19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

8. mál, skólakerfi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði í lok ræðu sinnar, að allir væru sammála um markmið skólalöggjafar.

Ég tek heils hugar undir þetta. Við hljótum að vera sammála um markmiðin. Og hæstv. ráðh. lagði áherslu á þau markmið að jafna aðstöðumuninn milli strjálbýlis og þéttbýlis og jafna aðstöðumuninn milli ríkidæmis og fátæktar líkt, en sá aðstöðumunur er ekki eins mikill nú í okkar þjóðfélagi og kann að hafa verið áður, enda kom það fram í ummælum hæstv. ráðh., að það, sem hann hefði fyrst og fremst í huga í sambandi við jöfnun aðstöðumunar, væri jöfnun milli aðstöðu strjálbýlis og þéttbýlis.

Það er engin tilviljun, að hæstv. ráðh. leggur hér, þegar hann talar fyrir þessu máli, mesta áherslu á þetta markmið. Mér finnst það eðlilegt. Það er líka í grg. með grunnskólafrv. lögð alveg sérstök áhersla á þetta markmið. Mér hefur virst, að í öllum umr, um þetta mál hafi fátt borið hærra en þetta markmið. Það á ekki við aðalhöfunda og forsvarsmenn grunnskólafrv. frekar en hina, sem hafa haft uppi gagnrýni. Meira að segja hefur mér svo virst, að það væri oftast nær mætt gagnrýni um einstök efnisatriði þessara frv. með því, að það mætti ekki gagnrýna, vegna þess að við yrðum að ná því markmiði að jafna aðstöðumuninn. Og þá hefur fléttast inn í það mál það atriði, sem einna umdeildast hefur verið í umr. um þetta mál, spurningin um lengingu skólaskyldunnar. Mér hefur virst, að formælendur þessarar nýju löggjafar legðu svo mikla áherslu á það atriði að lengja skólaskylduna vegna þess, að það væri svo þýðingarmikill þáttur í að jafna aðstöðumuninn. Það er þessi röksemdafærsla, sem hefur gert mig tortryggnari en ella gagnvart þessum frv. Ég fæ ekki betur séð en hér sé um algjör falsrök að ræða og að mínu viti ámælisvert, þegar menn eru að halda því fram og berjast fyrir því, sem þeir kalla jöfnun á aðstöðu dreifbýlis og þéttbýlis, með því að berjast fyrir lengingu skólaskyldunnar. Það er ekki það, sem skiptir máli í þessu efni. Það skiptir ekki máli, hvort skólaskyldan er einu ári lengri eða skemmri, til að jöfnuður náist. Það er engu ábótavant í skólamálum dreifbýlisins fyrir þær sakir, að nemendur þar hafi gert uppreisn og ekki viljað fara í skóla og það þurfi þess vegna að setja lög til þess að skylda þá til slíks á þessu æviskeiði, sem um er að ræða. Það er ekki það, sem hefur skeð. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvað það er, sem veldur aðstöðumuninum á milli strjálbýlis og þéttbýlis. Það er ekki neitt, sem viðkemur skólaskyldunni. Það er hins vegar það, sem viðkemur fræðsluskyldunni, og við verðum í umr. um þessi mál að halda þessu tvennu aðskildu, en ekki að leyfa okkur þann munað, sem margir af formælendum þessara frv. leyfa sér, að rugla þessum hugtökum saman eða nota hæði orðin um sama hugtakið og hyggja svo sína röksemdarfærslu á því.

