19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3775 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

16. mál, verkfræðingar o.fl.

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Iðnn. deildarinnar hefur haft til athugunar frv. til l. um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, tæknifræðinga eða byggingafræðinga.

Frv. þetta er þess efnis, að þeir einir hafi rétt til að kalla sig auglýsingateiknara, húsgagna- og innanhúshönnuði, sem fengið hafa til þess leyfi frá ráðh., og síðan er í frv. greint frá því, hvaða skilyrðum menn þurfi að fullnægja til þess að fá áðurnefnt leyfi.

Iðnn. hefur fengið margar umsagnir um frv. þetta, ekki færri en 13 talsins, og reyndist þetta mikið ágreiningsmál.

Bandalag háskólamanna, Félag ísl. teiknara, Stjórn Byggingafræðingafélags Íslands og Félag húsgagnaarkitekta ásamt Tæknifræðingafélagi Íslands og Arkitektafélagi Íslands skiluðu öll jákvæðum umsögnum um frv. og mæltust til þess, að frv. yrði samþykkt.

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands lagði hins vegar til. að frv. yrði vísað frá, fyrst og fremst á þeim forsendum, að ákvæði um réttindi manna til þess að kalla sig auglýsingateiknara eða húsgagna- og innanhúshönnuði ættu ekki heima í þessum lögum. Og með því að setja inn ákvæði í þessi lök, þ.e.a.s. bæta við fleiri starfsheitum inn í þau lög, sem fyrir voru og fjölluðu áður um verkfræðinga, húsameistara, tæknifræðinga og byggingafræðinga, væri hætt við, „að öryggissjónarmiðin, sem við teljum megintilgang laga nr. 73 1968, riðluðust,“ eins og tekið er til orða í umsögn Verkfræðingafélagsins. N. komst þó að þeirri niðurstöðu, að þessi aths. væri ástæðulaus og ekki mundi hallað á rétt þeirra, sem áður höfðu fengið lögfestan rétt sinn, þótt hætt væri við ákvæðum um aðrir stéttir.

Félag kvikmyndagerðarmanna tekur ekki heina afstöðu til frv., en telur þó, að ýmis ákvæði í grg. þess séu varhugaverð, og telur, að þar sé hugsanlega verið að ganga á rétt kvikmyndagerðarmanna með því, að auglýsingateiknarar fái þann rétt, sem lögin greina.

Aðrir umsagnaraðilar voru einkar neikvæðir til frv. og skal þeirra hér getið í örfáum orðum. Í fyrsta lagi er um að ræða Félag ísl. prentiðnaðarins, sem segir m.a. í umsögn sinni: „Starfsemi auglýsingateiknara beinist fyrst og fremst að gerð hugverka, og vill stjórn félagsins vara við afleiðingum þess, að afmörkuðum hópi sé veittur einkaréttur á að kalla sig hugmyndasmiði í þessum efnum eða öðrum.“

Og í bréfinu segir að lokum:

„Stjórnin leggur því til, að umrætt lagafrv. verði því ekki samþykkt, þar sem lagasetning um þessi atríði verði að teljast óeðlileg og að eðlilegast sé, að málin þróist á sama hátt og verið hefur til þessa.“

Hið ísl. prentarafélag sendi n. langa grg. og harðorða, og er niðurstaða hennar sú, að lagasetning á þessu sviði sé ónauðsynleg og röng. Hún gangi í berhögg við eðlilega þróun um opnun námsbrauta, að bókagerðarmaður með 4 ára iðnskólanám í hönnun og gerð prentgripa, skuli þurfa 4 ára nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands eða próf frá stofnun, sem áðurnefndur skóli viðurkennir, til þess að geta stundað í atvinnuskyni eftirtalin störf í auglýsingagerð: Gerð merkja, bréfhausa, léttra umbúða o.s.frv. — Aths. þessi er sama eðlis og hin fyrri, að umsagnaraðilinn telur, að með þessu sé gengið á rétt prentiðnaðarins og að með frv. sé verið að veita auglýsingateiknurum einkarétt til starfa, sem lengi hafi verið á hendi prentara.

