22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

15. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eins og hér var lýst áðan, gat iðnn. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Þetta mál var flutt á síðasta þingi og aftur núna, eins og hv. frsm. meiri hl. lýsti hér áðan. Eigi að siður er málið þannig vaxið, að það er ekki nægilega undirbúið, til þess að það geti fengið lögfestingu eða eigi að fá lögfestingu. Enn er margt í þessu frv., sem þyrfti að breyta, áður en það gæti orðið að lögum, og kemur það skýrast fram í umsögnum þeirra aðila, sem fengu málið til meðferðar.

Það er tæplega rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, að það væru mörg dæmi um það, að einkaeign á landi hafi komið í veg fyrir framkvæmdir til almenningsheilla. Þetta er fullyrðing, sem tæplega fæst staðist, vegna þess að Alþ. hefur alltaf möguleika lögum samkv. til þess að taka land eignar- eða leigunámi, ef almenningsheill krefst þess. Og það er það, sem nú er í lögum og tryggir í rauninni, að réttur almennings verði ekki fyrir borð borinn vegna eignaraðildar einstaklinga, félaga eða stofnana. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að með frv. þessu er stefnt að því að flytja verðmæti, sem háð hafa verið einstaklingsrétti, rétti sveitarfélaga og stofnana, úr höndum þeirra til ríkisins í þeim tilgangi að geta nýtt réttindin í fjárhagslegum tilgangi án bóta til eiganda eða a.m.k. án þess að greiða jafnháar bætur og venjulegt eignarnám mundi gera ráð fyrir. Ef sá væri ekki tilgangurinn að ná þessum réttindum með því að greiða lægri bætur en gert er ráð fyrir með eignarnámi, þá væri í rauninni engin ástæða til flutnings þessa máls. Þannig segir í 2. málsgr. 1. gr. frv.: „Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum“ o.s.frv. 2. málsgr. 2. gr. frv. breytir hér engu um, þar eð heimild fellur niður eftir 5 ár — nú eftir 15 ár, ef brtt. verður samþykkt — frá gildistöku laganna, og er auk þess aðeins um forgangsrétt til handa viðkomandi sveitarfélagi að ræða.

Það virðast vera meginrök fyrir frv., að það sé þjóðarheill fyrir bestu, að hin mikla orka, sem bundin er í háhitasvæðum, verði nýtt á skipulegan hátt, en ekki látin ónotuð, eins og verið hefur að mestu til þessa. Í núgildandi orkulögum eru skýr ákvæði um þetta efni, t.d. 2. gr., og er vandséð, að í frv. séu ákvæði, sem tryggi þetta atríði betur en þar er gert. Í þessu sambandi er bent á þá staðreynd, að ríkið mun nú þegar eiga nokkurn hluta háhitasvæða, en sú ríkiseign hefur ekki verið nýtt að ráði til þessa. Árið 1968 var talið, að fjórðungur allrar nýtanlegrar orku á lághitasvæðum væri nýttur. Einhver hluti háhitasvæða er einnig nýttur í dag, og áætlanir eru um meiri nýtingu þeirra.

Grg. frv. er þess vegna ekki að öllu leyti rétt og að sumu leyti villandi. Það, að svæði þessi hafa ekki verið nýtt í enn ríkari mæli af eigendum þeirra, stafar einungis af því, að tæknihlið málsins hefur ekki verið leyst á þann hátt, að frekari virkjanir væru fjárhagslega réttlætanlegar, en þetta breytist með aukinni tækniþekkingu. Varðandi tækniþekkingu og tækjabúnað vísast til lagaákvæða þar um, en þau eiga að tryggja, að vöntun þar á verði ekki til þess að hindra framkvæmdir. Þá hefur verið bent á, að framkvæmdir af þessu tagi séu kostnaðarsamar, áhættusöm fjárfesting, þó að nauðsynlegt sé, að jarðhitasvæðin lúti stjórn eins aðila. En í sambandi við þetta nægir að vísa til gildandi lagaákvæða um þetta mál, sem oft hafa verið rakin.

Á undanförnum árum hefur verið unnið nokkuð að áætlunum um nýtingu háhitasvæða. Í grg. frv. segir, að einn þröskuldur í vegi slíkrar áætlana hafi verið óvissa um umráðarétt jarðhitans, sem unninn er með borunum í jörðu, en tilgangur frv. sé að ákveða skýrar en verið hefur eignarrétt slíks jarðhita. Háhitasvæðið við Svartsengi er í einkaeign. Jarðhitadeild Orkustofnunar tók við rannsóknum, sem gerðar höfðu verið af hálfu Grindavíkurhrepps í samráði við landeigendur, og gaf út í janúar 1973 bók um varmaveitu frá Svartsengi. Á bls. 16 í skýrslu þessari segir orðrétt:

„Eignarréttur jarðhitans mun vera í höndum einkaaðila, og hefur ekki verið gerð tilraun til að meta kostnað við öflun virkjunarréttinda, en hins vegar er gert ráð fyrir, að hann sé óverulegur hluti af stofnkostnaði og hafi engin úrslitaáhrif á hagkvæmni veitunnar. Áætlanir hafa farið fram óhindrað þrátt fyrir það, að fleiri aðilar en einn ættu hin mismunandi jarðhitasvæði.“

Þetta stendur í skýrslu Orkustofnunar og stangast nokkuð á við það, sem hv. frsm meiri hl. sagði hér áðan.

