18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt af því, að það mál, sem hér er á dagskrá, sé eitt mikilvægasta mál, sem ber að höndum okkar Íslendinga um þessar mundir, og ég verð að segja, að mér er það mikið fagnaðarefni, að þessi skýrsla hefur verið lögð fram, tel, að upplýsingar, sem í þessari skýrslu sé að finna, séu mjög gagnlegar til stefnumótunar í þessum málum, og skýrslan sé góð, svo langt sem hún nær. Hún er að vísu fyrst og fremst upplýsingar, en ekki framkvæmdaáform, en á henni ætti að vera hægt að byggja stefnu í orkumálum, sem ég tel, að við flestir getum orðið í öllum meginatriðum sammála um. Því vil ég sérstaklega þakka hæstv. ráðh. fyrir, að hann hefur lagt þessa skýrslu fyrir Alþingi.

Í máli hæstv. ráðh. fjallaði hann um þetta efni og ræddi þá um m.a. þetta tvennt, sem er hér til umr., um virkjun á raforku og jarðvarma til húshitunar. Hann minntist ekki á, hvort þessi skýrsla væri grundvölluð á því áformi hans og hæstv. ríkisstj. að leggja á 13% verðjöfnunargjald á raforku. Ég leitaði að því í þessari skýrslu og reyndi að glöggva mig á því, hvort samanburður, sem gerður er víða í þessu plaggi milli orkugjafa, væri miðaður við það, að þetta verðjöfnunargjald væri lagt á raforku til húshitunar, og gat ekki fundið um það upplýsingar. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þessi skýrsla sé miðuð við það, að þetta verðjöfnunargjald leggist á raforkusölu til húshitunar. En það er afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir því, vegna þess að þetta verðjöfnunargjald, ef það verður lagt á, eins og gert er ráð fyrir í frv., sem liggur fyrir hv. Alþingi, gæti skekkt myndina gagnvart jarðvarma eða gert það að verkum, að raforkuöflun til húshitunar yrði á sumum stöðum óhagkvæmari vegna þess að á hana er lagt sérstakt verðjöfnunargjald. Ég vildi því mælast til þess við hæstv. ráðh. að hann upplýsti okkur um þetta mál.

Þá ræddi hæstv. ráðh. talsvert mikið um jarðhitarannsóknir og aukinn stuðning til jarðhitarannsókna. Ég vil í því sambandi vekja máls á því, að ég flutti í upphafi þessa þings frv., til I. um aukinn stuðning við sveitarfélög til jarðhitaleitar. Þetta frv. hefur legið í hv. iðnn. í allan vetur, og það hefur einstaka sinnum verið rætt, en ekki fengist afgreitt. Það er þannig með stuðning ríkisins við jarðhitaleit sveitarfélaga nú að Orkusjóður getur veitt sveitarfélögum 40% lán til 5 ára til þess að bora eftir heitu vatni. Sveitarfélögin verða að endurgreiða þetta lán, ef þau nýta að einhverju jarðhita á svæðinu, jafnvel þótt hann sé alls ónógur til upphitunar fyrir viðkomandi stað, og þess eru dæmi, að þegar er orðin það mikil byrði hjá ýmsum sveitarfélögum vegna jarðbitaleitar, að þau eiga torvelt með það að halda jarðhitaleitinni áfram. Með tilliti til þess, hvernig nú horfir í orkumálum og hækkandi olíuverði, tel ég brýna nauðsyn til að breyta þessum reglum. Þó að það þurfi e.t.v. ekki að verða nein bylting, þá tel ég, að það þurfi að hyggja að því, að sveitarfélögin geti fengið meiri stuðning frá hinu opinbera í þessum efnum og þau geti gengið lengra í sinni jarðhitaleit en hingað til hefur verið unnt.

Ég vil minna á þetta nauðsynjamál hér, því að það er ágætt að flytja hástemmdar ræður á Alþingi um, að það þurfi að gera eitt og það þurfi að gera annað, en það þarf að vera vilji til þess í framkvæmd, og það þarf að leggja til þess fjármuni. Ég vil skora á hæstv, ráðh, að beita sér fyrir því, að þetta mál verði sérstaklega skoðað. Það þarf ekki endilega að afgreiða frv. mitt um þetta mál, heldur mætti gjarnan hæstv. ríkisstj. flytja frv. um málið, ef það þætti betur henta. En ég vil skora á hann að hugleiða þetta mál og flytja um það frv. hér á Alþingi, ef hann getur ekki fallist á þær till., sem ég hef lagt fram í því máli.

