18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

288. mál, græðsla Sauðlauksdalssanda

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eiga orðastað við neinn fjarverandi ráðh., svo að ég get þess vegna orðið við beiðni forseta um að flytja mitt mál, og þótt fáir séu áheyrendurnir, þá vil ég nú vænta þess, að þeir leggi þeim mun betur hlustir við því, sem ég ætla að segja.

Ég hef ásamt hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmasyni, flutt till. til þál. um græðslu Sauðlauksdalssanda. Till. er í senn ætlað að vera þáttur í hinum stórbrotnu áformum um landvernd og landgræðslu í sambandi við þjóðbátíðarárið, og einnig og ekki siður er till. flutt til að minnast á verðugan hátt þess manns, sem íslenska þjóðin stendur í hvað mestri þakkarskuld við fyrir mikið brautryðjandastarf í jarðræktarmálum, en það er séra Björn Halldórsson prestur í Sauðlauksdal. Hans mun ávallt minnst í Íslandssögunni fyrir að verða til þess fyrstur manna að rækta jarðepli hér á landi og kenna mönnum að neyta þeirra. En þessi maður varð líka til þess fyrstur íslenskra manna, svo vitað sé, að gera ráðstafanir til að verja gróið land eyðingu af völdum sandfoks. Með tilliti til þessa hvors tveggja verður minningu hans ekki á loft haldið með neinu móti á annan verðugri hátt en með því að gera myndarlegt átak í jarðræktarmálum á bújörð hans sem ríkið á, og hefja aftur á loft merki hans í sandgræðslumálum.

Í till. er gert ráð fyrir, að nú þegar verði gerð áætlun um uppgræðslu Sauðlauksdalssanda, en á þessu ári eru 250 ár liðin frá fæðingu séra Björns, og verði græðslu sandanna lokið eigi síðar en árið 1982, en þá eru rétt 200 ár liðin frá brottför séra Björns Halldórssonar frá Sauðlauksdal og frá því að hinu stórmerka starfi hans þar lauk.

Flugvöllurinn á Sandodda við Patreksfjörð er byggður á Sauðlauksdalssöndum. Í hvassviðrum leggjast sandskaflar iðulega inn á flugbrautirnar, og væri þegar af þeirri ástæðu ærin nauðsyn að græða upp sandinn, a.m.k. sjávarmegin við flugvöllinn, til þess að draga úr slysahættu og forðast skemmdir á þessu gagnlega og dýra mannvirki. Enn brýnni er þó græðsla sandsins vegna þeirra spjalla, sem sandfokið veldur á gróðri í nágrenninu. Liggur jörðunum Sauðlauksdal og Kvígindisdal blátt áfram við eyðingu af völdum sandfoksins, sem berst frá sjó og hátt upp um hlíðar. En fari þessar jarðir í eyði af völdum þessa vágests, er allri byggðinni hætt.

Til þess að afstýra slíkum háska er knýjandi nauðsyn, hvað sem öðru líður, að rækta Sauðlauksdalssanda. En hér verður hið opinbera að koma til, enda ber því brýnust skylda til þess.

Þegar liggur fyrir fullgild sönnun þess, að þetta er hægt, því að bóndi í nágrenninu hefur þegar náð góðum árangri með ræktun sandsins og fengið góða uppskeru melgresis, sem reynst hefur hið ágætasta fóður. En verkefnið er einstaklingi ofvaxið. Sauðlauksdalssandar eru víðáttumiklir, um 150 ha., að mér er tjáð. Þeim ber að breyta í fagran töðuvöll á næstu árum. Í stað þess að fjúkandi sandurinn vofir nú sem vágestur yfir byggðinni, getur þarna orðið hið ágætasta fóðurforðabúr sveitarinnar og jafnvel nærliggjandi byggða. Í framhaldi af ræktun bóndans, sem ég gat um áðan, ber að halda áfram ræktuninni upp frá sjónum, láta mikilvirkar jarðýtur jafna út hinum hrikalegu sandborgum, sem myndast hafa, þar sem melur hefur fest rætur og veitt fokinu nokkurt viðnám, girða landið, bera á það, sá í það þeim grastegundum, sem reynslan hefur sýnt, að best duga til að binda jarðveginn, og létta ekki fyrr en iðjagrænn töðuvöllur hefur leyst sandauðnina af hólmi og tengst Sauðlauksdalstúni.

