshitunar í náinni framtíð. Þá fylgir með álitsgerð Seðlabanka Íslands um fjáröflun til hitaveituframkvæmda og raforkuframkvæmda til húshitunar. Þótt mikið af þeim fróðleik, sem birtist í álitsgerð Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen s/f, hafi birtist almenningi áður í upplýsingum frá öðrum aðilum, eins og t.d. frá Orkustofnun, er fengur að þessari skýrslu hæstv. iðnrh. En því er ekki að leyna, að hún veldur vonbrigðum.

Í formála að skýrslu hæstv, ráðh. segir, að með bréfi, dags. 23. nóv. s.l., hafi ráðh. falið verkfræðistofunni að framkvæma könnun á því, hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Skyldi þessi könnun m.a. beinast að því, hvort ekki væri unnt að flýta hitaveituframkvæmdum í nágrannabyggðum Reykjavíkur umfram það, sem þá var fyrirhugað. Um þetta efni er skýrslan vægast sagt ákaflega fátækleg. Hún gefur góða heildarmynd af því, hvernig húshitunarmál landsmanna standa um þessar mundir, og gerir grein fyrir aðgerðum, sem þörf er á að hrinda í framkvæmd til þess að breyta olíuhitun í hitun með innlendum orkugjöfum, þ.e.a.s. jarðvarma og raforku frá vatnsaflsstöðvum eða gufuaflsstöðvum. En að eitthvað nýtt komi fram í skýrslunni um það t.d., hvernig unnt væri að flýta hitaveituframkvæmdum í nágrannabyggðum Reykjavíkur umfram það, sem fyrirhugað var, er af og frá. Um það mál segir skýrslan á bls. 16 stutt og laggott orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdaáætlunin er mjög hröð, og möguleikar á að flýta þessum framkvæmdum virðast ekki vera miklir. Kemur þar sérstaklega til mannafla- og tækjaskortur verktaka á þessu sviði. Mikla áherslu verður að leggja á, að áætlun framkvæmda verði haldið áfram. Vegna almennrar spennu á markaðnum gæti þurft að seinka öðrum framkvæmdum og veita hitaveituframkvæmdum forgang.“

Svo mörg eru þau orð, en ég mun víkja nánar að þessum staðhæfingum síðar í þessari ræðu minni.

Til þess að unnt sé að átta sig á því, hvers vegna þetta orðalag er notað í bréfi hæstv. ráðh. til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen s/f 23, nóv. s.l., þ.e. að hún kannaði, hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til búshitunar og að könnunin beindist m.a. að því, hvort ekki væri unnt að flýta hitaveituframkvæmdum í nágrannabyggðum Reykjavíkur umfram það, sem þá var fyrirhugað, er nauðsynlegt að rifja upp, undir hvaða kringumstæðum bréfið er skrifað. Auk þess sem miklar verðhækkanir höfðu átt sér stað á húsaolíu og fyrirsjáanlegar voru enn frekari hækkanir, höfðu átt sér stað talsverðar umræður hér á hinu háa Alþingi og í fjölmiðlum um hitaveitumálin.

Umr. hér á hinu háa Alþ. áttu sér stað þremur dögum áður en hæstv, ráðh, skrifaði umrætt bréf, en tilefni þessara umr. var fyrirspurn til hæstv. iðnrh., sem ég bar fram út af hitaveitumálum. Borgarstjórinn í Reykjavík hafði gefið í skyn á opinberum vettvangi, þ.e. á fundi Sambands sveitarfélagá í Reykjaneskjördæmi 10. þ.m. að framkvæmdir við lagningu hitaveitu í Hafnarfjörð, Kópavog og Garðahrepp á vegum Hitaveitu Reykjavíkur mundu frestast, vegna þess að ríkisstj. hafði synjað Hitaveitu Reykjavíkur um leyfi til gjaldskrárhækkunar, en margir Hafnfirðingar voru orðnir langeygðir eftir því, að niðurstaða fengist í þessum samningaviðræðum, sem staðið höfðu allt of langan tíma við Reykjavíkurborg, þegar loksins samningar voru undirritaðir í október s.l., ef togstreita milli hæstv. iðnrh, og borgarstjórans í Reykjavík ættu nú enn að verða til þess að draga málið á langinn. Þess vegna spurði ég hæstv. iðnrh. að því, hver væri afstaða hæstv. ríkisstj. til óska Hitaveitu Reykjavíkur um gjaldskrárhækkanir. Um þessa fyrirspurn mína spunnust talsverðar umr., og í blaðaskrifum næstu daga var látið að því liggja, að hæstv. iðnrh. torveldaði hitaveituframkvæmdir. Á hann var sótt í þessum málum, og í ljósi þessa finnst e.t.v. sumum ekki óeðlilegt, þótt honum hafi fundist, að hann þyrfti að sýna almenningi fram á, að hann væri áhugamaður um hitaveituframkvæmdir, og fyndi sig knúinn til að sýna í verki áhuga sinn með því að senda þetta bréf, dags. 23. nóv. s.l., til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen s/f, 3 dögum eftir að umr. um fsp, mína fóru hér fram, þar sem Verkfræðistofan er beðin að athuga, hvernig unnt sé með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar og hvort ekki sé unnt að flýta hitaveituframkvæmdum í nágrannabyggðum Reykjavíkur umfram það, sem þá var fyrirhugað, og auglýsa efni þessa bréfs eins rækilega og gert var í fjölmiðlum.

