19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

113. mál, skipulag ferðamála

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, get ég mjög stytt mál mitt, en einstaka atriði, bæði varðandi þetta mál, eins og það liggur fyrir, og hvað snertir upplýsingar, sem ég hef aflað mér, náskyldar því, gera það að verkum, að ég hef talið ástæðu til að fjalla um málið nú þegar við 1. umr. þess.

Hér er á ferðinni allviðamikill lagabálkur um skipulag ferðamála, um miðskipan þeirra mála, eins og mjög er tíðkað hjá okkur um flest mál nú. Ég hef allsterkan áhuga á ferðamálum og skipulagi þeirra, fyrst og fremst vegna landsins sjálfs og fólksins, sem þar býr. Ég geri mér þó grein fyrir því, að þetta er mjög mikið fjárhagsatriði einnig fyrir okkur. Ég heyrði það í útvarpinu í hádeginu, að gjaldeyristekjur vegna ferðamála voru þriðji liður í röðinni af þeim, sem þar voru upp taldir: fyrst sjávarafurðir, síðan málmblendi og síðan tekjur af ferðamálum, eða um 7.7% af heildargjaldeyrístekjunum, og ljóst er, að þessi þáttur mun fara enn vaxandi. Einnig vegna þess, hve mikilvægt ég tel þetta mál allt fyrir heildina, get ég út af fyrir sig fellt mig við, að á þessu sé allmikil miðskipan, að í þessum efnum sé eftirlit af hálfu hins opinbera og alláhrifamikil stjórn um framgang þeirra. Þó verð ég að segja, að ég tel vafasamt, að þörf sé á því, að þessi væntanlega stofnun hafi svo umfangsmikil umsvif í þeim sem þetta frv. gerir ráð fyrir og þá sérstaklega hvað snertir, eins og hér segir, sölustarfsemi. Ég tel mikilvægast, að það sé heildareftirlit með framgangi málanna og einnig landkynningunni, sem er afar mikilvægt atriði þessa máls og snertir miklu fleiri þætti í okkar búskap en ferðamálin ein út af fyrir sig. Þjóðir heims leggja stöðugt meiri áherslu á þann þátt í starfsemi sinni meðal annarra þjóða, þ.e. viðskiptalegs eðlis, og er hið mikilvægasta, hvernig sem á það er litið.

Það, sem ég aðallega ætlaði að gera að umtalsefni, var það, sem ég rak fyrst augun í varðandi þetta frv., en það er með sama marki brennt og flest þau stjórnarfrv., sem fyrir hið háa Alþ. hafa verið lögð, frá því að ég tók hér sæti. Það skortir sem sé á um allar kostnaðaráætlanir.

Með frv. þessu er lögð fram tillögugerð um stofnun stórfyrirtækis með mestu umsvif, sem vafalaust mun kosta tugi millj. kr., án þess að nokkur tilraun sé gerð til þess að gera hinu háa Alþ. grein fyrir því, hvað það muni kosta. Ég er hræddur um, að ef einstaklingur ætlaði að ráðast í stofnun fyrirtækis, þótt ekki væri af stærðargráðu sem þessari, mundi það teljast lítt frambærilegt af hans hálfu, ef hann gerði ekki a.m.k. einhverja rammagrein fyrir kostnaðaráætlun og áætlanir um uppbyggingu og gerð fyrirtækisins hvað fjármál snertir. En það er ekki gert hér. Og til dæmis að taka, hvað mér finnst, að þeir embættismenn, sem ég hygg, að aðallega ráði ferðinni í þessum efnum, sýni raunverulega hinu háa Alþingi mikla lítilsvirðingu, er að nefna það, að hér er t.d. gert ráð fyrir því, að Ferðamálasjóður fái tekjur af hinu svonefnda rúllugjaldi, sem er aðgangsgjald að vínveitingahúsum, 50 kr., án þess að okkur sé gefin hin minnsta hugmynd um, hvaða fjármagn er þarna í boði. Eins var það varðandi Ferðamálasjóðinn sjálfan, að sú tillögugerð, sem hér liggur frammi, er að mínum dómi langt frá því að vera með þeim hætti, sem ég teldi nauðsynlegan. Það afsakar þetta alls ekkert, að við höfum hingað til staðið slælega að fjármögnun þessa mikilvæga þáttar. Það kemur t.d. fram, að á 10 ára starfsemi Ferðamálasjóðs hafa verið veittar einvörðungu 84 millj. til gistihúsa í landinu, eða um 8.4 millj. að meðaltali á ári. Sjá allir, hvílík hungurlús þetta er. Ég efast um, að slík fjárhæð ein út af fyrir sig nægði til þess að ganga frá eldhúsi í einu meðalstóru gistihúsi. Og til viðbótar þessu hafa þau lánakjör, sem sjóðurinn hefur veitt, verið mikil ókjör. Að vísu hefur Ferðamálasjóður að mestu verið fjármagnaður með erlendu lánsfé, enda lánin bundin gengistryggingu, sem hefur orðið gistihúsum afar þung í skauti.