Þar sem skórinn kreppir að í strjálbýlinu, er það þannig, að það er allt of víða, sem hefur ekki verið hægt að fylgja eftir í framförum síðustu ára og áratuga í uppbyggingu aðstöðu til þess að veita fræðsluna, byggingu skóla og annarra mannvirkja, sem tilheyra skólastarfinu. Það er í þessu efni, sem skortir á. Ef við ætlum að jafna hér aðstöðumuninn, skulum við ganga hreint til verks og ræða þetta, en ekki vera með þá firru, að allt sé komið undir því, að skólaskyldan sé lengd um eitt ár. Það er hægt að lengja fræðsluskylduna um eitt ár án þess að lengja skólaskylduna, og ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um, að það sé rétt að lengja fræðsluskylduna. Og ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um að stuðla þannig að því skipulagi, sem komi upp samfelldu menntakerfi í landinu. Ég hygg, að menn geti verið sammála um þetta. En það er aðalatriðið, hvað við getum gert til þess að jafna aðstöðumuninn varðandi framkvæmd fræðsluskyldunnar.

Hér er um að ræða fyrst og fremst fjárhagsvandamál. Spurningin er sú, hvort það skipulag, sem nú er í þessum efnum, sé gott eða í einhverju ábótavant og hvort þar kunni ekki að felast þeir ágallar, sem til verður rakinn sá ójöfnuður, sem í dag er á milli strjálbýlis og þéttbýlis í þessum efnum. Og þetta er mál, sem ýmsir hafa verið að velta fyrir sér, ekki einungis síðustu ár, heldur um alllangt skeið. Og þá hefur athygli manna beinst að því, hvort það þyrfti ekki að gera gagngerða breytingu á grundvallarskipulagi þessara mála og endurskoða frá grunni verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í þessu efni. Þessar umr. hafa ekki síst átt sér stað á vettvangi sveitarstjórnarmanna, og sú skoðun, að hér þurfi að gera gagngerða breyt., hefur ekki síst átt fylgi að fagna meðal sveitarstjórnarmanna.

Samband ísi. sveitarfélaga hefur látið þetta mál mjög til sín taka. Þar er ríkjandi skoðun, að taka eigi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og samtaka þeirra til heildarendurskoðunar og gera hana einfaldari og gleggri en nú er. Þá er gert ráð fyrir, að sameiginlegum verkefnum ríkisins og sveitarfélaganna verði fækkað. Einstök verkefni framkvæmdavaldsins yrðu þá falin þeim aðila, sem eðlilegast er að hafi þau með höndum, þannig að saman fari hjá sama aðila frumkvæði og framkvæmd, og sá sami aðili standi að öllu leyti undir kostnaði við framkvæmdina. Samkvæmt þessu er rætt um, að ríkið hafi með höndum verkefni, sem varða alla landsmenn nokkurn veginn jafnt án tillits til búsetu, svo og verkefni, sem fela í sér jöfnun á aðstöðu sérstakra byggðarlaga. Sveitarfélögin annist staðbundin verkefni, sem fyrst og fremst snerta íbúa sveitarfélagsins og varða daglegt líf þeirra meira og minna. Þá er haft í huga, að sveitarfélögin hafi samvinnu um að leysa tiltekin verkefni, þar sem það þætti henta, t.d. á héraðsgrundvelli eða í einstökum landshlutum. Með þessum hætti yrði ríkisvaldinu dreift út um landshlutana, eftir því sem unnt yrði og hentugt þætti.

Þessi almennu rök, sem ég hef hér aðeins drepið á og færð hafa verið fram fyrir nauðsyn endurskoðunar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, eiga hvergi meiri rétt á sér en einmitt í skólamálum. Ríkið og sveitarfélögin annast sameiginlega skólamál á skyldunámsstigi og allt til loka gagnfræðanáms svo og iðnnám og húsmæðranám, enn fremur framhaldsdeildir gagnfræðaskóla. Skólamálin eru einn stærsti samskiptavettvangur ríkis og sveitarfélaganna. Kostnaðarsamskipti ríkisins og sveitarfélaganna eru margslungin og flókin. Grunnskólafrv. er byggt á gildandi lögum um verkaskiptingu og kostnaðarsamskipti ríkisins og sveitarfélaganna.