Ég skal fúslega viðurkenna, að mér fannst sum ámæli, sem hæstv. iðnrh, varð fyrir í blaðaskrifum út af afskiptum hans af hitaveitumálum, ómakleg. A.m.k. er það mín skoðun, að forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar geti ekki með rétti kvartað yfir framlagi hans til fyrirgreiðslu því, að langvinnar og erfiðar samningaumleitanir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um hitaveitu fyrir Hafnarfjörð voru til lykta leiddar, en til hans varð að leita til að fá niðurstöðu í því máli. Hann mætti á fundi í Hafnarfirði með bæjarstjórn Hafnarfjarðar að hennar ósk og borgarstjóra Reykjavíkur, þegar hitaveitumál Hafnfirðinga voru komin í sjálfheldu vegna afstöðu forráðamanna Reykjavíkur, en svo var komið þessum samningamálum í des. 1973, sem embættismenn viðkomandi sveitarfélaga unnu að, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar taldi samkv. fyrirliggjandi upplýsingum, að Hafnarfjörður ætti kost á sams konar samningi við Reykjavíkurborg um byggingu og rekstur jarðvarmaveitu og gerður hafði verið við Kópavogskaupstað. Endanlega var þó ekki gengið frá samningum, þar sem forráðamenn Reykjavíkurborgar töldu ekki nægilega tryggt, að því skilyrði, sem þeir settu um 7% rekstrararð, að endurmenntum fjárfestingum Hitaveitu Reykjavíkur, yrði fullnægt, eins og málum væri þá háttað, nema Hitaveita Reykjavíkur fengi gjaldskrá sina hækkaða. En til þess að þessum þröskuldi í vegi fyrir hitaveitusamningum við Reykjavíkurborg yrði rutt úr vegi, fóru fulltrúar Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðahrepps á fundi hæstv, iðnrh. og hæstv. forsrh. út af því máli, og í framhaldi af því, var Hitaveitu Reykjavíkur síðan heimilað að hækka gjaldskrá sína um 20%.

Eftir að sú gjaldskrárhækkun hafði verið samþykkt, taldi bæjarstjórn Hafnarfjarðar með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem fyrir lágu í málinu, að nú væri Reykjavíkurborg ekkert að vanbúnaði lengur að ganga frá samningi og það eitt væri nú eftir að undirrita lokasamninga, þar sem því atriði, sem staðið hafði í veginum fyrir því, hefði verið rutt í burtu. En það óvænta skeður, að svo reynist ekki vera. Í bæjarráði Hafnarfjarðar er frá því skýrt 21, mars 1973, að Reykjavíkurborg væri enn ekki reiðubúin til þess að staðfesta umræddan samning. Þegar málum var þannig komið, samþykkti bæjarstjórnin samkv. till. bæjarfulltrúa meiri hl. bæjarstjórnar að fá sameiginlegan fund með borgarstjóra Reykjavíkur og hæstv. iðnrh. til þess að komast til botns í þessu máli. Sá fundur var haldinn. Þar lýsti hæstv, iðnrh. því yfir, að heimild til hækkunar á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur um 20% 12. mars 1973 hefði m.a. verið veitt með hliðsjón af því, að með þeirri afgreiðslu væri verið að greiða fyrir, að samningar tækjust um lagningu hitaveitu í nágrannabyggðir Reykjavíkur. Í framhaldi af þessum fundi eru svo settar á laggirnar nýjar samninganefndir aðila, skipaðar bæjarfulltrúum og borgarfulltrúum, og frá samningi síðan gengið í okt. s.l.