Nú er hér gert ráð fyrir í frv., að tekjur Ferðamálasjóðs verði árlegt framlag úr ríkissjóði eigi lægra en 10 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir, að honum sé heimilt með samþykki ríkisstj. að taka erlent lán allt að 200 millj. kr. eða jafnvirði þess.

Varðandi lánareglurnar er í 28. gr. gert ráð fyrir því, að lánin skuli að sjálfsögðu tryggð með veði í fasteign eða á annan jafntryggan hátt og vera með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu byggingarkostnaðar. Og nú tekur Ferðamálasjóðurinn, eins og segir í 28. gr., erlent lán, og skal það þá endurlánað með gengistryggingu, en eigi vera vísitölubundið. Nú er að því að gá, — að þessi atvinnurekstur er með þeim hætti, að ef vel ætti að þessu að standa, þá þyrftu lánakjör, sem veitt eru til byggingar á gisti- og veitingahúsum, sér í lagi gistihúsum, að vera með bestu fáanlegum kjörum, vegna þess að að öllum jafnaði líða mörg ár, þangað til gistihús, sem reist er t.d. úti á landsbyggðinni, hefur náð að koma svo undir sig fótunum, að vænta megi þess, að það standi verulega undir sér. Þessi atvinnuvegur er með þeim hætti, að það þarf áróður fyrir staðnum, það þarf margs konar undirbúning og skipulagningu áður en gera megi ráð fyrir, að þar verði um ábatasaman atvinnurekstur að tefla. Þess vegna finnst mér taka steininn úr, þegar þetta er lagt til t.d., að þau séu bundin vísitölu byggingarkostnaðar. Það mundi þýða um lán, sem hafa verið tekin t.d. í maí 1970, — ætli það fari mjög fjarri, að þau mundu hafa hækkað um 150% eða þar um bil til dagsins í dag.

Að svo miklu leyti sem þeir, sem frá þessu frv. gengu, fást við að tefla fram rökum fyrir ákvæðum frv., fæ ég ekki betur séð en það sé farið mjög aftan að hlutunum. Við sjáum í aths. eða í fskj. á bls. 24 í frv., eins og það var upprunalega, að þar er verið að gefa upplýsingar um, hvernig þessum málum sé háttað í öðrum löndum, væntanlega til þess að styrkja þá tillögugerð, sem liggur hér frammi um lánakjör til handa þessum atvinnuvegi, væntanlega til þess að styrkja þau rök, sem menn telja, að til þess liggi, að lán til þessa atvinnuvegar eigi að vera bundin við vísitölu byggingarkostnaðar og með fullri gengistryggingu. En ef menn lita á fskj. á bls. 24, kemur í ljós, að í öðrum löndum er staðið að þessu með allt öðrum hætti en gert er hér. T.d. að taka í Noregi, þá segir svo, með leyfi forseta: „Hótel og önnur mannvirki, sem einungis eru byggð til að bæta þjónustu við ferðamenn, fá fjárfestingarstyrki, sem nema allt að 35% af heildarbyggingarkostnaði og tækjakaupum.“ Um Finnland segir svo: „Varðandi fjárfestingar í Finnlandi á þróunarsvæðum í ferðamálum eru til svokölluð þróunarsvæðaframlög, sem skiptast í svæði í og svæði II, þar sem hið opinbera veitir einkafyrirtækjum fjárstyrk á eftirfarandi hátt: Svæði I. Fyrstu 2 árin eftir að fjárfestingum er lokið greiðir hið opinbera alla vexti af lánum. Næstu 2 ár þar á eftir greiðir hið opinbera 50% vaxtakostnaðar. Svæði II. Fyrstu 2 árin eftir að viðkomandi fjárfestingu er lokið greiðir ríkið 80% vaxtakostnaðar, en næstu 2 ár 40%.“

