06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

358. mál, áhugaleikfélög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um, að fyrirhugað sé að leggja fram frv. um Þjóðleikhúsið að nýju. Það er sjálfsagt rétt að tengja saman þessi tvö umræddu frv., enda þótt það hafi orðið til þess, því miður, að dregist hefur að afgreiða nýtt frv. um Þjóðleikhús. Um það þýðir ekki að sakast nú, en vonandi tekst á þessu þingi að afgreiða frv. um Þjóðleikhús. Í því voru ákvæði, sem tvímælalaust horfðu til bóta, og get ég þar nefnt, að gert var ráð fyrir mannaskiptum í yfirstjórn leikhússins og nýja ráðningarhætti varðandi leikhússtjóra.

Einnig vil ég minna á, að í Ed. kom fram till. um heimild leikhúsinu til handa að ráða leikritahöfund til að skrifa verk fyrir leikhúsið. Menn gera sér miklar vonir um, að slík skipan geti orðið innlendri leikritun og leikhússtarfi mikil lyftistöng. Ég vona því, að sú till. hafi verið tekin inn í hið endurskoðaða frv.

Það var tekið fram fyrr í dag, að fyrirspurnatími ætti ekki að vera tilefni almennra eldhúsdagsumr., en ég vil samt leyfa mér að nota þetta tækifæri til að minna hæstv. menntmrh. á, að enn vantar leiklistarskóla hér í landi, og vil eindregið mælast til þess, að á því ófremdarástandi verði ráðin bót.