Hæstv. ráðh. ræddi hér um það, sem rétt er, að gerð hefur verið frumathugun á því að leggja hitaveitu frá Mývatnssvæðinu til Akureyrar, og skýrsla liggur fyrir um þetta, sem bendir til þess, að þetta geti verið álitleg framkvæmd. Þó er í þessari skýrslu, sem hér er til umr., ekki gert ráð fyrir því, að Akureyri verði hituð upp með heitu vatni, heldur með raforku, en niðurstöður þessarar frumathugunar eru allrar athygli verðar að mínu mati. Og þá er spurningin, hvernig þessu verki verður haldið áfram. Í skýrslu þessari, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen gerði, er lagt til, að þessum athugunum verði haldið áfram, og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hvort það sé ætlun rn. í samstarfi við Akureyrarbæ að halda þessum athugunum áfram um hitaveitu á Akureyri eða hvort það þurfi til þess sérstaka lagasetningu eða einhverjar aðrar aðgerðir, sem ýtt geti þessu máli áfram. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, ekki síst vegna þess að ástand raforkumála á Norðurlandi er nú ekki sem allra best, eins og hefur oft borið á góma á hv. Alþingi.

Þá vil ég víkja að því, sem mér þótti athyglisvert við þá skýrslu sem hér er til umr., að í henni er vikið að orkumálum á Norðurlandi, bæði Norðurl. e. og v. að sjálfsögðu. Þar er undirstrikað að minni hyggju það sjónarmið, sem ég hef oft haldið fram hér um orkumál á Norðurlandi og við hæstv. ráðh, höfum stundum háð hildi um hér á hv. Alþingi.

Í skýrslunni stendur, og hæstv. ráðherra las það upp úr skýrslunni, m.a.: „Nauðsynlegt er að virkja fyrir norðan til þess að auka öryggi raforkuvinnslunnar gegn línubilunum.“ Þetta hefur verið ein grundvallarröksemd mín fyrir því, að rangt væri stefnt í orkumálum á Norðurlandi af hálfu núv, ríkisstj., að það var ekki hafist handa um virkjun á Norðurlandi, þegar séð var fyrir um það, að Laxárvirkjun yrði ekki haldið áfram, heldur byrjað á því að ráðast í flutningslínu norður, sem hlaut auðvitað að vera afskaplega óörugg orkuöflunarleið fyrir heilan landshluta.

Enn fremur stendur í þessari skýrslu: „Fyrirhuguð byggðalína, sem tengir saman Landsvirkjunarsvæðið og raforkusvæðið á Norðurlandi gerir kleift að leyfa aukna rafhitun á Norðurlandi, strax og Sigalda fer að vinna rafmagn.“ Þetta er eitt af því, sem ég hef bent hæstv. ráðh. margoft á áður, að þrátt fyrir byggðalínu eða þrátt fyrir Öræfalínu, eins og hann fyrirhugaði fyrst, þá yrði ekki um að ræða, að Norðlendingar fengju orku til rafhitunar og til almennra þarfa á Norðurlandi, fyrr en Sigölduvirkjun væri komin í gagnið. Hér er sem sagt þessi staðhæfing viðurkennd, og er það út af fyrir sig gott og blessað.

Þá stendur einnig í þessari skýrslu, að reynsla síðasta vetrar sýni, að „öryggi landsvirkjunarkerfisins er ekki nægilegt til þess að rafhitun sé örugg.“ Hvað má þá segja, ef Landsvirkjunarkerfið er ekki nægilega öruggt hér á Suðvesturlandi, hvernig hefði ástandið orðið í orkumálum Norðlendinga, ef þeir hefðu orðið að sæta því að fá raforku verður um öræfi í mörg ár, jafnvel áratugi, eins og stefnt var að, eftir línu, sem til þess hefði verið reist? Þarna er beinlínis viðurkennt, að þau sjónarmið, sem við höfum haft, sem gagnrýnt höfum hæstv. ráðherra í þessum efnum, eru rétt. Nú er hins vegar ætlunin að reisa gufuvirkjun fyrir norðan, eins og hv. alþm. vita, og frv. um það hefur verið afgr. á Alþingi. Það er gott og blessað, að hæstv. ráðherra hefur þannig séð villu síns vegar í þeim efnum, en það er fullseint séð, því að ástandið í orkumálum á Norðurlandi er afar slæmt.

