19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

8. mál, skólakerfi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þetta stutt.. Ég verð að segja það, að ég tek undir með hv. 3. þm. Reykn., Oddi Ólafssyni, það er vissulega athyglisverð hugmynd, sem hann kemur með um skólaskyldualdurinn.

Ég held, að ég sé alveg tilbúinn að skoða hana í góðu tómi, og það er reyndar í samræmi við þær leiðir, sem ég hef farið í sambandi við eigin skólastörf, að færa einmitt námið nokkru neðar, ekki námið kannske beint, heldur taka nemendur inn og gera þá ýmislegt annað fyrir þá en sem lyti að beinu skólanámi.

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi gjarnan leiðrétta hér út af minni fyrri ræðu, sem mér virðist hafa verið örlítið misskilin. En fyrst vík ég að því, að ég er hræddur um, að við gerum nú kannske fullmikið af því, ef við förum beinlínis að rekja til skólanna orsakir — við skulum segja eins og glæpafaraldurs unglinga, eins og minnst var á hér áðan. Ég er þeirrar skoðunar, að þó að skólarnir geti verið einhver orsök í því, þá sé hún mjög óveruleg. Ég held, að sérstaklega hið rangsnúna lífsgæðamat í þjóðfélaginu, peningamatið, sé aðalorsök þessa og þar sé að finna meginræturnar að ýmsu því, sem unglingar finna upp á, og þá ýmsu líka því, sem unglingar finna að og gera uppreisn gegn og er býsna rotið í okkar þjóðfélagi. Við verðum að viðurkenna, að það er, svo að ég vil fara fara varlega í því að kenna skólunum eða hreinum námsleiða þar um. Ég held, að ég hafi ekki sagt það eða það var a.m.k. ekki mín meining að segja það, að námsleiðinn væri ekki til af ýmsum ástæðum. En námsleiðinn er bara notaður svo víðtækt í dag. Hann er notaður yfir hugtak, sem við þekkjum mætavel, að er til, hann er notaður yfir letina, og hann er notaður sem afsökun fyrir letina. Og það er það, sem er stórhættulegt. Það eru kennarar og foreldrar, sem hafa í raun og veru gengið of langt í notkun þessa orðs og hafa þetta orð uppi um það, sem er bara hrein leti. Hvort tveggja er til. Það er örugglega einhver námsleiði af ýmsum ástæðum, eins og ég benti á, ekki af einni, heldur mörgum, en við megum ekki flokka allt undir þennan námsleiða. Það er líka til vissulega sá löstur, sem leti heitir.

Hv. þm. Halldór Blöndal vék hér nokkuð að atriði í sambandi við árlegan starfstíma kennara. Mér er þetta mál einnig nokkuð kunnugt, og ég álít, að lenging starfstíma kennara sé einmitt að mörgu leyti nauðsynleg vegna þess, að hin löngu sumarleyfi kennara hafa verið notuð sem helsta röksemdin fyrir því að halda kaupi kennara niðri. Þó að kennarar hafi bent á, að þeir ætluðu ýmislegt annað að nota sumarleyfi sitt en til þess bara að leika sér, t.d. til námskeiða og annars slíks, þá hefur gengið illa að fá þetta viðurkennt. Ég álít, að ef kennarar fá á sig lengingu um einhverjar vikur, þá eigi þeir að hafa sterkar röksemdir um leið fyrir því, að kjör þeirra eigi að verða betri og ég álít, að þetta geti þýtt hreinlega kjarabót fyrir kennara. Þetta þekkir hv. þm. jafnvel og ég. Þetta hefur verið notað sem aðalröksemdin gegn því, að kennarar sætu við sama borð og aðrar stéttir, þ.e.a.s. það, að þeir fengju svo langt frí. Ég teldi líka ólíklegt, ef kennarastéttin lengdi þannig starfstíma sinn, þennan beina starfstíma, og hún færi ekki fram á það af fullri djörfung um leið, að launakjör kennara yrðu færð til samræmis við það. Það þykir mér sjálfsagt.