Sama eðlis er aths. í umsögn frá Bókbindarafélagi Íslands, sem leggur til. að frv. þetta verði fellt á Alþ., svo að allir geti „unnið saman í friði og spekt eins og hingað til.“ eins og segir í umsögninni, og þar eru færð rök að því, að bókbindarar hafi unnið verk, sem auglýsingateiknarar séu nú að krefjast einkaréttar til, og þarna sé stofnað til hins mesta ófriðar og ástæðulaust sé að samþ. frv. af þeirri ástæðu.

Umsögn Bóksalafélags Íslands er sama eðlis, og ég ég ekki ástæðu til að rekja hana í smáatriðum, en stjórn Bóksalafélagsins leggur til. að lagafrv. þetta verði ekki samþ., þar sem hún telur lagasetningu um þessi atriði óþarfa og ranga og bendir jafnframt á, að þróun þessara mála hafi verið og hljóti að vera eðlileg án lagasetningar. Rökin eru sem sagt öll þau sömu sem áður hafa verið greind hjá aðilum prentiðnaðarins.

Að öllum þessum umsögnum fengnum er því ekki að leyna, að iðnn. var í nokkrum vafa um, hvað gera skyldi, og þegar litið var nánar á grg. frv., virtist ljóst, að samkv. grg. kynni að vera að því stefnt að veita þeim aðilum, sem nefndir eru í frv., einkarétt til þeirra starfa, sem greind eru þar. M.a. segir í grg.:

„Er því síst að ófyrirsynju, að þeim, sem hafa aflað sér slíkrar sérþekkingar, sé mikið í mun, að þeir hafi erindi sem erfiði og þ. á m. að þjóðfélagið virði framlag þeirra og framtak, m.a. með því að veita þeim opinbera viðurkenningu í mynd starfs- og stéttarheita til að tryggja rétt þeirra gegn hugsanlegum ágangi annarra, sem ekki hafa til brunns að bera svo ítarlega þekkingu og sérhæfni sem hér er krafist.“

Fleiri ummæli í grg. stefna í svipaða átt.

Eftir að n. hafði rætt þetta mál allmikið, komst hún að þeirri niðurstöðu, að hér hlyti að vera um allmikinn misskilning að ræða. Frv. fjallar um það eitt, að menn öðlist rétt til að kalla sig ákveðnum stéttarheitum — í þessu tilviki auglýsingateiknara og húsgagna- og innanhúshönnuði, en frv. veitir alls ekki einkarétt til að rækja þau störf, sem kynnu að felast í viðkomandi hugtökum. N. telur því, að mótmæli þeirra aðila, sem hér voru nefndir áðan, séu á misskilningi byggð. N. viðurkennir hins vegar, að ákveðin ummæli í grg. eru villandi, og er því eðlilegt, að þessi misskilningur sé upp kominn.

Iðnn. leitaði til iðnrn. og lagði fram þá ákveðnu spurningu, hvort ætlunin væri að veita mönnum sérréttindi til ákveðinna verka með flutningi þessa frv., og fékk svar, þar sem ótvírætt var borið á móti því. Þar segir m, a.:

„Í lögunum er viðkomandi starfsstéttum, sem rétt eiga til starfsheitis, ekki jafnframt veittur einkaréttur til starfa á viðkomandi sviði. Rétturinn til starfsheitis tryggir þá, sem aflað hafa sér tilskilinnar lágmarksmenntunar, gegn ágangi á starfsheitið, án þess að þeim sé jafnframt tryggður réttur, hvað þá einkaréttur til viðkomandi starfs.“

Að fengnum þessum upplýsingum frá iðnrn. taldi n. sér fært að mæla með samþykkt frv. með ákveðinni breyt., en hún er sú, að aftan við frv., sem er hálfgerður bandormur, þar sem það er endurtekning á ákveðnum starfsheitum fyrst og síðan í næstu grein, hvað til þurfi, til að hægt sé að veita viðkomandi leyfi, og síðan kemur næsta starfsstétt, og þannig eru taldar upp sex starfsstéttir í röð, — n. telur sem sé eðlilegast, að aftan við þessi efnisatriði frv. og væntanlegra laga komi ný grein, svo hljóðandi:

„Réttur sá til starfsheitis, sem lögum þessum fylgir, felur ekki í sér einkarétt til ákveðinna verka.“

Með því að bæta þessari setningu inn í frv. yrði tekin af öll tvímæli um, að ekki er verið að ganga á rétt þeirra stétta, sem unnið hafa verk, sem hugsanlega falla undir þau starfsheiti, sem frv. fjallar um.