Ég vil þá aðeins koma inn á það, að nýlega sendi Laxárvirkjunarstjórn frá sér bréf, þar sem hún lýsti yfir áhyggjum sínum í þessum efnum, og segir í því bréfi:

„Þar sem nú ríkir mikil óvissa í raforkumálum Laxársvæðisins og ekki útlit fyrir, að viðunandi lausn fáist á þeim á næstunni, ræddi stjórn Laxárvirkjunar nýlega við iðnrn. og orkuráðh. um þessi mál öll, m.a. um frekari sölu til húshitunar.“

Síðan er í bréfinu skýrt frá því, að á meðan niðurstöður í þessum viðræðum við orkuráðh. eru ekki fyrir hendi, treysti Laxárvirkjun sér ekki til að selja raforku til húshitunar og fer þess á leit við Rafmagnsveitu Akureyrar og Rafmagnsveitur ríkisins, að þær geri það ekki, þær beinlínis synji nýjum umsóknum frá húseigendum um raforku til húshitunar.

Þannig er nú ástandið því miður á Norðurlandi í dag, og hefur verið áætlað, að það þurfi hvorki meira né minna en 20 mw. og 130 gwst. á ári af dísilorku, það þurfi að framleiða þessa orku með dísilafli á árinu 1976 á Norðurlandi til þess að fullnægja þar raforkuþörf miðað við mjög varkára spá, og getur hver maður séð, að miðað við olíuverð nú er þarna alger vá fyrir dyrum. Ég gæti giskað á, að miðað við það verð, sem nú er á olíu, kostaði að framleiða þessa raforku ekki minna en 500–600 millj. kr., en það mundi kosta með venjulegri innlendri virkjun, t.d. gufuvirkjun, eitthvað á bilinu á milli 70–130 millj. kr. Þannig er nú því miður komið orkumálum á Norðurlandi, og eins og ég sagði áðan, þá er gott og blessað að leggja fram svona skýrslu hér á hv. Alþingi og tala fjálglega um orkumálin í landinu, en sleppa því að minnast á, hvað ástandið er orðið slæmt á ýmsum svæðum landsins.

Það er því miður ekki útlit fyrir, að þetta lagist á næstunni á Norðurlandi, því að Kröfluvirkjun er ekki talin komast í gagnið fyrr en 1978 samkv. þessari skýrslu og eins samkv. því, sem ég hef aflað mér upplýsinga um hjá Orkustofnun. Þessi virkjun, sem er mjög álitleg, hefur dregist úr hömlu, bæði vegna þess að ríkisstj. ákvað að fara aðrar orkuöflunarleiðir á sínum tíma á árinu 1971 og ríkisstj. hefur síðan ekki sinnt því að rannsaka virkjunaraðstæður í Kröflu sem skyldi. M.a. var synjað um framlag til borunar á fjárlögum 1972 og 1973, þannig að þessi virkjun, sem er mjög álitleg, ekki bara fyrir Norðlendinga, heldur mjög álitleg virkjun almennt, sýnir fram á það, að háhitasvæði eru mjög ákjósanlegir virkjunarstaðir almennt í landinu, — hún hefur dregist úr hömlu. Ekki er heldur því að heilsa, að umrædd lína, sem öllu átti að bjarga á Norðurlandi, komi í gagnið fyrr en í allra fyrsta lagi um áramót 1975–76, og segja mér þó fróðir menn, að það muni mjög hæpið að telja, að hún komist í gagnið á þessu tímabili, þannig að það, sem stjórn Laxárvirkjunar segir í bréfi til orkuráðh., er algjörlega á rökum reist, að orkumál á Norðurlandi og alveg sérstaklega til húshitunar eru í algjöru öngþveiti, þrátt fyrir það sem hæstv, ráðherra sagði hér réttilega áðan, að Norðurl. e. er sérstaklega háð rafhitun. Ég verð því að segja, að ástandið í þessum efnum er ekki glæsilegt í mínu kjördæmi. Hæstv. ráðh. hefur svarað mér til, þegar ég hef verið að ræða um þetta við hann, að ég gæti og við sjálfstæðismenn, sjálfum okkur um kennt, því að við hefðum komið öllum orkumálum á Norðurlandi í öngþveiti með Laxárdeilunni. Ég verð að segja, að það er afskaplega „billeg“ röksemdafærsla að halda slíku fram. Ef rétt hefði verið á málum haldið, þegar hæstv. ráðh. tók við stjórnartaumunum í orkumálum, og hann hefði látið hendur standa fram úr ermum, eins og hann ætlar að gera núna með Kröfluvirkjun, að mér skilst, við virkjun á Norðurlandi, þá hefði sú virkjun komið í gagnið miklu fyrr en þær aðgerðir, sem hann ákvað. Hann hélt því fram, að línan yrði sú aðgerð, sem fyrst mundi gagna okkur Norðlendingum. Hann sagði fyrst að hún mundi koma 1973–74, svo sagði hann 1974–75, og nú er talað um áramót 1975 og 1976, eins og ég sagði áðan, mun það að öllum líkindum dragast a.m.k. fram að árinu 1976.

