06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

359. mál, rafvæðing sveitanna

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Til skýringar fsp. minni vil ég segja þetta:

Samkvæmt 3 ára áætluninni lýkur rafvæðingu sveitanna og þar með að fullu rafvæðingu Íslands á næsta ári, þó þannig, að um 150 heimili verða eftir. Augljóst er, að Íslendingar hefðu varla fengið raforku með viðráðanlegum kostnaði án samhjálpar, þ. e. a. s. án skipulagðra þjóðfélagslegra aðgerða. Hvað er þá að segja um þau 150 heimili, sem eftir verða? Er ekki rétt að skoða það mál örlítið betur? Fyrst mætti t. d. taka til nánari skoðunar tengingu enn fleiri býla við samveitukerfið. Hlýtur það að teljast heppilegasta lausnin hvarvetna, sem henni verður við komið. Skynsamlegt væri þá að meta fleiri þætti en vegalengdina eina, svo sem línustæðið, aðstöðu til bjargræðis á býlinu, félagslega þýðingu þess og þýðingu þess fyrir öryggi ferðamanna. Í annan stað kæmi til mála að gera áætlun um skipulega tækni- og fjárhagsaðstoð við þá, sem enn stæðu útundan. Yrði þá stefnt að því, að þeir fengju sömu eða svipaða fyrirgreiðslu og aðrir rafmagnsnotendur, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt reyndist.

Fsp. mfn á þskj. 34 ber ég fram til þess að fá upplýst hjá hv. Alþ., hvort hæstv. ríkisstj. eða hæstv. iðnrh. hefur þetta sérstaka atriði til athugunar eða hyggst taka það til meðferðar samhliða eða í beinu framhaldi af lúkningu 3 ára áætlunarinnar.