Þetta er verk, sem vel fer á, að hrundið sé af stað á sjálfu þjóðhátíðarárinu, sem helgað verður landgræðslu og landvernd.

En hvaða ástæður liggja þá til þess, að tengja slíkt landgræðsluátak einnig nafni séra Björns Halldórssonar? Á það hefur þegar verið minnst að nokkru, en samt teljum við flm. ástæðu til að rekja það nokkru nánar, enda er það merk saga, sem vel er þess verð, að henni sé á loft haldið. Vil ég nú leyfa mér að víkja nokkuð að ævistarfi séra Björns og þó nær eingöngu að þeim efnisatriðum, sem snerta sjálft efni tillögunnar.

Séra Björn Halldórsson er fæddur að Vogsósi í Selvogi árið 1724 — fyrir 250 árum, eins og áður er sagt. En þar var faðir hans, Halldór Einarsson, prestur. Tók hann við embætti af séra Eiríki Magnússyni, hinum þjóðfræga galdrapresti, og settist séra Halldór þannig að kalla mátti í órokið galdrahreiður hans. Halldór varð síðar prestur á Stað í Steingrímsfirði, og þar ólst Björn Halldórsson upp fram að fermingaraldri. Hann fór í Skálholtsskóla og lauk þar námi með glæsibrag. Lúðvík Harboe prófaði hann við stúdentspróf og gaf honum þann vitnisburð, að hann sé siðprúður og vandaður í hegðun allri, hafi stundað allar námsgreinar af kappi, en sé best að sér í latínu, grísku og guðfræði. Næstu árin á eftir gerðist hann sýsluskrifari hjá Ólafi Árnasyni í Haga á Barðaströnd, en tók prestsvígslu hjá Skálholtsbiskupi árið 1749 og gerðist það ár aðstoðarprestur séra Þorvarðar Magnússonar í Sauðlauksdal. Þjónaði hann fyrsta árið Selárdalsprestakalli (1749–1750), en bjó svo næstu árin í Saurbæ á Rauðasandi,fékk Sauðlauksdalsprestakall árið 1752. Að Sauðlauksdal fluttist hann svo árið eftir, 1753, og þar gerði hann garðinn frægan um 30 ára skeið. Þegar séra Björn kom að Sauðlauksdal voru staðarhús og kirkja hrörleg og að hruni komin og tún í órækt. En þarna urðu skjót umskipti, því að árið 1764 hafði hann reist öll staðarhús í Sauðlauksdal og byggt vandaða kirkju. Herma áreiðanlegar heimildir, að allt þetta hafi verið gert með svo mikilli prýði að naumast hafi þá þótt nokkurt veglegra og fríðara prestssetur á Vesturlandi en þar.

Enn meira var þó um vert þær einstæðu ræktunarframkvæmdir, sem séra Björn hóf strax í Sauðlauksdal af fullum krafti með eldmóði og trú hugsjónamannsins, sem allar torfærur yfirstígur.

Hann byrjaði á því að girða túnið, lét byggja 560 faðma langan, vandaðan túngarð, og var hann að hluta til ætlaður til varnar gegn sandfoki, sem þá þegar hafði valdið miklum skemmdum á Sauðlauksdalstúni. Er til þingvitnisburður um þetta frá árinu 1757, en þar segir, að hættan af sandfokinu sé svo mikil, að til auðnar horfi. Fékk séra Björn útvegað sér stjórnvaldsheimild til að leggja þá skyldukvöð á sóknarmenn að draga að grjót og byggja garð til varnar gegn sandfokinu fyrir þeim jaðri túnsins, sem til norðausturs sneri.