Ég tel vera brýnt verkefni að gjörbreyta, umbylta skipun skólamála í landinu með það fyrir augum að auka hlut sveitarfélaganna og samtaka þeirra og minnka að sama skapi hlutverk ríkisins í þessum málum. Við þessa breyt. þarf einnig að gera verkaskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaganna einfaldari og gleggri en nú er og gæta þess, að framkvæmd og fjármálaábyrgð séu á einni hendi, til að tryggja sem mesta hagkvæmni og árangur. Samkv. þessu er það skoðun mín, að sveitarfélögin og samtök þeirra eigi ein að annast ákveðin hluta fræðslumálanna að öðru leyti en því, sem varðar ákvörðun námsefnis og námseftirlit. Hér er um að ræða, að sveitarfélögin standi undir stofnkostnaði og rekstri skóla á skyldunámsstigi, en ríkið greiði öll kennaralaun, þar sem það ráði kennslumagninu. Enn fremur greiði ríkið kostnað vegna skólaaksturs nemenda og vegna heimavistar til að jafna aðstöðu milli sveitarfélaga. Sama verkefnaskipting eins og varðandi skyldunámið ætti að mínu viti að gilda um skóla á framhaldsskólastigi í beinum tengslum við skyldunámið, þ.e.a.s. gagnfræðaskóla og fjölbrautaskóla. Aftur á móti ætti ríkið að reka og kosta að öllu leyti skóla á háskólastigi svo og sérskóla, t.d. tækniskóla, vélskóla, hótelskóla, stýrimannaskóla, húsmæðrakennaraskóla, búnaðarskóla, fiskvinnsluskóla o.s.frv., og þá ætti ríkið að kosta a.m.k. fyrst um sinn skóla, sem eingöngu starfa sem menntaskólar og húsmæðraskólar. Þessi skoðun á nýrri verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna ætla ég að sé í fullu samræmi við þær hugmyndir, sem nú njóta stuðnings Sambands ísl. sveitarfélaga.

En til þess að hægt sé að framkvæma svo umfangsmikla breyt. á verkaskiptingu í skólamálum landsins, þurfa sveitarfélögin og samtök þeirra að fá miklar viðbótartekjur til þess að standa undir framkvæmd verkefnisins. Það þarf því fyrst að efla tekjustofna sveitarfélaganna, svo að um munar. Hér er því um miklu víðtækara mál að ræða. En nú starfar hins vegar stjórnskipuð n., sem hefur það verkefni að endurskoða sveitarstjórnarlögin, og bað felur í sér að gera heildarendurskoðun á hlutverkaskiptingu og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna. Það mun hafa verið gert ráð fyrir því, að þessi n. hraðaði svo störfum, að hún jafnvel gæti skilað frv., sem lagt yrði fyrir Alþ. það, er nú situr, þó að raunar bóli nú ekki, að því er ég best veit, á þessu frv. En ég hygg, að það sé óhætt að segja það, að af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga sé við þessa endurskoðun á hlutverkaskiptingu og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga stuðlað og unnið að því að fá breytt þessari verkefna- og tekjuskiptingu í þá átt, sem ég hef hér verið að gera grein fyrir.

Með tilliti til þessa vil ég láta hér koma fram skýrt þá skoðun mína, að hagkvæmust vinnubrögð hefðu verið að láta endanlega afgreiðslu grunnskólafrv. í heild bíða, þar til fyrir lægi, á hvaða grundvelli verði byggt eftir fyrirhugaðar lagabreytingar varðandi verkefna- og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna. Ég tel mjög óhyggilegt að gera svo umfangsmiklar breyt. á skólamálum landsins sem felast í grunnskólafrv., þegar ekki er tjaldað nema til einnar nætur, ef m.ö.o. að við stöndum frammí fyrir þeirri staðreynd eftir eitt eða tvö missiri kannske, að það sé komin allt önnur skipan á hlutverkaskiptingu og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna en er í dag. Þessari skoðun var lýst þegar í hv. Nd. við 1. umr. þessa máls af formanni þingflokks Sjálfstfl. Við þm. Sjálfstfl. erum eindregið á þeirri skoðun, að um málsmeðferð alla hafi tekist hrapallega að þessu leyti. Undir þessar skoðanir hefur ekki verið tekið af hálfu stjórnarliðsins eða þeirra, sem höfuðábyrgðina bera, og ekki af hæstv. menntmrh. Þvert á móti hefur verið lögð hin mesta áhersla á að þrýsta þessu máli fram og fá afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi.

