19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

183. mál, stjórnarskipunarlög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. n, fyrir skjóta afgreiðslu á frv. þessu, sem fjallar um afnám á deildaskiptingu Alþingis og skipan þess í eina málstofu.

Ætla mætti, eins og stjórnarfar hefur verið á Íslandi undanfarna mánuði, að Alþingi þætti tími til kominn að gera þær breyt. á stjórnarskránni, sem líklegt er, að stuðli að fastari stjórn í landinu en verið hefur. Sjaldan höfum við séð jafngreinilega, viku eftir viku, hversu bagalegt það er fyrir þjófélagið að búa við veika stjórn, stjórn, sem raunverulega getur hvorki stjórnað landinu né farið frá völdum. En það er skoðun mín, að einmitt deildaskiptingin eigi mikinn hlut að því, að við höfum orðið enn einu sinni að láta ganga yfir okkur slíkt tímabil. Þetta er að vísu ekki nýtt. Það má rekja allt aftur til 1931–32 og stjórnarkreppunnar þá og jafnvel lengra aftur, hvernig deildaskiptingin hefur reynst vera til bölvunar hvað snertir styrka og lýðræðislega stjórn.

Ég get hins vegar skilið, að hv. n. þyki ástæða til þess, að endurskoðun á stjórnarskránni verði á viðtækari grundvelli en að afgreiða aðeins eitt atríði. Með því að nú er starfandi n., sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, og form. þeirrar n. hefur lýst yfir hér í d., að þetta mál muni verða tekið þar til meðferðar, get ég eftir efnum og ástæðum sætt mig við þá afgreiðslu, að málinu verði nú vísað til ríkisstj., sem í raun þýðir, að því sé vísað til þeirrar n., sem er að endurskoða stjórnarskrána. En ég vil vænta þess, að flutningur þessa máls hafi þó vakið örlitla athygli, í fyrsta lagi á þessu atríði stjórnarskrárinnar og í öðru lagi á því, hversu raunhæf nauðsyn það er fyrir okkur að láta hendur standa fram úr ermum og koma í verk þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem dregist hefur allt frá árinu 1944.