Ég hirði ekki um að vitna frekar til þessara upplýsinga, en ef þessar upplýsingar eiga að vera til styrktar þeirri tillögugerð, sem hér er lögð fram um lánveitingar úr Ferðamálasjóði, þá þykir mér heldur betur stungin tólg. En þegar ég hugðist leita mér upplýsinga um Ferðamálasjóð og starfsemi hans, vísaði hæstv. samgrh. mér til ráðuneytisstjóra samgöngumála, og leysti hann greiðlega úr þeim fyrirspurnum, sem ég hafði fyrir hann að leggja, og í því sambandi barst talið óhjákvæmilega að Ferðaskrifstofu ríkisins, og vísaði hann mér þá til forstöðumanns Ferðaskrifstofunnar, Sigurðar Magnússonar. Áður en ég vík að því, vil ég aðeins drepa hér á örfáar greinar í IV kafla frv., sem fjallar um almennar ferðaskrifstofur. Þar eru greinar og ákvæði, þar sem á að setja rækilega undir þann leka, að ferðaskrifstofur séu reknar af óábyrgum aðilum, þess sé gætt í fyllsta máta, eins og framast er auðið, að þeim sé fært að standa við þær skuldbindingar, sem þær takast á herðar. Allir fá séð, að þetta er hið mikilvægasta, að hér er um það að tefla oftast nær, að þessar ferðaskrifstofur selja þjónustu sína fyrir fram, þjónustan er greidd fyrir fram, og þá er það að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt og raunar mikil nauðsyn, að við þær skuldbindingar, sem með þeim hætti er stofnað til. sé staðið. Þess vegna er það, að t.d. í 15. gr., — ég er að vísu með frv. eins og það var upphaflega lagt fram, mig minnir, að eitthvað hafi raskast töluröð greina í þessu, það skiptir ekki höfuðmáli, — í 16. gr. t.d. er ákvæði um, að leyfi til rekstrar ferðaskrifstofu má því aðeins veita, að umsækjandi setji bankatryggingu, sem eigi sé lægri en 3 millj. kr. Rn. getur ákveðið almenna hækkun tryggingarfjárins svo og sérstaka hækkun hjá einstökum ferðaskrifstofum, ef rekstur þeirra gefur tilefni til. Enn fremur er ákvæði um, að ferðaskrifstofur skuli senda rekstrar- og efnahagsreikninga sína til rn. o.s.frv., ákvæði, sem eiga að tryggja það, að málin gangi ekki úrskeiðis, þannig að um stóra ábyrgð er að tefla, þar sem t.d. erlendir menn mundu ella glata fé sínu. Að vísu er þess getið í 18. gr., að ákvæði þessa kafla nái ekki til Ferðamálastofnunar Íslands, og út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt, þar sem telja verður upp á, að ríkissjóður sjálfur eða ríkið sjálft standi við allar þær skuldbindingar, sem sú stofnun tekst á herðar.

