19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

191. mál, málflytjendur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það var ekki beint meining mín að ræða þetta mál sérstaklega, en það hafa orðið hér talsvert miklar umr. og meiri en ég bjóst við um brtt. á þskj. 558. Ég vil segja um þá till. eins og sagt er á skandínavísku, að „meningen er god nok“, en ég held, að hún sé, eins og fram hefur komið hjá ýmsum, talsvert mikið gölluð. En það, sem ég vil segja með þessu, er, að á hak við þennan tillöguflutning liggur alveg áreiðanlega rétt og réttmætt hugarfar. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mikil nauðsyn á því að breyta nokkuð því formi eða því skipulagi, sem almennt er á nú um aðgang manna að lögfræðilegri aðstoð. Af þessu þykist ég hafa nokkra reynslu sjálfur sem lögfræðingur, og ég veit, að það er gífurlega mikil þörf á því, að almenningur geti nokkuð greiðlega, einmitt á fyrstu stigum mála, vandamála sinna, leitað til lögfræðinga, því að þeir geta oft greitt úr vanda, sem e.t.v. er mjög einfaldur, en kann að vera flókinn í augum þeirra, sem í honum standa. Þess vegna segi ég, að ég er hugsuninni, sem fram kemur í þessari brtt., hlynntur, og ég held, að það væri mjög mikilsvert atriði að taka þetta mál til skoðunar. Hins vegar tel ég þessa till., eins og hún er borin fram, gallaða og er þess vegna ekki við því búinn að greiða henni atkv. Ég held, að ég muni það rétt, þó að ég hafi ekki fylgst með öllu, sem fram hefur komið hér, að það hafi komið fram ábending um, að e.t.v. mætti orða þessa till. eitthvað um og koma slíkri umorðun hennar inn í það frv., sem við erum að ræða, þannig að það ætti að gefast tími til upp úr þessu og verða ástæða til að ræða þetta mál talsvert nánar en gert hefur verið til þessa.

Ég tel það vel, ef þessi brtt. verður til þess að taka þetta mál upp í heild. Ég er stuðningsmaður þess máls og vil gjarnan vegna þeirra miklu umr., sem orðið hafa, láta það álit mitt í ljós nú.