Samtímis því sem þetta gerist liggur ljóst fyrir, að það væri hægt bara með þeirri einföldu aðferð að skipta um vélar í Námaskarðsvirkjun, þar sem er gufuvirkjun nú, — með því að skipta um vélar og nota eimsvalaaðferð, þá aðferð, sem á að nota í Kröfluvirkjun, væri hægt að fá 12–13 mw. í raforku á Norðurlandi. Þetta hefur ekki einu sinni mátt gera, vegna þess að línan norður átti öllu að bjarga, og það var engu líkara og er engu líkara enn í raun og veru, því að við erum ekki enn búnir að sjá, að það verði mjög mikill skriður á Kröfluvirkjun, — það er engu líkara en það hafi verið sérstakt trúaratriði, að Norðlendingar skyldu fá orku eftir þessum leiðum.

Það hefur stundum verið svolítill misskilningur á milli okkar hæstv, ráðh. um þessar línubyggingar. Ég vil taka það fram hér til þess að forðast, að það verði enn þá misskilningur á milli okkar, að með því að ég hef gagnrýnt þessa aðferð hans, þá er ég ekki að mæla gegn samtengingu orkuveitusvæða. Hins vegar er ég að gagnrýna það, að svona skuli farið að hlutunum, að fyrst sé byrjað að leggja línu og síðan eigi að afla orkunnar. Eins og stendur í þessari skýrslu, er og var nauðsynlegt frá því fyrsta, frá því að það var séð, að Laxárvirkjun mundi stöðvast, eins og hún er nú, þannig að þar yrði ekki um frekari virkjanir að ræða, þá var þegar í upphafi nauðsynlegt öryggisins vegna að hefjast handa um að virkja á Norðurlandi annars staðar en í Laxá. Þetta er mergur málsins, þetta lét hæstv. ráðh. undir höfuð leggjast, byrjaði á öfugum enda, byrjaði á því að leggja línuna í stað þess að byrja á réttum enda, þ.e.a.s. á virkjun, sem var í lófa lagið að gera, því að þegar 1971 voru til skýrslur, sem bentu til þess, að gufuvirkjanir væru mjög hagkvæmar, og þá þegar höfðum við haft verulega reynslu af slíkum virkjunum auk annarra virkjunarkosta, sem eru á Norðurlandi og öllum er kunnugt um.

Ég ætla ekki að þessu sinni að lengja mitt mál öllu meir. Ég endurtek það, að ég tel mjög mikilvægt að fá þessa skýrslu, og ég tel, að hún sé glögg, sýni upplýsingar, sem séu mjög mikilvægar til þess að marka ákveðna stefnu á þessu sviði, sem við erum allir sammála um, að eru framkvæmdir, sem hljóta að njóta forgangs á undan öðrum framkvæmdum á næstu árum. Ég fagna því sérstaklega, að í þessari skýrslu eru undirstrikaðar röksemdir, sem ég hef haldið fram í orkumálum okkar Norðlendinga. Þar er tekið sérstaklega undir okkar röksemdir. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur gert þessar röksemdir að sinum með því að lesa þessa skýrslu hér upp, og ég skildi það svo, að með því vildi hann gera þessar röksemdir að sínum.