22.04.1974
Efri deild: 105. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3817 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

296. mál, loftferðir

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Öryggisþjónusta vegna flugferða yfir Norður-Atlantshaf er á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Þessi öryggisþjónusta nær yfir stórt svæði og er margháttuð og kostnaðarsöm. Þessi þjónusta er þannig skipulögð, að einstök lönd annast hana á ákveðnum svæðum samkv. ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. og skv. ákvörðun hennar um flug yfir Norður-Atlantshaf hefur Ísland á undanförnum árum annast þessa þjónustu á tilteknu svæði allstóru, sem nær suður að 61. breiddarbaug og allt að ströndum Grænlands. Þessi þjónusta er til nota fyrir öll loftför, sem leið eiga um þetta svæði, og þess vegna var á árinu 1956 gert samkomulag milli margra ríkja, þar sem ákveðið var, að 95% af kostnaði við þessa öryggisþjónustu skyldi endurgreidd íslenska ríkinu af öðrum þátttökuríkjum í því hlutfalli sem loftför þeirra fljúga yfir Norður-Atlantshafið, og hliðstætt samkomulag var einnig á sama tíma gert að því er varðaði þjónustu danska ríkisins í þessu efni, en hún tekur til Grænlands og Færeyja.

Í samkomulaginu frá 1956 var gert ráð fyrir því, að síðar kynni að vera talið réttara, að þeir. greiddu fyrir þjónustuna, sem hennar nytu, þ.e.a.s. flugfélögin sjálf að meira eða minna leyti. Þess vegna var þá ákveðið, að ríkisstjórnir Íslands og Danmerkur sæju til þess, ef þess yrði óskað af hálfu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, að settar yrðu reglur, sem gerðu það kleift, að gjöld vegna þjónustunnar yrðu greidd af þeim, sem hennar njóta.

Nú er komið að því, að þær breytingar verði gerðar um fyrirkomulag á greiðslum vegna þessarar starfsemi, sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu 1956, að kynnu að verða. Þessar breytingar eru á þá leið, að flugfélögin, sem annast flugið á því svæði, sem hér um ræðir, greiði eftirleiðis sjálf hluta af kostnaðinum, sem af starfsemi flugöryggisþjónustunnar leiðir. Þetta bar þannig að gagnvart Íslandi, að í mars og apríl 1973 var haldin ráðstefna í París á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Þar áttu fulltrúa þau lönd sem eru aðilar að samþykktum um greiðslu á kostnaði til Íslands og Danmerkur vegna flugöryggisþjónustunnar á Norður-Atlantshafi. Á þessari ráðstefnu var samþykkt, að nú þegar skyldu 40% af þeim útgjöldum vegna þjónustunnar, sem talið er, að komi notendum til góða, greidd af notendum, en 60% yrðu áfram greidd af þátttökuríkjunum. Þó er gert ráð fyrir, að þessi skipting kostnaðarins verði aðeins til bráðabirgða, því að jafnframt var samþ. á ráðstefnunni, að gert skyldi ráð fyrir því, að frá og með árinu 1976 yrði skiptingin sú, að 60% yrðu greidd af notendum, en 60% af þátttökuríkjunum. Skv. ályktun þessarar ráðstefnu hefur svo Alþjóðaflugmálastofnunin óskað eftir því við ríkisstj. Íslands, að innheimtunni verði breytt í þetta horf. En lögin, sem í gildi eru um loftferðir, þ.e. loftferðalög, nr. 34 frá 1964, fela ekki í sér heimild til þess að koma þessari breytingu á, og af þeim ástæðum er frv. þetta fram borið til þess að fá lagaheimild um þetta efni.

Í 2. mgr. fyrri gr. frv. er kveðið svo á, að heimilt sé flugmálaráðh. að semja við stjórnvöld annarra ríkja um, að þau taki að sér innheimtu á þessum gjöldum erlendis. Það kemur fram í grg. þessa frv., og einnig var skýrt frá því á fundi n., að fyrirhugað er af hálfu íslenskra stjórnvalda að gera samkomulag við Breta um framkvæmd skv. 2. mgr. fyrri gr. frv. Það samkomulag mundi þá verða gert með nótuskiptum milli landanna. En Bretar hafa allfullkomið innheimtukerfi að þessu leyti.

Samgn. hefur fjallað um þetta frv. og fékk á sinn fund til viðræðu um málið ráðuneytisstjórann í samgrn., flugmálastjóra og aðstoðarmann hans, og þessir menn voru sammála nm, að sú lagabreyting, sem hér er farið fram á, að samþykkt verði, sé ekki aðeins eðlileg, heldur nauðsynleg, eins og málið horfir nú við. Að þessu athuguðu leggur samgn. til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.