Þessi kvöð þótti bændum allill, og kölluðu ýmsir garð þennan því Ranglát, og hefur það heiti haldist síðan. Sér enn fyrir þessum sögufræga sandvarnargarði, og mun hann nú friðlýstur.

En séra Björn lét ekki hér við sitja með varnaraðgerðir sínar gegn sandfokinu.

Í merkri ritgerð eftir séra Björn, sem hann nefnir Grasnytjar, skýrir hann frá því, að hann hafi sáð melfræi í foksandinn til að hefta hann og hafi þær tilraunir heppnast allvel, en ekki hafi samt melgrasið náð þar jafnmiklum þroska og t.d. austur á landi, í Skaftafellssýslum.

Barátta séra Björns við sandinn er hin merkilegasta. En í því stríði vann hann samt engan úrslitasigur. Og í þeirri baráttu hafa allir Sauðlauksdalsprestar eftir hann átt án verulegs árangurs.

Dagana 16. og 17. febrúar 1763 olli sandfok svo miklum skemmdum á Sauðlauksdalstúni, að við afhroði lá.

Þá orti prestur vísur þessar um sandpláguna, og sýna þær, að séra Björn var dágott skáld:

Sandur mér hingað sendist,

sandurinn á þann vanda,

sandurinn sjónir blindar,

sandurinn byrgir landið,

sandurinn sést hér undir,

sandurinn sáðverk hindrar,

sandur er óstillandi.

Sandur á sætrum lendir,

sandurinn klæðum grandar,

sandurinn byggðum sundrar,

sandurinn teppir anda,

sandur í drykknum syndir,

sandur í froðu blandast,

sandurinn sætir undrum,

sandurinn er minn fjandi.

Eftir þetta áfall ritaði séra Björn Magnúsi Gíslasyni amtmanni bréf og hefur þar við orð, að hann verði líklega að flýja Sauðlauksdal, ef ekkert verði að gert. Ekkert svar barst, og ritaði séra Björn amtmanni þá annað bréf.

Kveðst hann hafa varið 10 ríkisdölum á hverju ári til að koma burt sandi, sem fokið hafi, og sé það meira en 1/4 hluti teknanna.

Biður hann amtmann enn að gera ráðstafanir til, að prestssetrið Sauðlauksdalur fari ekki í eyði og verði að sandflagi.

Ekki er kunnugt, að ákall þetta hafi nokkurn árangur borið. Er nú eftir að vita hvort æðstu stjórnvöld og Alþingi reynast skilningsbetri og skjótari í viðbrögðum eða hvort enn verður þagað þunnu hljóði.

Eiginlega má segja, að séra Björn léti einskis ófreistað — léti sér ekkert óviðkomandi í ræktunarmálum. Hann gerði tilraunir í trjárækt, en án verulegs árangurs. Einnig gerði hann tilraunir með kornrækt, en líka án teljandi árangurs. M.a. útvegaði hann sér bygg frá Færeyjum og sáði því í tvenns konar jarðveg, en það náði ekki heldur verulegum þroska.

Ekki sannfærðist hann samt um, að korn gæti ekki þroskast hér á landi, hér mundi um að kenna skorti á reynslu, þekkingu og þolinmæði og svo væri jarðvegur í Sauðlauksdal of þurr og sendinn fyrir kornræktina, þó að hann hentaði vel fyrir aðrar jurtategundir.

Áveituframkvæmdir séra Björns voru hinar merkustu og alger nýung á þeim tíma.