Ég verð að segja það, að ekki get ég fyllilega tekið undir með hv. þm. Halldóri Blöndal um það, að við ættum að koma seinfærustu nemendum okkar í vinnu. Ég hef einmitt um svona vinnu þessara nemenda ömurleg dæmi. Við vitum líka dæmi um hið gagnstæða, og hann nefndi þau, — en hvort tveggja er til, — þar sem þetta er bara notað sem hreinn vinnukraftur, án þess að nokkuð sé fyrir unglinginn gert að öðru leyti. Því er nú verr og miður, að þau sveitaheimili eru nú orðin fá, sem vilja taka við unglingum hreinlega til uppeldis, til góðra uppeldisáhrifa. Sveitaheimilin nú á dögum vilja því miður fá þessa unglinga til þess að setjast upp á dráttarvél og aka á henni jafnt á þjóðvegum sem á túni. Því er nú verr og miður, og ég hygg, að þessi lausn, sem vissulega hefur bjargað mörgum unglingum, sé ekki lengur til nema í svo litlum mæli, að það þýði ekki að vera að nefna hana.

Ég skal játa, að það réð miklu um stuðning minn við þetta grunnskólafrv., að góðir nemendur eiga þess kost að ljúka þessu námi á styttri tíma, en ég ætlaðist alls ekki til þess, að það yrði gert á kostnað hinna. Ég mælist einmitt til þess og ég hef skilið frv. þannig og ég hef þá misskilið hæstv. ráðh. og þá aðra menn, sem hafa staðið að samningu þessa frv., — ég hef þá misskilið þá, ef þetta frv. á ekki einmitt að stefna að því að gera hlut þeirra seinfærustu einnig betri, þó að það kosti jafnlangan tíma og þeir eru við námið í dag. Ég hef aldrei neitað því, að þeir þyrftu ef til vill að nota til þess jafnlangan tíma og þeir seinfærustu. Ég reikna alveg með því. (Gripið fram í: Það var rétt skilið hjá hv. þm.) Ég vona það.

En svo var þetta með atvinnulífið og uppsláttinn og allt það. Þarna fór örlítið að bera á misskilningi á milli okkar hv. 3. þm. Reykn. og hv. 2. þm. Norðurl. e. og það hefur sennilega stafað eitthvað af því, að ég fór að blanda félaga Mao í spilið. Þeir hafa þess vegna misskilið orð mín í sambandi við það og haldið, að ég væri á einhvern hátt að mæla óvirðulegum orðum um það, að unglingar tækju þátt í atvinnulífinu. Unglingarnir gera það nefnilega í dag í þessum framleiðsluatvinnugreinum okkar, sem ég kalla hið raunverulega atvinnulíf, sem allt í raun og veru snýst um. Ég er síður en svo á móti því að unglingar geri það. Ég læt mína unglinga gera það, mína syni og dætur, og ég vil einnig láta aðra unglinga gera þetta. En ég sagði bara, að það ættu fleiri að koma inn í þetta dæmi og þar ættum við að fylgja félaga Mao. Og mér heyrðist á hv. þm. Halldóri Blöndal og reyndar hv. 3. þm. Reykn., að þeir hefðu svo sem ekkert á móti því að fylgja máli mínu í þessu efni, og ég fagna því sannarlega. Ég tel ekki, að unglingar hafi illt af því að vinna með fullorðnum, þar er langur vegur frá, og ég vona, að ég hafi ekki sagt neitt, sem gat skilist í þá áttina. Það vona ég svo sannarlega. En hafi þeir misskilið eitthvað orð mín um þetta ærlega handtak og haldið, að ég hafi ætlað að slá mér upp á því, að ég væri að brigsla þm. hér um leti og segja, að þeir ynnu ekki neitt, þá var það alls ekki mín meining. Þetta er nú einu sinni sú stétt, sem ég er í í dag, og þess vegna fannst mér ósköp nærtækt að vitna til sjálfs mín með þetta. Og ég skal játa það í þessum ræðustól hreinlega, að það er mikil sálubót að því að koma heim í páskafrí, ekki til þess að fara á fundi þvers og kruss um héraðið, eins og ég þurfti reyndar líka að gera, heldur að fara og gefa rollunum sínum og annað slíkt, eins og ég gerði nú í páskafríinu. Og það er mikil sálubót að því einnig að heyja handa þessum sömu rollum yfir sumarið. Ég gat þess vegna tekið þetta sem persónulegt dæmi, án þess að ég væri að brigsla þm. um það, að þeir ynnu ekki störf sín af fullkomnum heiðarleika. Það eru ekki mín orð. En það eru margra annarra orð utan þings, að við stöndum illa í okkar starfi, en ekki vil ég taka undir það.