Ég hef rakið gang þessa samningamáls Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um hitaveitumál til að sýna fram á, að ýmis ljón hafa verið á veginum í þessum mikilvægu málum undanfarið, og einnig til að benda hæstv. iðnrh. á, að ferill hans sé ekki slíkur í því máli, sem ég hef gert hér að umtalsefni, að hann þurfi þess vegna að vera með sýndarmennsku og auglýsingastarfsemi af því tagi, sem mér sýnist, að hér sé á ferðinni, til að almenningur sannfærist um áhuga hæstv. ríkisstj. fyrir því, að innlendir orkugjafar verði hagnýttir í stað olíu.

Ég vil þó taka fram og endurtaka til að fyrirbyggja misskilning, að sú skýrsla, sem ráðh. hefur lagt hér fram, er góðra gjalda verð og fróðleg, svo langt sem hún nær, þótt hún fjalli ekki nema að ákaflega takmörkuðu leyti um það, sem hún átti að snúast um samkv. bréfi ráðh., þ.e.a.s. eftir hvaða leiðum skynsamlegast sé að fara til að tryggja með sem skjótustum hætti nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa.

Svipað er um sjálfa þáltill. að segja. Hún gerir ráð fyrir gerð ítarlegrar framkvæmdaáætlunar um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar. Skal áætlunin miðuð við árlega áfanga svo og mestan framkvæmdahraða og fela í sér tilgreind atriði. Fyrsta atriðið er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitaveituframkvæmdir hvarvetna þar sem jarðvarmi er tiltækur og nýting hans talin hagkvæm. Verði miðað við, að hitaveituframkvæmdum verði í meginatriðum lokið á árinu 1977.“ Í álitsgerð Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen s/f segir, um þetta atriði á bls. 2 í skýrslu hæstv. iðnrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Áætlanir um hitaveituframkvæmdir liggja nú fyrir um flesta þá staði, sem til greina koma. Áætlanir þessar eru þó mjög mislangt komnar. Sumar eru aðeins frumáætlanir, aðrar eru fullhannaðar.

Til þess að unnt sé að standa við þær áætlanir, sem nú liggja fyrir um hitaveituframkvæmdir, er nauðsynlegt, að framkvæmdum sé veitt öll sú fjárhagslega fyrirgreiðsla, sem unnt er.

Á þessu ári er áætlað, að fjárfesting í hitaveituframkvæmdum verði um 900 millj. kr., 1975 um 1600 millj. kr. og 1976 um 1250 millj. kr. eða samtals 3750 millj. kr. Fá þá um 45 þús. manns hitaveitu.

Fjárfrekustu framkvæmdirnar eru hjá Hitaveitu Reykjavíkur og hitaveitu frá Svartsengi, jafnframt eru þær veitur með hagkvæmast orkuverð.

Á þessu árabili er áætlað, að lokið verði við þær veitur, sem nú eru taldar hagkvæmar, þ.e.a.s. nágrannabyggðir Reykjavíkur, Suðurnes, Akranes, Borgarnes, Blönduós, Siglufjörður, Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn. Einnig má búast við, að áframhaldandi rannsóknir á hitasvæðum í nánd við þéttbýll leið'i í ljós hagkvæmni á hitaveitu þar sem vafi leikur á um hagkvæmni nú. Mikil nauðsyn er því á, að jarðhitarannsóknir verði styrktar mjög, til þess, að sem fyrst verði hægt að skera úr um með fullri vissu, hvar um nýtanlegan jarðvarma sé að ræða. Má þar sem dæmi nefna möguleika á að nýta varma úr nýja hrauninu í Vestmannaeyjum til húshitunar og einnig nýtingu jarðvarma við Mývatn til upphitunar á Akureyri, en frumathugun á því bendir til, að þann möguleika þurfi að kanna nánar.“ — Svo mörg eru þau orð.

Af þessu, sem ég hef hér lesið, kemur í ljós, að það er í rauninni afgert og ákveðið, sem lagt er til, að gert verði í þáltill., hvað þetta atriði áhrærir a.m.k.

