18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3710 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

420. mál, nýting innlendra orkugjafa í stað olíu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér réttilega áðan í ræðu sinni, er það ekkert nýtt eða óvænt, sem kemur fram í þeirri till. til þál., sem hér er til umr., og má raunar segja, að þau markmið, sem þar eru sett fram, minni nokkuð mikið á þau markmið, sem sett voru fram af hæstv. orkumrh. strax á fyrstu mánuðum hans ráðherratíðar, og má í því sambandi m.a. minna á samþykkt eða ályktun ríkisstj. frá 21. sept., en þar er m.a. talað um stóraukna búshitun með raforku, en svo virðist þó samkv. þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir, að framkvæmdir séu næsta skammt á veg komnar enn sem komið er, og má raunar segja, að lítið hafi orðið úr öllum þeim áætlunarvinnubrögðum, sem heitið var í upphafi ferils þessarar ríkisstj. fyrir þrem árum. Ég ætla þó ekki að ræða almennt um þau mál hér, það hefur verið gert af ýmsum öðrum hv. þm, við þessa umr., en aðeins inna hæstv. iðnrh, eftir því, ef mér leyfist að spyrja hann spurninga, en ég hef orðið var við það stundum, að hann kann illa að meta það, að ég leggi fyrir hann spurningar, og telur, að það beri vott um, að kennarinn sé of ofarlega í mér, — en mig langar til að spyrja hann, vegna þess að mér er kunnugt um, að ýmsir menn af Norðurlandi hafa leitað til hans og nú síðast í gær, að ég ætla, um það, hvaða stefna verði tekin í húshitunarmálum. Hér liggur fyrir að marka stefnu um það að láta innlenda orkugjafa taka við af erlendum, og er í því eini rétt, að það liggi fyrir, hvort það sé hugsun hæstv. ráðh. að heimila, að þegar í stað skuli gert ráð fyrir því, að ný hús verði hituð upp með raforku eða ekki. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur mjög verið á það sótt einkum ná eftir að olía hækkaði svo mjög í verði, en ég veit, að það hafa hrannast upp umsóknir um þetta norðanlands.

Ég vil í þessu sambandi geta sérstaklega um Norður-Þingeyjarsýslu. Þar eru nú tiltölulega miklar byggingarframkvæmdir fyrirhugaðar, og Alþ. hefur samþykkt sérstaka landshlutaáætlun um uppbyggingu Norður-Þingeyjarsýslu. Er gert ráð fyrir því, að af opinberri hálfu verði lagt fram fjármagn til þess að örva þar byggð. Mig laugar til að spyrja af því tilefni, hvort það hafi nokkuð komið til tals eða álita að láta t.d. Norður-Þingeyjarsýslu sitja sérstaklega fyrir að þessu leyti, ef menn treystu sér ekki til þess að láta þá reglu ná almennt yfir ný hús utan Landsvirkjunarsvæðisins að hita þau upp með raforku, hvort ekki sé hugsanlegt að láta sérstakar reglur gilda um Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem Alþ. hefur sérstaklega viðurkennt það með sinni samþykkt að nauðsynlegt sé að gera sérstakar ráðstafanir til þess að örva þar byggð. Það liggur fyrir, að ýmsir, sem hafa hugsað sér að leggja í nýbyggingar, hafi í huga að fresta framkvæmdum eða jafnvel hætta alveg við þær, nema þeir fái jákvætt svar við þessu. Mig langar jafnframt til þess að spyrja um það, hvort ætlunin sé að heimila almennt húshitun á Laxárvirkjunarsvæðinu í nýjum húsum, Ég vona, að þetta séu ekki of erfiðar spurningar fyrir hæstv. ráðh.

