22.04.1974
Efri deild: 105. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3815 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

257. mál, hússtjórnarskólar

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um heimilisfræðaskóla. N. hefur fengið á sinn fund form. þeirrar n., sem undirbjó frv., Steinunni Ingimundardóttur skólastjóra, einnig skólastjóra Húsmæðrakennaraskólans, Vigdísi Jónsdóttur, og einnig fengið allmargar umsagnir um frv. N. mælir einróma með því, að frv. verði samþ. með tilteknum breyt., sem eru á þskj. 726. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., og flytjum við hv. þm. Auður Auðuns, 6. þm. Reykv., tvær brtt. á þskj. 727.

Um brtt. n. er ekki ástæða til að fjölyrða. Það er í fyrsta lagi breyt. við 1. gr. um, að við bætist nýr liður, þar sem rætt er um, hvert sé hlutverk heimilisfræðaskóla, og sé með þeim nýja lið lögð áhersla á, að um geti verið að ræða sérmenntun í íslenskum handíðum með sérstakri tilvísun til 16. gr., þar sem fjallað er um handíðaskóla, sem settur yrði á stofn. Það var skoðun n., að l5. gr., sem fjallar um handíðaskólann, væri fullstuttaraleg, og því er 6. brtt. n. gerð til að bæta úr því. Að öðru leyti er 2. brtt. einnig í sama dúr, þ.e. að slá því föstu, að viðkomandi handíðaskóli samkv. 15. gr. falli undir heildarheiti frv., sem er heimilisfræðaskóli, og lúti sömu ákvæðum og þeir skólar, sbr. I. og II. kafla frv., en þetta var ekki nægilega ljóst samkv. frv.

Eins og kunnugt er, fjallar frv. um það, að þeir skólar, sem nú eru nefndir húsmæðraskólar eða kvennaskólar, taki breyt, og verði nefndir heimilisfræðaskólar til samræmis við þá stefnu, sem uppi er, að gera ekki sérstakan mun á kynjum í skólakerfi okkar, og um leið er það tilgangur frv. að skýrgreina enn betur en gert hefir verið hlutverk þessara skóla og tryggja, að þeir falli inn í skólakerfið með eðlilegum hætti, þannig að þeir nemendur, sem í þessa skóla fara, séu ekki að fara inn á einhverja blindgötu, sem endi að skólanum loknum án þess að veita nein réttindi inn í aðra skóla, heldur falli þessir skólar með eðlilegum hætti inn í skólakerfið og próf úr þeim veiti réttindi til framhaldsnáms í framhaldsskólakerfinu. Þetta er ótvírætt mikilvægasta breytingin, sem frv. felur í sér. En hvort hún dugar til að setja nýtt líf í þessa skóla, sem eru nú mjög á fallandi fæti, það er annað mál, sem ég treysti mér ekki til að kveða neinn dóm um, og óhætt er að fullyrða, að meðnefndarmenn mínir voru haldnir nokkrum efa um, að samþykkt þessa frv. dygði til að hleypa nýju lífi í þessa skóla. En þetta er sem sagt tilraun í þá átt og sjálfsagt og eðlilegt, að slík tilraun sé gerð.

Um brtt. er ekki ýkjamikið annað að segja. Ég hef nefnt hér 3 þeirra og skal víkja að þeim, sem ótaldar eru. Í fjórða lagi vil ég nefna brtt. við 7. gr., en þar er gert ráð fyrir því skv. frv., að kennarapróf þurfi frá Húsmæðrakennaraskóla Íslands, Hússtjórnarkennaraskóla Íslands eða Kennaraháskóla Íslands, til þess að setja eða skipa megi menn sem kennara við þessa skóla, en menntmn. gerir till. um, að fleiri skólar geti komið þarna til greina, og tilnefnir í fyrsta lagi Kennaraskóla Íslands, því að allmargir kennarar hafa próf frá honum, þó að hann sé ekki lengur til. einnig er bætt við hliðstæðum menntastofnunum erlendis, og loks er bætt við vefnaðarkennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. N. gerir þetta að till. sinni í samræmi við ábendingar, sem hún fékk frá fleiri en einum aðila.

Fimmta brtt., sem ég tel hér og er víst nr. 4 á þskj. 726, snertir skólanefndina og er til samræmis við þær breyt., sem gerðar hafa verið á 3 skólanefndum einmitt á þessum sama þingdeildarfundi nú rétt áðan.

Loks gerir n. till. um breyt. við 12. gr. frv., og eru þær breyt. til samræmis við frv. til 1. um grunnskóla, eins og það er, eftir að Nd. hefur um það fjallað. Menntmn. hefur ekki í hyggju að gera brtt. við það ákvæði grunnskólal. og telur þar af leiðandi einsýnt, að færa verði ákvæði um orlof kennara í þessu frv. til samræmis við ákvæðin í grunnskólafrv., eins og líklegt er, að þau yrðu að lögum að öllu forfallalausu.

Að lokum vil ég nefna hér till. á þskj. 727, sem við flytjum hv. 6. þm. Reykv., Auður Auðuns, og ég.

Það er í fyrsta lagi um, að nafni frv. verði breytt og þar með nafni þessara skóla, þeir verði ekki nefndir heimilisfræðaskólar, heldur hússtjórnarskólar. Fyrir þd. hafa verið lögð tvö frv. Fjallar annað um hússtjórnarkennaraskólann, sem kemur í staðinn fyrir Húsmæðrakennaraskólann, og svo þetta frv., og við teljum, að það sé meira til samræmis að nota sama orðið í báðum tilvikum og tala í þessu tilviki líka um hússtjórnarskóla. Ég vil taka það fram, að við bárum þetta undir gesti n., þær Steinunni Ingimarsdóttur og Vigdísi Jónsdóttur, og þær voru sammála okkur um, að þetta væri eðlileg breyting og nauðsynleg og töldu sig miklu betur geta fellt sig við þetta heiti.

Í öðru lagi gerum við þá brtt. við 15. gr. frv., að á eftir 3. mgr. 15. gr. frv., eins og hún yrði, ef brtt. n. yrðu samþykktar, komi þessi setning: „Heimilt er að ráða kennara við skólann, sem sérstaklega eru þjálfaðir til handíða- eða teiknikennslu, án þess að þeir uppfylli skilyrði 7. gr.“ Hér er um undantekningarákvæði að ræða, sem aðeins snertir þennan handíðaskóla. N. fékk ábendingar um, að ákvæðin um ráðningu kennara við þennan skóla væru kannske í þrengsta lagi með hliðsjón af því, að þetta væri skóli sérstaks eðlis, og það yrði að vera möguleiki á að ráða að honum kennara, a.m.k. einn, ef ekki fleiri, sem hefðu sérmenntun í kennslu handíða- og textilgreina, og þá væri ekki víst, að slíkir menn uppfylltu skilyrðin um það að hafa kennarapróf frá þeim kennslustofnunum, sem nefndar eru í 7. gr. Af þessum ástæðum þykir okkur eðlilegt að setja þá smugu inn í frv., að ráðh. sé heimilt að ráða að skólanum kennara, sem séu sérþjálfaðir til handíða- eða teiknikennslu, jafnvel þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 7. gr.