Túnið í Sauðlauksdal var votlent og í því margar uppsprettur, sem hnekktu grasvexti. Lét Björn ræsa þær fram og sameina í einum aðalframræsluskurði. Var svo um búið með smærri skurðum og stíflum, að veita mátti vatninu til skiptis á ýmsa hluta túnsins, sem hættast var við bruna í þurrkatíð, og einnig mátti veita því í stærsta matjurtagarðinn, þegar æskilegt þótti að vökva hann.

Í skurðinn voru settar stíflur eða vatnsþrær, sumar fyrir neysluvatn til heimilisþarfa, sumar til þvotta og sumar til að geyma í lifandi silung bæði til skemmtunar og til matar, ef skjótt þurfti til að taka. Og þar sem skurðurinn lá næst fjárhúsunum, var byggt yfir hann skýli og þar brynnt fénaði á vetrum.

Séra Björn bjó yfir víðtækri þekkingu í grasafræði, Hann vissi, að jurt sú, sem Walter Raleigh hafði flutt til Írlands árið 1584 frá Chile, var nú orðin útbreidd um Þýskaland og talin ágæt til manneldis. Einnig vissi hann, að þýskir bændur höfðu þá nýlega verið fengnir til Jótlands til að kenna Jótum kartöflurækt.

Það var sannfæring séra Björns, að kartöflur yrðu Íslendingum til mikillar nytsemdar, ef þær gætu vaxið hér. Þetta varð einmitt að reyna, fyrst svo erfiðlega hafði gengið með kornræktina.

Í ræktunarmálum var hann enginn nýgræðingur. Hann hafði fljótlega komið upp þremur matjurtagörðum í Sauðlauksdal. Þar óx og dafnaði ágætlega alls konar grænmeti: káltegundir margs konar, hreðkur, spínat, salat, steinselja, laukar, garðablóðberg og margt fleira.

Og nú var hann ekki í rónni, fyrr en hann hefði gengið úr skugga um, hvort kartaflan gæti þrifist í íslenskri mold.

Svo var það veturinn 1758, að hann lét verða af því að panta einna skeppu (þ.e. 1/8 úr tunnu) af kartöflum frá Kaupmannahöfn. En samgöngurnar voru ekki á marga fiska í þá daga, enda fór svo, að sendingin komst ekki í hendur séra Björns vestur í Sauðlauksdal fyrr en seint í ágústmánuði. Auk þess voru kartöflurnar þá orðnar ein spíruflækja og svo óásjálegar, að presti datt ekki annað í hug en að þær væru með öllu ónýtar. Hann taldi því ekki tilraunar vert að gróðursetja þær í garð, heldur lét þær í stórt ílát og huldi þær moldu. En það ótrúlega skeði. Í október fann hann þarna í moldinni nokkur örsmá kartöfluber, sem hann geymdi vandlega yfir veturinn og setti þær niður til reynslu vorið eftir, 1760. Og eftir fjórar vikur hafði undrið skeð. Þá sá presturinn í Sauðlauksdal jurt áður óþekkta hér á landi skjóta kolli úr moldu. Kartöfluræktun var hafin á Íslandi.

Þetta sama vor í júnímánuði fékk séra Björn nýjar kartöflur frá Kaupmannahöfn, því að hann ætlaði ekki að gefast upp, þótt fyrsta tilraun kynni að mistakast. Þessar kartöflur gróðursetti hann í vel unnum garði með ýmiskonar jarðvegi. Varð reynslan sú, að þetta nýja fósturbarn Íslands þroskaðist best í sendnum jarðvegi.

Girti hann ná af í túninu allstóran reit fyrir kartöflur, og voru þá 4 matjurtagarðar í Sauðlauksdal.