Ég vil svo aðeins lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli nú komið svo, að ætla megi, að fundin hafi verið lausn á húshitunarmálum Akureyringa með því, að þangað sé lögð hitaveita frá Námafjallssvæðinu, og má kannske segja, að þar séu þá tvær flugur slegnar í einu höggi, þar sem vitað er, að það getur valdið erfiðleikum að losna við það heita vatn, sem kemur upp, með því að reisa þar gufuvirkjun. Það hefur verið talað um að veita vatninu austur í Búrfellshraun. En með því að þessar áætlanir liggja fyrir, getur vel komið til álita að nýta þetta vatn til húshitunar á Akureyri, og er það að sjálfsögðu mjög góður kostur, og er vonandi, að niðurstaða um það geti legið fyrir nú á þessu ári.

Ég vil svo að lokum aðeins taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að höfuðástæðan fyrir þeim erfiðleikum, sem eru í raforkumálum Norðlendinga, er sú, að eftir að þessi ríkisstj, tók við völdum, hefur engin stefnumörkun verið gerð í orkumálum Norðlendinga. Þannig var fyrst talað um það, eftir að þessi ríkisstj. tók við völdum, að bygging háspennulínu norður, og þá er reiknað með Sprengisandi, mundi hefjast á árinu 1972 og ljúka á árinu 1974. Síðan dróst þetta ár frá ári. Þessi fyrstu ár var talað um, að þessi lína mundi kosta 220–300 millj. kr. Síðan dróst þetta ár frá ári. Þannig talaði hæstv, iðnrh, um það nú í nóv. — eða hvort það var í okt., að nauðsynlegt væri, að bygging línunnar hæfist á öndverðu ári 1974. Þá var líka talað um það af hæstv. ráðh., að línunni mundi ljúka á öndverðu ári 1975. Mér er ekki kunnugt, hvort framkvæmdir eru hafnar enn við þessa línu. En nú er hæstv. ráðh. kominn með línuna í lok ársins 1975, og samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum fengið frá tæknimönnum, má búast við því, að það taki tvö ár að byggja línuna frá þeim tíma, sem framkvæmdir hefjast.

Ég vil enn fremur benda á það í sambandi við Kröfluvirkjun, að einnig í því efni var ekki um neina stefnumörkun að ræða, og má segja, að þetta hafi skollið yfir hæstv. ríkisstj. Á hennar fyrstu árum og fyrstu misserum voru hafðar í huga allt aðrar framkvæmdir til lausnar raforkuvandanum nyrðra. Þá var mest talað um virkjun Jökulsár á Fjöllum, og þá var talað um það, að rafmagnið ætti að fara eftir Sprengisandslínunni fram og til baka. Nú er ekki lengur um það rætt, enda kom það fram í því, að á árunum 1972 og 1973 mátti ekki halda áfram borunum við Kröflu. Það var fyrst við 3. umr. fjárl. nú, sem hæstv, ríkisstj. fékkst til þess að taka þessar nauðsynlegu rannsóknarboranir inn í fjárlagafrv., og nú er talað um, að virkjun Kröflu eigi að ljúka seint á árinu 1978, sagði hæstv. iðnrh. á fundi á Akureyri í nóv., eða kannske ári fyrr, ef áhersla verður lögð á að flýta þessum framkvæmdum. Nú geri ég ráð fyrir því, að allir Norðlendingar leggi mikla áherslu á að flýta þessum framkvæmdum, og nú langar okkur til að vita, hvernig stendur á því, að ekki skuli reynt að gera það.

Formaður Laxárvirkjunarstjórnar, kaupfélagsstjórinn á Akureyri, sem enginn getur sagt, að sé óvilhallur núv. ríkisstj., hefur komist svo að orði í ræðu, að það sé vandalaust að ljúka Kröfluvirkjun um áramótin 1976–1977, og ekki dettur mér í hug, að sá vísi maður fari með fleipur eitt. Ég hyllist í þessu efni til að taka nokkurt mark á því, sem hann segir, og efast t. d, ekki um það, að samþm. minn að norðan, hv. 1. þm. Norðurl. e., hyllist einnig til að taka mark á því, sem sá mæti maður segir, a.m.k, í sumum tilvikum.