Annað atriðið í þessari till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samtenging allra orkuveitusvæða landsins og breyting á dreifikerfum, svo að landsmenn allir geti átt kost á nægri raforku. Ráðist verði í nýjar virkjanir, sem tryggi næga orkuframleiðslu, og auknar rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Verði að því stefnt, að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, geti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981.“

Hvað segir svo Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen s/f um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.:

„Áætlanir um framkvæmdir til þess að auka rafhitun í landinu eru skammt á veg komnar, sérstaklega hvað viðvíkur breytingu dreifikerfa vegna aukins orkuflutnings. Sigölduvirkjun, Lagarfossvirkjun og stækkun Mjólkárvirkjunar eru nú þegar í byggingu auk þess er ráðgert að hefja lögn byggðalínu frá Hvalfirði til Varmahlíðar á þessu ári, einnig styrkingu dreifikerfa vegna rafveitunnar, þar sem brýnust nauðsyn er. Lausleg áætlun um kostnað við tengilinu milli landshluta og breytingar á dreifikerfum er um 4000 millj. kr., og er áætlað, að unnt sé að tengja 80% af fullum rafhitunarmarkaði fyrir árslok 1981. Ástæða til þess, að ekki er talið, að hægt sé að hraða mettun markaðarins umfram þetta, er hin mikla fjárfesting og einnig mannaflaþörf við þessa vinnu, sem að stórum hluta krefst sérhæfðs vinnukrafts. Forsenda aukinnar rafhitunar er, að áfram verði haldið við virkjanaframkvæmdir og rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Einnig er nauðsynlegt að stefna að tengingu alls landsins í eitt kerfi og jafnframt að auka öryggi hvers landshluta gagnvart bilunum í raforkukerfinu.“ Svo mörg eru þau orð.

Það hlýtur að vera mönnum undrunarefni, að áætlanir um framkvæmdir til aukningar á rafhitun í landinu skuli svo skammt á veg komnar sem hér kemur fram eftir næstum 3 ára setu núv, hæstv. iðnrh. í ráðherrastóll, þegar hugsað er til mikilla ræðuhalda hans og skrifa, þegar hann var í stjórnarandstöðu og raunar einnig eftir að hann komst í ríkisstj., um hversu það væri brýnna verkefni en flest annað í orkumálum að nýta vatnsorku til rafhitunar.

Þriðja og síðasta atriðið þáltill. er þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármögnunarráðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lántökum, svo að nægjanlegt fé verði jafnan tiltækt til þessara framkvæmda.“ Svo mörg eru þau orð.

Í álitsgerð Seðlabanka Íslands, sem er hluti af skýrslu hæstv. iðnrh., segir orðrétt um þetta efni m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt er að taka það skýrt fram, að erfitt er að gera fjáröflunaráætlanir um eins umfangsmiklar framkvæmdir og hér er um að ræða nema sem hluta af heildaráætlun um opinberar framkvæmdir hvers árs og fjáröflun til þeirra. Er það bæði vegna vinnu að lántökum og með tilliti til framboðs á vinnuafli til framkvæmda. Telur bankastjórnin því nauðsynlegt, að áætlanir um þessar framkvæmdir verði felldar inn í framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir þess opinbera.“

Af því, sem ég hef rakið úr álitsgerð Verkfræðistofunnar, sýnist mér eftirfarandi liggja ljóst fyrir: Áætlanir um hitaveituframkvæmdir liggja nú þegar fyrir um flesta þá staði, sem til greina koma. Áætlanir um fjárfestingu á hitaveituframkvæmdum til ársloka 1976 eru einnig fyrir hendi. Hins vegar eru áætlanir um framkvæmdir til þess að auka rafhitun í landinu skammt á veg komnar.

Til þess að unnt verði að hrinda þeim áætlunum í framkvæmd, sem búið er að gera í þessum efnum og enn er eftir að vinna, sýnist mér, að aðallega þurfi þrennt: Fjármagn, nægjanlegt vinnuafl og nauðsynlegar vinnuvélar og tæki. Þessir 3 þættir eru grundvallaratriði í því máli, sem hér er til umr., og af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, verður ekki annað séð en að um þessa mikilvægu þætti ríki enn talsverð óvissa. Ég tel, að lausn þessara þátta málsins hefði átt að hafa algjöran forgang hjá hæstv. ríkisstj. varðandi aðgerðir til þess að tryggja með sem skjótustum hætti nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu, en hefur því miður ekki orðið vart, að svo hafi verið.

