19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

191. mál, málflytjendur

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ásamt þrem hv. þm. öðrum, sem allir eiga sæti í allshn. þessarar hv. d., leyft mér að flytja brtt. við frv. til l. um málflytjendur, sem hér er til 2. umr. Till. er nokkuð löng, en hljóðar svo, með leyfi forseta :

„Við lagadeild Háskóla Íslands er heimilt með samþykki ráðherra að setja á stofn lögfræðiskrifstofu, er veiti efnalitlu fólki almenna málflutningsþjónustu gegn vægu gjaldi, sem ákveðið skal í reglugerð, óháð gjaldskrá Lögmannafélags Íslands. Ráðh. skipar forstöðumann lögfræðiskrifstofu lagadeildar Háskóla Íslands að fenginni umsögn lagadeildar, og skal hann hafa starfað sem héraðsdómari eða héraðsdómslögmaður a.m.k. um þriggja ára skeið og uppfylla að öðru leyti skilyrði þau, sem nefnd eru í 17. gr., 1.–4. tölulið.

Forstöðumaður ræður starfsfólk skrifstofunnar í fullt starf eða í hluta af starfi, og skal einkum Við það miðað, að lögfræðinemar eða ungir lögfræðingar, sem ekki hafa hlotið málflutningsréttindi, hljóti þar eins árs starfsþjálfun. Forstöðumaður úthlutar verkefnum, tekur ákvörðun um málshöfðanir og hefur umsjón og eftirlit með allri starfsemi skrifstofunnar, sem skal veita alla venjulega þjónustu.

Nánari ákvæði um starfsemi lögfræðiskrifstofu lagadeildar Háskóla Íslands, þ. á m. um þóknun og ráðningarkjör starfsmanna, skulu sett með reglugerð að fenginni umsögn lagadeildar.“

Áður en ég vík að því, sem hv. 9. landsk. sagði um þessa brtt., vil ég gera almenna grein fyrir forsendum hennar. Tilgangur hennar er tvíþættur: annars vegar sá að gera efnalitlu fólki kleift að njóta lögfræðilegrar aðstoðar, en það er mjög brýnt, að jafnrétti ríki í þeim efnum og að efnaleysi hamli ekki, að menn geti rekið réttar síns, en hins vegar að opna enn aðra leið fyrir lögfræðinga til þess að afla sér málflutningsréttinda til viðbótar þeim, sem frv. gerir ráð fyrir.

Í umsögnum þeim, sem allshn. barst um frv., þegar það lá fyrir Alþingi á síðasta þingi, kom fram, að helsta andstaðan gegn frv. var sú, að leiðir þær til málflutningsréttinda, sem það gerði ráð fyrir, þóttu takmarka um of aðgang að lögmannastéttinni. N. í heild gerir að vísu ráð fyrir því í brtt. sinni, að úr þessu verði að nokkru bætt, en í umsögnunum og viðtali n. við Orator, félag laganema, komu fram ábendingar og hugmyndir um námskeið innan lagadeildarinnar, þar sem mönnum væri kennt og þeir þjálfaðir í þeim störfum, sem lögmenn hafa helst með höndum. Ég tel rétt í þessu sambandi að vitna til þriggja umsagna.

Í umsögn Dómarafélags Íslands segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessum sökum telur stjórn félagsins rétt að benda á þriðju innkomuleiðina í lögmannastétt, en hún gæti verið í gegnum sérstakt nám við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem mönnum væri bæði kennt og þeir þjálfaðir í þeim störfum, sem lögmenn hafa helst með höndum. Ætti slík námsbraut að geta gert þeim mönnum kleift að komast inn í lögmannastétt, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki getað komist þangað eftir hinum leiðunum, en hafa þó bæði hæfileika og löngun til lögmannsstarfa.“

Þannig segir í umsögn Dómarafélags Íslands. Í umsögn lagadeildar Háskóla Íslands um þetta atriði segir:

„Hins vegar eru reglur þær, sem í frv. eru, líklegar til að gera ungum lögfræðingum óþarflega erfitt fyrir, ef þeir óska eftir málflutningsleyfi. Telur deildin koma til greina að hafa próf eða námskeið og próf fyrir slíka menn.“