Ég tel, að það sé mjög miður farið, að þetta skuli þurfa að ske í svo þýðingarmiklu máli sem menntamálin eru og grundvallarskipun þeirra er og í máli, sem mér virðist og ég hygg, að flestir ættu að geta tekið undir með mér, að sé í eðli sínu óflokkspólitískt. Ég hygg, að það hefðu verið eðlilegri og skynsamlegri vinnubrögð fyrir alla og þá ekki síst hæstv. menntmrh. að líta með velvilja og skilningi á þau sjónarmið, sem sjálfstæðismenn settu fram þegar við 1. umr. þessa máls í Nd. Ég held, að ef þannig hefði verið farið að, hefði margt áunnist. Með því móti hefði verið möguleiki til þess að gera miklu róttækari og gagngerðari breyt. á skólalöggjöfinni heldur en hér er stefnt að og gera raunhæfar aðgerðir til þess að ná því markmiði, sem hæstv. menntmrh. lagði svo mikla áherslu á og ég hygg, að allir aðrir séu honum sammála um, að jafna aðstöðumuninn milli strjálbýlis og þéttbýlis.

En það þýðir ekki að vera hér með neinar harmatölur út af því, hvernig komið er. Ég þykist vita, að það komi fram þau sjónarmið, að með þessu hefði málinu verið teflt í vissa tvísýnn, — það hefði verið frestað framkvæmd ýmissa þátta frv., sem ekki þyldu bið, og því hefði þetta verið óhyggileg leið. Ég vil algjörlega mótmæla því, að slíkar ástæður geti verið góðar og gildar fyrir því að hafa farið svo í málsmeðferðina eins og gert hefur verið. Auðvitað er það svo, og ég vil ekki leggja neina dul á það, að ég hygg, að það séu allir sammála um, að ýmis atriði í grunnskólafrv. séu þess eðlis, að það sé bæði rétt og nauðsynlegt að lögfesta þau. Ég nefni aðeins sem dæmi í þessu sambandi atriði eins og t.d. ákvæðin um fræðsluumdæmi og fræðslustjóra, bókasöfn, afbrigðileg börn, forskóla, og fleira mætti nefna. En þetta eru atriði, sem var undir þeim kringumstæðum, sem hér eru og ég hef lýst, eðlilegt að koma með inn í þingið sem frv. um breyt. á núgildandi lögum. Ég hygg, að þessu öllu eða kannske, svo að ég tali varlega, nær öllu hefði verið eðlilega hægt að koma fyrir og eins vel borgið með slíku. Og það mætti segja mér, að það væru kannske nokkrir mánuðir, svo að ég tali nú ekki um nokkur ár, af því að þetta frv. er nú búið að vera á ferðinni í nokkur ár, liðin frá því að við hefðum fengið þessi gagnlegu atriði, sem ég var að telja upp, lögfest, ef þessi leið hefði verið farin.

Það verður ekki með nokkrum rétti heldur sagt, að við, sem vildum hafa haft önnur vinnubrögð í þessu máli, séum fjandsamlegir umbótum eins og þeim, sem ég hef hér nefnt dæmi um. Ég vil ekki gera lítið úr vilja hæstv. menntmrh. og hans fylgismanna, en hygg, að við hin, sem erum hæstv. ráðh. ekki alls kostar sammála í þessum efnum, viljum ekkert síður vinna að því að efla fræðslu- og menntamálin í landinu. En þessi málsmeðferð hefur ekki náð fram að ganga, og það hefur verið unnið í þessu máli í þeim anda og beitt þeirri málsmeðferð, sem hæstv. ráðh. hefur viljað og hefur getað komið í gegn. Þess vegna hefur ekki verið annað ráð fyrir okkur sjálfstæðismenn, en að freista þess að fá fram breyt. á þessu frv.

