19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3733 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

172. mál, verndun Mývatns og Laxár

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með því að setja sérstök lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu er stefnt að því að tryggja svo sem auðið er með löggjöf, að náttúrufari þessa sérstæða landssvæðis og lífríki þess verði ekki raskað og að komið verði í veg fyrir mengun í Mývatni og Laxá. Ákvæði þessa frv. taka til Skútustaðahrepps og Laxár með hólmum og kvíslum allt að ósi árinnar við Skjálfanda, ásamt 200 m breiðum spildum meðfram Laxá upp frá báðum bökkum árinnar.

Aðalefni frv. felst í þrenns konar ákvæðum: 1) Ákvæðum um skipulag og eftirlit með mannvirkjagerð. 2) Ákvæðum um, að reisa skuli og reka náttúruverndarstöð við Mývatn. 3) Ákvæðum um varnir gegn hvers konar mengun á svæðinu.

Á landssvæði því, sem frv. tekur til, skal hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til. Heimilar skulu þó framkvæmdir, sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum, nema spjöllum valdi á náttúruverðmætum að dómi Náttúruverndarráðs. Enn fremur eru heimilar, án sérstaks leyfis Náttúruverndarráðs, byggingar samkv. staðfestu skipulagi.

Þá kveður frv. á um, að reisa skuli og reka náttúrurannsóknarstöð við Mývatn. Menntmrn. skipar stjórn stöðvarinnar samkv. tilnefningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, hreppsnefndar Skútustaðahrepps, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Náttúruverndarráðs. Skal fulltrúi Náttúruverndarráðs vera form. stjórnarinnar. Stjórn stöðvarinnar sér um framkvæmdir á hennar vegum og rekstur stöðvarinnar. Með starfsemi hennar á að veita stjórnvöldum ráð um allt það, er lýtur að framkvæmd laga þessara. En í reglugerð, er menntmrn. setur að fengnum till. Náttúruverndarráðs, skal nánar kveðið á um starfshætti stjórnarinnar og starfsemi stöðvarinnar, m.a. um samstarf við heimamenn og aðstöðu til námskeiðahalds fyrir háskólanema í náttúrufræðum.

Í sambandi við varnir gegn mengun eru þau ákvæði sett í frv., að menntmrn. setur að fengnum till. heilbrn. og Náttúruverndarráðs reglugerð um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, er lögin taka til, og skal þar m.a. kveðið á um sérstakar mengunarvarnir Kísiliðjunnar við Mývatn. Í reglugerðinni skal ennfremur kveðið á um verndun lífríkis á svæðinu og skynsamlega nýtingu þess, svo sem um takmörkun á aðgangi ferðamanna að tilteknum stöðum á því svæði, sem frv. tekur til.

Hið sérstæða vistkerfi Mývatns og Laxár hlýtur að vera mjög næmt fyrir hvers konar utanaðkomandi truflunum, og það í heild verður aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess. Ber því að gæta ítrustu varúðar í sambandi víð hvers konar mannvirkjagerð og atvinnurekstur, sem vænta má, að geti haft neikvæð áhrif á náttúrufar svæðisins. Með setningu sérstakra laga um þetta efni og reglugerðar samkv. þeim, eins og hér er stefnt að, þá mundi vera hægt að sameina í eina heild öll ákvæði, sem lúta að náttúruvernd þessa viðkvæma svæðis, og á grundvelli þess að hafa nokkurn veginn fullt vald á því, hvað aðhafst er um mannvirkjagerð á þessu svæði.

Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu í hv. Nd. Menntmn. Nd. mælti með samþykkt frv., en lagði til, að gerðar yrðu á því smávægilegar breyt., og var það tekið til greina við afgreiðslu málsins í Nd. Menntmn, þessarar d. hefur fjallað um frv. og leggur til, að það verði samþ. N. ber ekki fram neinar brtt. við frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að bera fram sérstakar brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Það er því einróma till. n., að frv. þetta verði samþ.