Ef menn halda, að þessum sigri Sauðlauksdalsprests hafi verið fagnað með húrrahrópum, þá er það hinn mesti misskilningur. Það leið langur tími áður en honum tækist að sigrast á vanafestu, fáfræði og rótgrónum hleypidómum almennings. Og í fyrstu gekk erfiðlega að fá vinnufólk í Sauðlauksdal til að leggja sér kálmetið og kartöflurnar til munns. Almenningur fékk sig ekki til að éta þetta beint upp úr moldinni. En smátt og smátt vannst sigurinn. Jarðeplaræktun breiddist hægt og hægt út um Vestfirði og Vesturland og síðan yfir landið allt, þar til kartöflur urðu á hvers manns borði, og það ekki síður á borði ríkra manna en snauðra.

Einn var sá maður, sem fullan skilning hafði á ræktunartilraunum og starfi séra Björns Halldórssonar. Það var Eggert Ólafsson, en hann dvaldi í Sauðlauksdal frá 1760–1764 og aftur veturinn 1767—1768. Séra Björn var kvæntur Rannveigu Ólafsdóttur úr Svefneyjum, systur Eggerts. Þeir voru þannig mágar.

Í bréfi til Grunnavíkur-Jóns segir Eggert t.d. meðal annars:

„Ég hef hér miklu betri heilsu en þar ytra,

bestu rólegheit og náðir til að stúdera, stofu nýja, vel byggða, út af fyrir mig með kakalóni, bóka- og klæðaskáp og öðru hagræði ... Hvað „diæta“ viðvíkur, hef ég kost sem utanlands og betri, vissan til hvers vikudags ... Hér eru matjurtir yfirfljótanlegar: grænt, hvítt, rautt, sniðsavoykál og kaalraven yfir og undir jörðu, sinnep, spínat, salat, laukar, pétursselja etc., næpur, hvítar rófur og ræddíker. Hér að auk akurgerði með jarðeplum í hvar af mjöl er gert til brauðs og grauta ... Amali-kaal er hér inn sett allan veturinn og framan af sumri. Er mér það helst til ánægju að sjá upp á þessa eins og aðra atburði, sem öðrum mislukkast hafa, til að divertera mig inter studia, og hef ég notið þess yndis að sjá hér græn lauf með plómutré, píl og espibræður í sumar, hvort sem guð lætur þetta ungviði þola vetrarkuldann að vori.“

Eggert Ólafsson lifði sem sé eins og blóm í eggi hjá mági sínum og systur í Sauðlauksdal. Hvergi undi hann sér betur en í lystihúsinu, en það var í einum matjurtagarðinum. Því lýsir Eggert svo: „Það var ferhyrnt, allar hliðar jafnlangar. Að ofan myndaði þakið „pyramid“ ferhyrndan, en efst á toppnum var knappur áttstrendur. Umhverfis húsið var svo gróðursettur mustarður. Var vöxtur hans svo mikill, að blöðin tóku upp á þakið.“

Þarna sat Eggert löngum á heitum sólskinsdögum, og er talið, að þar hafi hann ort nokkur sinna fegurstu kvæða.

Eitt kvæða hans er helgað lystihúsinu, og hefst það á þessum orðum:

Undir bláum sólarsali

Sauðlauks upp í lygnum dali o.s. frv.

Og síðar:

Mestur var af miklu blómi

mustarður að allra dómi.

Og enn:

Gulllegur runni húsið huldi

hér með sína gesti duldi,

af blakti laufa blíður kuldi

blossa sunnu mýkti þá.

Og lokaerindið: .

Vín á milli mustarðs stofna

mannsins hressti krafta-dofna,

margur söng við sólarofna

og sendi tóninn greinum frá;

fagurt galaði fuglinn sá;

lyst var engin segg að sofna,

sorgin burtu hrundi;

listamaðurinn lengi þar við undi.

Og víst er um það, að fegursta kvæði Eggerts Ólafssonar, „Búnaðarbálkurinn“ er ort í Sauðlauksdal, og byggist efni kvæðisins á heimilisháttum þar á prestssetrinu.

