19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

191. mál, málflytjendur

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við brtt. á þskj. 558, sem hefur nokkuð verið rædd hér. Ég er út af fyrir sig samþykkur því, að till. sé dregin til baka til 3. umr., en ég vil lýsa fyllsta stuðningi mínum við ummæli hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, og í reynd hefur mér fundist, að allir þeir hv. þm., sem hafa talað í þessu máli, séu sammála um nauðsyn þess, að þetta eða eitthvað ámóta sé gert. Spurningin virðist helst vera sú, við hvaða lagabálk ætti að hengja þetta eða hvar ætti að koma þessum atriðum fyrir, en allir virðast sammála um, að það sé nauðsynlegt, að starfsemi af þessu tagi sé tekin upp í þjóðfélaginu. Það vita allir, sem hafa þurft á lögfræðilegri aðstoð að halda, og hún þarf hreint ekki að vera mikil, svo að hún kosti ekki býsna mikla peninga, og það er kannske þetta atriði, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur flm. þessarar till., hvað þetta gjald er hátt, og það er svo hátt í reynd, að efnalítið fólk lætur mál niður falla, þar sem það jafnvel átti réttinn að fullu, vegna þess að það hefur ekki efni á því að ráða sér lögfræðing til starfsins. Þetta er kannske meginatriði málsins, og ég get ekki komið auga á, hvers vegna má ekki tengja þessa till við þennan lagabálk, sem hér er um að ræða um málflytjendur, ekki kannske nákvæmlega með því orðalagi, sem þarna er. Það má vel vera, að það sé hægt að hefla það betur til, eins og t.d. um það, hvaða ráðh. á að fara með málið. Ég er ákaflega hræddur um, að ef þetta kemst ekki núna inn, þá geti orðið bið á því, að það komist annars staðar, enda virðist það nú vera mjög á reiki hjá þeim hv. þm., sem hafa rætt málið, hvar það ætti þá helst að vera og hvernig tilhögunin ætti að vera. Ég sem sagt vantreysti því, að þessi kjarni málsins komist inn í önnur lög, nema það sé með einhverjum hætti hægt að koma því inn í þessi lög.

Ég vil því fyrir mitt leyti halda fast við þessa till. og reyna á það, hvort ekki er hægt að fá hana samþykkta. En auðvitað er ég tilbúinn til að ræða orðalagsbreytingar eða aðrar minni háttar breytingar á till., en mun reyna, þar sem ég á sæti í n., að beita áhrifum mínum til þess, að till. þessi eða henni svipuð verði tekin í lög.