22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3829 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

15. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til 2. umr. í þessari hv. d., hafa þm. haft til skoðunar á tveim undanförnum þingum. Um efni frv. segir svo í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Í lagafrv. þessu er greint á milli umráða- og hagnýtingarréttar á jarðhita eftir því, hvort hann er að finna á háhitasvæðum eða lághitasvæðum.

Allur jarðhiti á lághitasvæðum, svo og hverir og annar náttúrlegur jarðhiti á yfirborði háhitasvæða, er háður einstaklingseignarrétti landeigenda, en annar jarðhiti á háhitasvæðum er í almannaeign og í umráðum ríkisins. Þó skulu þeir, sem borað hafa eftir jarðhita á háhitasvæðum og byrjað vinnslu hans við gildistöku l., hafa þann rétt óskertan áfram.

Óheimilt er, að aðrir aðilar en ríkið og þeir, sem leyfi ríkisvaldsins fá, bori eftir jarðhita á háhitasvæðum.

Ráðh. hefur heimild til að leyfa vinnslu jarðhita á háhitasvæðum til minni háttar nota, en að öðru leyti skal skipa hagnýtingu háhita framvegis með löggjöf hverju sinni og er með því tryggt, að nýting þessara orkulinda verði sem hagkvæmust fyrir þjóðina.“

Í 1. gr. frv. kemur svo fram nánari skilgreining milli lághita og háhitasvæða, og segir þar m.a. svo :

„Með jarðhitasvæði er í l. þessum átt við uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns. Jarðhitasvæði skiptast í háhitasvæði og lághitasvæði. Jarðhitasvæði telst háhitasvæði í l. þessum, ef innan þess finnst 200° C hiti ofan 1000 m dýpis. Önnur jarðhitasvæði nefnast lághitasvæði.“

Einnig segir:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum og uppleystra efna og gastegunda, sem háhitavatni og gufu fylgja, þó með takmörkunum, sem í l. þessum greinir.“

Umr. um efni þessa frv. hafa nokkuð snúist um, hvort með því væri gengið lengra í takmörkun á einstaklingseignarrétti en stjórnarskráin heimili.

Iðnn. þessarar hv. d. hefur fjallað allítarlega um frv. og m.a. sent það til umsagnar lagadeildar háskólans, og var þess sérstaklega óskað, að fram kæmi í áliti deildarinnar, hvort nokkurt ákvæði frv. bryti í bága við stjórnarskrána. Í svari lagadeildarinnar eru rakin efnisatriði frv., er hér að lúta, og í lok umsagnar deildarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstaða lagadeildar er því sú, að ofangreint frv. feli ekki í sér stjórnarskrárbrot, ef það verður að lögum. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, að það geti í einstökum tilvikum haft í för með sér hótaskyldu fyrir ríkissjóð gagnvart eigendum jarðhitaréttinda.“

N. bárust einnig umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands og Sambandi Ísl. sveitarfélaga. Búnaðarfélagið mótmælir frv. sem skerðingu á réttindum landeigenda. Um það vil ég aðeins segja, að sagan geymir of mörg dæmi þess, að einkaeign á landi hefur komið í veg fyrir, að framfaramál til almenningsheilla næðu fram að ganga, og er leitt til þess að vita, ef forustumenn íslenskra bændasamtaka skipuðu sér í þann hóp. Samband sveitarfélaganna lýsir sig samþykkt brtt., sem hv. þm. Stefán Gunnlaugsson flytur við frv., en iðnn. flytur nú brtt., sem kemur til móts við sveitarfélögin frekar en áður var í frv.

Iðnn. var ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. með minni háttar breyt., en minni hl. leggur til, að því verði vísað til ríkisstj.

Eins og ég hef tekið fram, hefur þetta frv. legið fyrir tveim þingum, og hafa því allir, sem málið varðar, haft tækifæri til að láta í ljós álit sitt. — Orkumálin hafa mikið verið til umr. á þessu þingi og sá mikli vandi, sem þar blasir við þjóðinni. Ég tel, að allur dráttur á samþykkt þessa frv. mundi auka þann vanda og það sé því mikið hagsmunamál alls almennings í landinu, að frv. þetta verði nú samþykkt.

Varðandi þær brtt., sem meiri hl. iðnn. flytur og ég veit ekki raunar betur en að öll n. sé út af fyrir sig samþykk, vil ég aðeins segja það, að hér er um að ræða minni háttar breyt. Tvær eru við 1. gr. frv., hin fyrri við 3. málsgr., að niðurlag hennar falli niður, þ.e.a.s.: „Með þau svæði“ o.s.frv., — að þetta falli niður og eins að niðurlag 5. málsgr. 1. gr. falli burt, sem er á þann veg: „Landeiganda er óheimilt að bora á landareign sinni á háhitasvæði eftir jarðhita.“ — Það er rétt að taka það fram, að 2. gr. frv. kveður mjög skýrt á um, hvernig skuli fara með leyfi til borunar, og borun án leyfis er óheimil og því óþarfi, að þetta sé í þessari gr.

2. brtt. er við 2. gr. frv. Það er sú gr., sem sérstaklega snertir sveitarfélögin og nokkur ágreiningur hefur verið um. Frá upphaflegri mynd frv. hefur verulega verið komið til móts við sjónarmið sveitarfélaganna í þessu efnum, en iðnn. leggur nú til, að þau fái 15 ára frest í stað 5 ára, eins og er tekið fram í 2. málsgr. 2. gr.málsgr. er þannig:

„Þau sveitarfélög, sem land eiga á háhitasvæði við gildistöku laga þessara, skulu hafa forgangsrétt til vinnsluleyfis á því landi og vera undanþegin leyfisgjaldi fyrir vinnslu á því landi, enda hafi þau sótt um vinnsluleyfi innan 5 ára frá gildistöku laganna.“

N. leggur til, að í staðinn fyrir 5 ára frest komi 15 ára frestur, og teljum við, að með því sé svo vel komið til móts við sveitarfélögin, að ekki ætti að þurfa að valda neinum ágreiningi.

3. brtt. við frv. á þskj. 710 varðar fyrirsögn frv. og er nánast leiðrétting. Það er ábending frá starfsmönnum þingsins, að fyrirsögn sé betri og þinglegri á þann veg, sem hér er lagt til, en er á frv. núna.