Í sambandi við þessi mál og í sambandi við hina miklu áráttu hæstv. ráðh. að láta línulagnirnar koma á undan orkuframleiðslunni er náttúrlega engin tilviljun, að í 2. lið þessarar þáltill. skyldi fyrst talað um samtengingu orkuveitusvæðanna, síðan á eftir talað um að búa til orkuna. Þetta er spegilmyndin af því, sem við eigum að búa við fyrir norðan, og skal ég ekki angra hæstv. ráðh. með því tala oftar um línuna til Sauðárkróks í því sambandi né tala um, hversu margir staurar brotnuðu í óveðrinu nú í vetur, nokkrum misserum áður en straumur kemur á hana.

Mig langar svo að lokum til að spyrja um það, sem er einnig mikið atriði. fyrir okkur Norðlendinga. Það kom í ljós nú í óveðrinu í vetur, að Norðlendingar eru mjög illa settir í öryggismálum í sambandi við raforku. Þannig vantar dísilstöðvar nyrðra, bæði í Þórshöfn og Raufarhöfn, þar brotnuðu niður dísilstöðvar núna í vetur, einnig á Kópaskeri og Grenivík. Í Hrísey er ónógt rafmagn, dísilstöð vantar á Ólafsfirði, dísilstöð vantar á Dalvik, og það er verið að byggja dísilrafstöð fyrir Akureyri fyrir 100 millj. kr. Nú skilst mér, að hæstv. ráðh. hefði haft góð orð um, að það yrðu gerðar áætlanir um þessi mál, og vona ég, að hann standi við það. Það má vera, að þarna sé um nokkrar fjárhæðir að tefla, en það verður að hafa það, þegar þannig er haldið á málum, og má raunar vera, að tregðan á því að leggja rafmagnið um Þistilfjörðinn sé sprottin af því, að ónógt rafmagn hafi verið til handa þeim bændum, sem búið var að beita rafmagni í ágústmánuði s.l. Mér skilst raunar, að rafmagnið geti kannske komið til þeirra nú fyrir belgi. Það er svo núna, að mér er alltaf sagt, að rafmagnið komi í næstu viku. Það var svo um áramótin, að það átti að koma í næsta mánuði, svo að það fer kannske að styttast í, að það komi kannske næsta dag.

Eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði réttilega, er þessi till., sem hér liggur fyrir, alveg meinlaus. Það er komið í ljós núna, eftir að þessi hæstv. ríkisstj. hefur setið í nær þrjú ár, — sú ríkisstj., sem ætlaði að byggja upp á hvers konar áætlunargerð og hefur mest veist að okkur sjálfstæðismönnum fyrir það, að við kunnum ekki að búa til áætlanir, að nú ætlar það að verða eitt síðasta verk hæstv. orkumrh., áður en hann fellur úr stólnum, að leggja það fram í krafti síns ráðherradóms, að Alþ. ályktaði, að gerð skuli ítarleg framkvæmdaáætlun, skal áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdahraða o.s.frv. Það hefði mátt búast við því, að einhver drög að þessari áætlun gætu legið fyrir. Hér er t.d. talað um það, að hitaveituframkvæmdum verði í meginatriðum lokið á árinu 1977. Þetta ártal er sett algerlega út í bláinn, eins og öll ártöl hafa verið sett út í bláinn af þessum hæstv. ráðh. Því hefur verið fylgt svona eftir.

Það er ekki aðeins virkjun Kröflu, það er ekki aðeins lína norður, það er ekki aðeins Sigölduvirkjun, það er t.d., svo að ég nefni enn eitt dæmið, fullnaðarrannsóknir við Dettifoss. Ég hef ekki enn séð það plagg um Dettifoss, að þar eigi ekki að verða lokið rannsóknum eftir tvö ár. En í krafti þess, að senn eru stjórnarskipti og aðrir duglegri menn taka við, þá verður ugglaust hægt að standa við þetta, náttúrlega að því tilskildu, að unnt verði að taka ákvörðun og byggja upp hitaveituframkvæmdir t.d. á Akureyri nægilega snemma til þess, að bægt sé að standa við þetta ártal. En auðvitað er það ekki aðalatriðið, heldur hitt, að unnt sé að hafa sem mestan framkvæmdahraða.