En þegar ég leitaði mér upplýsinga hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, þá virðist mér ástandið á þeim bæ vera með allt öðrum hætti en ég hafði getað látið mér detta í hug. Ástandið var með þeim hætti, að ef hér hefði verið um einkaaðila að tefla, þá virtist mér eftir þeim upplýsingum, sem mér voru gefnar, að þetta fyrirtæki væri gjaldþrota, það væri með öllu ófært um að standa við skuldbindingar sínar, og nýráðinn forstöðumaður Ferðaskrifstofunnar, frá því að mig minnir 1. júlí í fyrra, einn þekktasti ferðamálamaður hér á landi síðasta aldarfjórðung, hafði neyðst til þess að segja þessu starfi sínu lausu, af því að hann hafði ekki fengið áheyrn hjá ráðamönnum um úrbætur, hafði ekki fengið áheyrn um úrbætur til þess að forða frá algjörum ókjörum í þessum efnum. Ég hygg, að þannig standi málin enn í dag, að Ferðaskrifstofa ríkisins sé um það ófær að hefja rekstur Edduhótelanna, það eru hótelin, sem rekin hafa verið í heimavistarskólum ríkisins. Liggur þó alveg fyrir, að búið er þegar fyrir fram að selja erlendum ferðamönnum og innlendum þúsundir gistirúma í þessum sumarhótelum á sumri komanda, og forstöðumaður tjáði mér, að ef ekki yrði brugðið við alveg strax, þá virtist blasa við, að ekki yrði hægt að standa við þessar skuldbindingar. Og þá er komið að því, að ríkið sjálft fellur í þá gryfju, fellur í þann brunn, sem það er að reyna að byrgja með ákvæðum þeim, sem ég vitnaði til í frv. áðan. Ég hef að sjálfsögðu enga aðstöðu til að meta til botns innihald þeirra upplýsinga, sem mér hafa verið gefnar í þessu efni, en ég þykist sjá, að mjög horfi til hins verra, þegar hinum nýja forstöðumanni þykir mál skipast með þeim hætti, að hann sér sig til neyddan að segja því starfi sínu lausu, sem hann hafði nýtekið við.

Það er nú ósk mín, að hæstv. samgrh. gefi hinu háa Alþingi einhverjar upplýsingar um þetta mál og svör við þeirri fyrirspurn minni, með hvaða hætti verði að því staðið að leysa þetta mál, því að þetta mál hlýtur og verður að leysa þegar í stað. Ég tel það miklu mikilvægara en að við innum mikla vinnu af höndum við þetta frv. sérstaklega. Ég er sannfærður um það, að samgmn. hv. d. er alveg tilbúin til þess að leggja vinnu í að athuga um tillögugerð til úrbóta í þessu efni, ef ráðamenn telja slíkan stuðning við sig nauðsynlegan. Í þeirri n. á sæti hæstv. fyrrv. samgrh., og veit ég, að hann hefur þann kunnugleika á þessu máli, að hann er áreiðanlega fús til að leggja því lið.

Ég hirði ekki um að fara nákvæmar út í þessi atriði, sem ég fékk upplýst í þessu máli, en mér virtist allt málið það alvarlegt, að fullkomin ástæða sé til þess við 1. umr. um þetta mál hér í hv. d., að það verði alveg tekið sérstaklega til umr. hér, hverra ráða verði leitað til þess þegar í stað að forða þessari starfsemi á vegum ríkisins, starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins, frá þeirri sjálfheldu, sem ég fæ ekki betur séð en hún sé í. Þetta var aðalerindið, sem ég átti hingað. Ég vænti þess, að hæstv. samgrh. telji sér fært að gefa okkur svör við því, með hvaða hætti þetta mikla vandamál, sem mér sýnist vera hér á ferðinni, verður leyst. Ég er alveg sannfærður um, að hann muni ekki láta viðgangast, að málið fari í neina ófæru, og þá er eingöngu um tímaspursmál að tefla, en tíminn er núna dýrmætur. Það nálgast mjög ferðamannatímann, og mér skilst, að margvíslegar framkvæmdir séu eftir og þá einmitt á þessu mikla þjóðhátíðarári okkar, ef við eigum að forða frá því að lenda þarna í ófæru að þessu leyti, og veit ég og er sannfærður um, að það er síst meining hæstv. ráðh.