Samkv. þessu hefur hv. þm. Ellert B. Schram lagt fram ítarlegar brtt. í hv. Nd. Þær till. ganga í þá átt að laga og endurbæta það frv., sem hér er, — reyna að sníða af helstu hnökra og missmíði og freista þess að laga frv. þannig, að þess væri kostur þrátt fyrir allt að greiða atkv. með því að slíkum áorðnum breytingum.

Ég verð að segja, að því miður hafur ekki ýkjamikið náð fram að ganga af þessum till. Að vísu hafa náð fram að ganga nokkrar af þessum till., en þær eru þó yfirleitt um veigaminni atriði. Þó vil ég ekki gera lítið úr þeim atriðum. En hér er ekki um þau atriði að ræða, sem ég hygg, að mestu mál skipta og skiptastar skoðanir hafa verið um og mestar deilur hafa verið um varðandi þessi mál, eins og t.d. spurninguna um lengd skyldunámsins. Það hafa líka í meðferð málsins í Nd. komið fram margar till. frá hv. menntmn. Nd. Ég skal ekki fara út í þær till. Þar kennir ýmissa grasa, bæði efnislega og svo líka að því leyti, að það er tekinn upp sá furðulegi háttur í störfum þessarar n. í þessu máli, að n. ber fram till., sem upplýst er, að sumir af nm. séu á móti. Ég ætla ekki að fara út í það myrkviði að finna út, hver á hvað í þessu, hver er með og hver á móti. Mér þykir gott, ef hv. Nd. hefur komist klakklaust út úr því við afgreiðslu þessara till. Víst er það, að afgreiðslu hv. Nd. á þessu máli verður ekki sögð beint traustvekjandi og í sjálfu sér mikil meðmæli með málinu. Jafnframt því sem samþ. voru hreyt. í hv. Nd., sem að mínu viti eru tvímælalaust til bóta, þá kom þó nokkuð af breyt., sem ég hygg, að varla orki tvímælis, að séu ekki til bóta, og raunar sumar til hins verra. Meðferð málsins í hv. Nd. hefur verið ákaflega reikul og mér liggur við að segja stefnulaus, eins og berlegast kom fram við atkvgr. við 2. umr. um frv.

Nú er þetta mál komið til þessarar hv. d. Það hefur verið, eftir því sem fróður maður tjáði mér, í þrjú ár í Nd. Einhver sagði, að það væri nú ekki í of mikið lagt, þótt við reiknuðum með, að það yrði þá 11/2, ár í þessari hv. d. Ég skal engu spá um það. Auðvitað erum við, sem hér eigum sæti, sammála um, að það getur nú skeð, að þessari d. takist betur upp en hv. Nd. Og eigum við ekki að vænta þess, að til þess geti komið. Að vísu, ef það er meiningin að afgreiða þetta frv. á þessu þingi, þá verður að hafa snör handtök á við öll n. störf, sérstaklega ef við eigum að freista þess að gera verulegar breyt. til bóta. Ég hef enga tilhneigingu til þess að gera neitt í þeim tilgangi sérstaklega að tefja þetta mál. Hins vegar hef ég mikla löngun til þess að stuðla að því, að við gætum fengið breyt. fram, verulegar breyt. á frv. hér í þessari d. Og ég vildi vera aðili að því. En ég vil láta það koma þegar fram, að ef það tekst ekki, þá fæ ég ekki séð, hvað sem líður þeim í hv. Nd., að það samrýmist hefðbundnum vinnubrögðum þessarar d. að afgr: málið á þessu þingi, og þá eigum við kannske einskis annars úrkosta, til þess að vera sjálfum okkur samkvæmir, en að vísa málinu frá.