Og í umsögn Orators, félags laganema, segir, með leyfi forseta:

„Ef talið er, að lagamenntun við Háskóla Íslands sé ekki fullnægjandi undirbúningur undir þau störf, sem hér um ræðir, er það skoðun félagsins, að eðlilegast sé, að lögfræðingum verði gert kleift með frekara námi við lagadeildina að uppfylla þau viðbótarskilyrði, sem gerð verða til leyfisveitingar.“

Á fundi sínum með n. ítrekaði stjórn Orators þessa skoðun sína um nám og þjálfun af því tagi, sem hér um ræðir, og taldi rétt, að það færðist inn í háskólann, en hafnaði raunar þeirri leið, sem frv. gerir ráð fyrir, og taldi þá leið hliðstæðu við meistarakerfið í iðnnámi, sem menn nú almennt telja óæskilegt.

Ég hef rakið þetta nokkuð ítarlega til að leggja áherslu á, að brtt. okkar fjórmenninganna gengur að nokkru í þá átt að koma til móts við þessa aðila. Við höfum hins vegar talið rétt, að í stað námskeiðs, þar sem hætta yrði á, að kennarar mötuðu nemendur á tilbúnum verkefnum, ætti þessi þjálfun og þetta nám að tengjast raunveruleikanum og raunverulegum vandamálum. Með því að vinna að lögfræðilegum verkefnum á starfandi skrifstofu hlytu lögfræðingar að öðlast mikilvæga reynslu. Þeir mundu kynnast fólki í vanda, sem því bæri að höndum, og fá tækifæri til að kynnast og rækja þennan starfa sinn í raun. En allir aðilar eru sammála um, að nauðsynlegt sé, að þeir öðlist slíka reynslu.

Þá kem ég að því atriði, sem okkur er ekki síður áhugamál, að komið verði á fót hér á landi, en það er lögfræðileg aðstoð til handa þeim, sem sakir efnaleysis veigra sér við því að leita aðstoðar. Enn hefur engri slíkri þjónustu verið komið á fót hér á landi, enda þótt verið sé að vinna að því af kappi á hinum Norðurlöndunum að bæta það kerfi, sem þar er. Að vísu er til gjafsókn hér, eins og hv. 9. landsk. þm. nefndi, en hún gildir þó aðeins, ef til málshöfðunar kemur. Skrifstofa af því tagi, sem hér um ræðir, mundi veita alla lögfræðilega þjónustu. Starf hennar mundi ekki vera eingöngu bundið við málshöfðanir. Ég verð þess vegna að vísa algjörlega á bug þeim orðum hv. 9. landsk. þm., að þjónustan, sem brtt. okkar gerir ráð fyrir, mundi ekki auka rétt efnalítils fólks. Þykir mér þar allmikið sagt og ekki rökstutt. Hins vegar get ég vel á það fallist, að þetta mál þurfi nánari athugunar við. Þetta mál er mjög stórt í sniðum og veltur á miklu, að vel takist.

Það má telja ókost, að þessi þjónusta fyrir efnalítið fólk sé bundin Háskóla Íslands og þar með einum stað á landinu, þ.e.a.s. Reykjavík og nágrenni. Þessi þjónusta þyrfti tvímælalaust að komast á um landið allt, og ég hef því ákveðið að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Ég verð að taka fram, að mér hefur ekki unnist tími til að bera þá ákvörðun undir meðflutnm. mína, en ég vona, að í ljósi þess, sem hv. 9. landsk. þm. sagði hér, muni þeir vera sammála mér um, að komast á um landið allt, og ég hef því ákveðið hvort samkomulag næst í nefndinni, t.d. um bráðabirgðaákvæðin um, að n. skuli skipuð til þess að vinna að frv. um réttaraðstoð af þessu tagi til handa efnalitlu fólki. Þá gæfist meira svigrúm til þess að kanna fleiri kosti. Er það von mín, að unnt verði að ná meiri samstöðu innan n. og á hv. Alþ. um þessi mál, og að viðurkennd verði nauðsyn þess, að láta nú til skarar skríða með að koma á fót þeirri þjónustu, sem hér er lögð til.