Sem dæmi um það, hvílíkur vandi hér er á ferðinni fyrir sveitarfélög, sem standa í hitaveituframkvæmdum, get ég skýrt frá því til fróðleiks, hvernig þessi mál standa í Hafnarfirði, og hygg ég, að önnur nágrannabyggðarlög Reykjavíkur, þar sem unnið er að undirbúningi að hitaveituframkvæmdum hafi svipaða sögu að segja.

Hinn 19, sept. s.l. samþ. bæjarstjórn Hafnarfjarðar till., sem flutt var að frumkvæði meiri hl. bæjarstj. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem nú er enn mikilvægara en nokkru sinni áður, að Hafnfirðingar geti hið fyrsta hitað upp hús sín með jarðvarmaveitu vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í olíumálum, þá samþ. bæjarstj. að fela n. þeirri, sem á lokastigi undirbjó samninginn við Reykjavíkurborg um hitaveitu fyrir Hafnarfjörð, að kanna alla tiltæka möguleika á því, að framkvæmdum verði flýtt, svo sem frekast er kostur, frá því, sem umræddur samningur gerir ráð fyrir. Verði það gert með viðræðum við fulltrúa Reykjavíkurborgar og eftir atvikum við aðra aðila, sem mál þetta snertir og haft geta áhrif á gang þessa máls.“

Í framhaldi af þessari samþykkt var svo haldinn fundur með fulltrúum Reykjavíkurborgar, sem tóku málaleitan Hafnfirðinganna mjög vel. Og í fundargerð af þessum fundi kemur glöggt fram, hver þau vandamál eru helst, sem við er að fást í þessum efnum. En þar segir m.a. orðrétt, með leyfi hæstv, forseta:

„Fullljóst er, að hagsmunir aðila fara saman með því að flýta framkvæmdum. Mögulegt virðist að hraða gerð aðalæðar, þannig að hleypa megi vatni á hana fyrir mitt ár 1975 í staðinn fyrir haustið 1975. Erfiðastur verður í þessu sambandi hinn tæknilegi undirbúningur, einkum vegna skorts á hönnunargögnum, aðallega frá Vegagerð ríkisins, sem nú er að hanna efri Reykjanesbraut, en meðfram henni er aðfærsluleiðinni ætlað að liggja. Hönnun lýkur vart fyrr en næstkomandi sumar, og gæti þá orðið erfitt að ná í góða verktaka.

Fyrsti áfangi er þegar kominn í útboð, Norðurbær, Álfaskeiðshverfi og aðalæð meðfram Reykjanesbraut. Hönnun annars áfanga er þegar hafin, og hugsanlegt er að taka hluta hans í útboð á þessu ári í staðinn fyrir næsta ár, t.d. Kinnar og Öldur. Allri hönnun dreifikerfisins gæti lokið í byrjun næsta árs, og stefna bæði skrifstofa bæjarverkfræðings í Hafnarfirði og Virkir h/f að því, að svo megi verða. Með þessu lagi er hugsanlegt, að u.þ.b. 2/3 hlutar bæjarins gætu verið komnir í samband haustið 1976 og svo til allt, sem eftir er, á árinu 1976. Yrði þá flýtingin hálft til eitt ár. Stærsta vafaatriðið í því er eins og nú horfir verktakamarkaðurinn. Nokkur óvissa gæti einnig orðið í sambandi við virkjunarframkvæmdir, og hefur t.d. komið fram ósk frá ríkisaðilum að fá gufuborinn, sem nú borar samfellt á Reykjum í önnur verkefni. Sömuleiðis er enn ófenginn samþykkt viðkomandi ráðuneytis fyrir umbeðnu einkaleyfi til hitaveiturekstrar í Hafnarfirði, en bæjarstjórn Hafnarfjarðar ber að afla þess leyfis.“ Ég vil skjóta því hér inn i, að þetta leyfi viðkomandi ráðuneytis liggur nú fyrir.

„Niðurstaðan virðist því vera,“ segir áfram í þessari fundargerð: „Aðilar eru sammála um að flýta framkvæmdum eftir megni, þar sem hagsmunir beggja fara saman í því. Flýta ber allri hönnun og öðrum undirbúningi, til að ekki standi á slíkum atriðum, ef verktakar, fé og aðrir framkvæmdaþættir reynast vera fyrir hendi. Hugsanlegt er talið, að flýta megi framkvæmdum þannig, að vatn komist á aðalleiðsluna fyrir mitt árið 1975 og u.þ.b. 2/3 hlutar bæjarins verði komnir í samband haustið 1975, svo og allur bærinn haustið 1976.“

Af því, sem ég hef hér lesið, er augljóst, hvar skórinn kreppir helst að við hitaveituframkvæmdir í nágrannabyggðum Reykjavíkur.