Um það, hvernig ástatt hafi verið með garðræktina og trjáræktina í Sauðlauksdal þegar Eggert Ólafsson fór þaðan árið 1764, fáum við skýra mynd af bréfi, sem Eggert ritar Bjarna landlækni Pálssyni frá Sauðlauksdal 1. des. 1763. Þar segir m.a.:

„ ... Ætið er hér heldur en ekki að aukast kálætið hjá bændum ... Jafnari og betri eplatekja var hér heima í haust en nokkurn tíma fyrr og kálframleiðslan nú jafnstærri. Kál vex hér alls staðar sæmilega, en næpur mjög misjafnt og vilja úrartast, en nú hefur mágur minn í haust fengið gott íslenskt næpnafrjó, og mun það ei svo fara sem hið framandi. Savíur hef ég fengið til þess sem svari 1/8 punds, og eiga nú rætur að standa til ævintýris veturinn af. Mustarðurinn vex hér langhæstur af öllum kálgresjum, svo sem scriptis segir. Sá, sem umgirti lystihúsið, og bróðir minn, Jón, mun til muna að hann varð 10 feta hár að íslensku máli og fræ fékkst af honum nokkuð.

Pílarnir ganga meir og meir til þurrðar, sanddrifið og hin auða jörð og sterkir stormar hygg ég þeirra veika lífi hafi að fullu riðið, samt þá lifðu fjórir í sumar, hvort sem þeir þoldu veturinn af. Blómkál hefur nú fyrst í sumar vaxið svo, að ávöxt gæfi til muna. Það fræ er auðsjáanlega skemmt, blandað við meira hluta af ordineru hvítkálsfræi. Blómhnúðurinn, sem óx úr því íslenska blómkáli, varð svo stór sem gildur karlmannshnefi.“

Þetta er merkur vitnisburður um árangurinn af garðyrkjustörfum séra Björns Halldórssonar. Barst hróður hans nú víða, enda var hann fyrstur Íslendinga sæmdur heiðurspeningi úr silfri úr hendi konungs fyrir garðyrkjustörf sín, einkum fyrir það, hversu vel jarðeplaræktin hafði tekist hjá honum.

Löngu síðan, 1781, síðasta árið, sem hann var í Sauðlauksdal, var hann sæmdur verðlaunapeningi Landbúnaðarfélagsins danska í viðurkenningarskyni fyrir, að hann hefði þá fyrir nokkrum árum tekið 5 munaðarlausa unglinga, 2 pilta og 3 stúlkur, og enn fremur 2 yngri börn og kennt þeim aðferð við garðrækt og jarðrækt, gefið þeim fræ til sáningar í dálítinn garð og látið unglingana sjálfa hafa ágóðann, en prófastskonan hefði sjálf kennt stúlkunum að búa til góðan mat, einkum af rófum, kartöflum og öðru grænmeti.

Þannig var líf og starf þessara stórmerku hjóna. Það hlaut viðurkenningu Danakonungs og danskra landbúnaðarsamtaka, en hlutur Íslands, sem naut lífsstarfs þeirra, liggur óneitanlega enn eftir.

Hér hefur aðeins verið rætt um störf séra Björns að garðyrkju- og jarðræktarmálum, en ævistarf hans á öðrum sviðum, svo sem að bókmennta- og vísindastörfum, er síst ómerkara.

Sætir mikilli furðu, hverju hann fékk afkastað. Á sviði landbúnaðarmála liggja t.d. eftir hann hin merkustu rit. Má þar t.d. nefna ritgerð í sendibréfsformi, sem út var gefin í Danmörku 1765 og nefndist: Korte beretninger og nogle Forsög til Landvæsenets og iser Havedyrkningens Forbedring í Island.

Þá má nefna stórmerka ritgerð hans: Grasnytjar, 1774. Það er nánast kennslubók í hagnýtingu íslenskra grasa og jurta. Skyldi hún stuðla að því, að menn keyptu minna af útlendri vöru til heimilisþarfa, en notuðu heldur íslenskar jurtir til manneldis.