Annað atriði, sem ég vildi drepa lauslega á, er, hversu ákaflega mikilvægt það er fyrir sum sveitarfélög, að hagnýtingarréttur háhitasvæða, þar sem hann er nú í höndum einstaklinga, komist í eign þeirra eða ríkisins. Þetta er t.d. mikið hagsmunamál sveitarfélaga og íbúa þeirra á Reykjanesskaga, sem stefna nú að því að fá hitaveitu frá Svartsengi hið allra fyrsta. Til þess að leysa þann vanda væri mjög æskilegt að mínum dómi, að meginefni frv. til l. um breyt. á orkulögum, sem nú liggur fyrir Alþingi, en það mun liggja enn óafgreitt í n., eftir því, sem ég best veit, nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

Varðandi þann liðinn í þáltill., sem fjallar um nauðsyn fjármögnunarráðstafana til að tryggja nægjanlegt fé til umræddra framkvæmda, vil ég minna á, að ég flutti hér þáltill. ásamt hv. 5. þm. Reykn. um lánsfé til hitaveituframkvæmda haustið 1972, þar sem lagt var til, að Alþingi skoraði á ríkisstj, að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda. Ekki var þess þá vart hér á hinu háa Alþingi, að almennur skilningur væri ríkjandi á nauðsyn sérstakra ráðstafana til að fjármagna slíkar framkvæmdir. Sú þingnefnd, hv. fjvn., sem fékk till. til athugunar, treysti sér þá ekki til að mæla með samþykkt hennar, heldur lagði til, að henni yrði vísað til ríkisstj. Ég gerði athugasemdir við þá afgreiðslu málsins og lét í ljós undrun yfir því, að n, skyldi ekki mæla með svo sjálfsögðu máli sem þar var á ferð. Formælandi n. lét að því liggja í umr, um málið, að svo vel væri fyrir þessu séð í höndum núv. hæstv, ríkisstj., að ekki væri ástæða til þess að gera slíka ályktun sem þarna væri á ferðinni. Nú, rúmlega 11/2 ári eftir að þessi till. okkar hv. 5, þm. Reykn, kom hér fram, sér hæstv. iðnrh, ástæðu til þess að koma með þá þáltill., sem hér liggur fyrir og gerir m.a. ráð fyrir sérstökum fjármögnunarráðstöfunum, svo að nægilegt fé veði jafnan tiltækt til hitaveituframkvæmda. Það segir auðvitað sína sögu í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég er nú að koma að lokum máls míns, en vil að síðustu leggja áherslu á nauðsyn þess, að allt verði gert, sem unnt er, til að tryggja þá grundvallarþætti þessa máls, sem mest hætta er á, að erfitt verði að uppfylla eins og nú háttar til í landinu, en það eru fullnægjandi tækjakostur, nægjanlegt vinnuafl og fjármagn. Það er skylda hæstv, ríkisstj. að hafa forgöngu um, að þannig verði búið um hnútana, að þessi grundvallaratriði verði örugglega fyrir hendi. Hér er um að ræða að mínum dómi framkvæmdir, sem eiga að hafa forgöngu umfram fjöldamargar aðrar framkvæmdir í landinu.

Ég hef ekki rætt um rökin, sem liggja að baki nytsemi þess máls, sem ég hef gert að umtalsefni í þessum orðum mínum, svo mjög sem hagkvæmni þess að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu liggur í augum uppi. En meginniðurstaða álitsgerðar Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen er sú, að hagkvæmt sé að nota innlenda orkugjafa jarðhita og rafmagn, til húshitunar í stað innfluttrar olíu á því innflutningsverði olíu, sem nú ríkir, auk þess öryggis, að Íslendingar ráði sjálfir sínum orkugjöfum.

Hagkvæmni þess að nýta jarðvarma er auðvitað langmest, þegar hann er í grennd við þéttbýli, miðað við olíu og raforku, en minnkar eftir því sem sækja þarf hann lengra að eða byggð verður strjálli. Þegar vissu marki er náð verður svo rafhitun hagkvæmari en hitaveitan.

Herra forseti. Ég mun nú láta máli mínu lokið, en vil endurtaka að síðustu óskir um, að takast megi að halda svo á þessum málum, að unnt verði með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar til hagsbóta og þæginda fyrir sem allra flesta landsmenn.