En höfuðrit séra Björns um landhúnaðarmál eru samt Atli og Arnbjörg. Hefur verið sagt um Atla, að það rit sé eflaust eitthvert hið merkasta og besta búnaðarrit, sem samið hafi verið á íslensku. Atli kom fyrst út í Hrappsey 1780, prentaður á kostnað konungs og útbýtt meðal landsmanna endurgjaldslaust. Fékk höfundurinn samkvæmt konungsúrskurði 28 ríkisdali fyrir handritið. Nú er Atli mjög sjaldgæf bók, finnst aðeins á söfnum.

Ritið er í viðtalsformi ungs og aldraðs bónda, og gerir séra Björn grein fyrir efni og ætlunarverki bókarinnar í formála m.a. með þessum orðum:

„Inntak hans er að sýna það, sem satt reynist, að ekkert erfiði og enginn næringarútvegur er þarfari hér á landi en jarðyrkjan, ég meina tún- og engjarækt, og síðan, sem þar með verður að fylgja, nautpeningur, sem feitir jörðina og fæðir verkamennina. Ekkert erfiði launar betur búandanum fyrirhöfn sína, já, þar af lifir hann sæll í landinu og hans afkvæmi eftir hann.“

Þetta var dómur séra Björns um þýðingu landbúnaðarins.

Eins og Atli er fræðslu- og hvatningarrit fyrir unga bóndann, er ritið Arnbjörg fræðslurit fyrir húsmóðurina.

Þetta rit hafði nær týnst, en loks tókst Þórði háyfirdómara Sveinbjörnssyni að hafa upp á því, og lét hann þá prenta það í Búnaðarriti húss og bústjórnarfélags Suðuramtsins árið 1843. Þar með var því bjargað frá gleymsku. Væri það verðugt verkefni Búnaðarfélags Íslands að gefa út landbúnaðarrit séra Björns í Sauðlauksdal með myndarlegum hætti.

Um önnur rit séra Björns frumsamin og þýdd skal hér ekki rætt, heldur aðeins minnst á hið einstæða vísindaafrek hans, íslensk-latnesku orðabókina, sem að er vikið í greinargerð þessarar till., og vísast til þess, sem þar er sagt.

Margir mætir menn og merkir hafa að vonum ritað um séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og hans mikla og fjölþætta lífsstarf. Má meðal þeirra nefna séra Björn Þorgrímsson á Selbergi, Þórð háyfirdómara Sveinbjörnsson, Sæmund Eyjólfsson, Þorvald Thoroddsen í Landfræðisögunni, Eggert Ólafsson, P. Müller Sjálandsbiskup og Finn Magnússon og sjálfsagt fleiri, þótt mér sé ekki kunnugt um.

Sá síðast nefndi ritaði um séra Björn í Sauðlauksdal í danska ritið Minerva árið 1803 og taldi þar upp rit þau, sem eftir hann lægju, en segir síðan, að hann hafi verið duglegur bóndi, aðfaramikill og slyngur sjómaður, afkastamikill rithöfundur og gott skáld, enn fremur hafi hann verið málari, skrautritari, myndskeri, trésmiður og járnsmiður og allt þetta eins og framast geti orðið á Íslandi.

Þannig ber öllum saman um, að séra Björn í Sauðlauksdal hafi verið frábær maður á flesta lund og afburðamaður í ýmsum greinum.

Afreka hans fyrir íslenska þjóð ber því að minnast, og telja flutningsmenn þessarar tillögu, að það verði á engan betur viðeigandi hátt gert en með verki í anda og framhaldi verka hans, þ.e. með því að taka upp baráttuna við sandinn, því að eins og hann sjálfur sagði: „Sandurinn var hans fjandi.“

Ég legg til að svo mæltu, herra forseti, að umr. verði frestað og till. síðan vísað til fjvn.