Þá nægir að vísa til skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, sem gefin er út í mars 1969, frumáætlana um varmaveitu frá Svartsengi, sem gefin er út í janúar 1973, frumáætlunar Orkustofnunar um jarðgufuaflsstöð í Námafjalli eða Kröflu og áætlunar um varmaveitu fyrir Hafnarfjörð, sem gefin var út í apríl 1970. En í sambandi við væntanlega virkjun við Kröflu eða Námafjall segir í grg. með frv., sem nýlega var lögfest:

„Ríkissjóður er rétthafi jarðhitaréttinda og landsvæða þeirra, er hér skipta máli, samkv. samningum við landeigendur frá 18. mars 1971.

Ekki hefur það hindrað aðgerðir við Kröflu eða Námafjall, að þetta frv. var ekki orðið að lögum.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má segja, að forsenda fyrir grg. frv. sé á hæpnum rökum reist. Í grg. frv. er vísað til frv., sem dr. Bjarni Benediktsson flutti á Alþ. 1945. Um það efni eru nú ákvæði í 14. gr. orkulaga, svo hljóðandi:

„Þegar almenningshagsmunir krefjast þess, er ríkisstj. heimilt að taka jarðhita eignarnámi í vinnsluskyni eða til að afstýra því, að borun á jarðhitasvæði spilli verðmæti hagnýtingar, sem hafin er á jarðhita í námunda við svæðið.“

Þetta ákvæði í orkulögum ætti að tryggja hverju sinni, að ríkið getur tekið til nýtingar þann jarðhita, sem ástæða þykir til. Verði þetta frv. að lögum, mun sú löggjöf fela í sér stefnubreytingu löggjafans um eignarrétt. Það er hætt við, að sú stefnubreyting muni verða umdeild og draga dilk á eftir sér og leiða til margvíslegra málaferla.

Eins og ég sagði áðan, var frv. sent til þriggja aðila til umsagnar. Búnaðarfélag Íslands telur, að leigunámsheimildir og eignarnámsheimildir í lögum tryggi nægilega hagsmuni og rétt almennings í þessu skyni. Búnaðarfélag Íslands og Búnaðarþing mótmæla þeim skilningi, sem stundum hefur komið fram, og þeirri túlkun, sem hefur komið fram á Alþ., að Búnaðarþing standi því í móti, að jarðhiti á svonefndum háhitasvæðum, eins og þau kunna að vera ákveðin, verði nýttur í almenningsþágu. Telur þingið, að engin átylla hafi verið til slíkrar túlkunar á ályktun Búnaðarþings frá árinu 1973. Þvert á móti telur þingið sig þess hvetjandi, að þessi jarðagæði verði nýtt sem best og mest, en ef ríkið eða aðrir opinherir aðilar nái ekki samningum við landeigendur um nýtingu þeirra, verði notuð heimild til eignarnáms að lögum og bætur greiddar eftir mati. Þá segir Búnaðarþing um brtt., sem komið hafi fram, að þær séu til bóta, — það er í sambandi við till., sem hv. þm. Stefán Gunnlaugsson flutti, en þó er aðeins um undantekningu að ræða. „Eftir stendur óhaggað,“ segir Búnaðarfélag Íslands, „það efni frv., sem viðsjárverðast er, að unnt sé með einföldum 1ögum að taka upp eignir manna og réttindi bótalaust eða bótalítið.“

Annars er ástæðulaust að vera að lesa upp úr áliti Búnaðarfélagsins eða Búnaðarþings, vegna þess að það er prentað hér með nál. minni hl., til þess að þm. geti gert sér grein fyrir því, hvað Búnaðarfélag Íslands hefur að segja um þetta mál.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur þetta að segja: „Stjórnin telur nauðsynlegt, að sú breyt. verði gerð á frv., að inn í það verði felld brtt. á þskj. 21. flm. Stefán Gunnlaugsson. Jafnframt bendir stjórnin á nauðsyn þess, að lögin tryggi þeim sveitarfélögum, sem ekki eiga lönd á háhitasvæðum, forgangsrétt til hagnýtingar jarðhita þar.“

Enginn vafi er á því, að Samband ísl. sveitarfélaga telur brtt., sem meiri hl. iðnn. hefur flutt um 15 ára ákvæðið, algjörlega ófullnægjandi.

Þá var lagadeild Háskóla Íslands sent málið til umsagnar og þá sérstaklega með tilliti til þess, að ýmsir héldu því fram, að þetta frv. gæti brotið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Lagadeild Háskóla Íslands telur það ekki vera og telur líklegast, að bætur muni koma fyrir þau gæði, sem verða tekin af einstaklingum, félögum eða stofnunum skv. frv. þessu. Í niðurlagi grg. lagadeildarinnar er vitnað í grg. fyrir frv., þar sem segir:

„Með lögum þessum eru eignarrétti einstaklinga sett tiltekin almenn takmörk, án þess að bætur komi fyrir, en heimild löggjafarvaldsins til að setja eignarréttinum almennar takmarkanir er fyrir löngu viðurkennd af dómstólum.“ — Þarna er byggt á því, segir lagadeildin, „að fyrrnefndar skerðingar á jarðhitaréttindum hafi ekki í för með sér skyldu til greiðslu eignarnámsbóta. Þrátt fyrir það er ástæða til að ætla, að frv. verði skýrt þannig, ef það verður að lögum, að eignarskerðingar þessar skuli koma til framkvæmda við gildistöku laganna, en hins vegar beri að greiða þeim aðilum bætur, sem sviptir hafa verið réttindum sínum til að hagnýta jarðhita með borunum, ef um verðmæt réttindi er að ræða.“ Þetta er nú ekki sterkt að orði kveðið hjá lagadeildinni, þar sem hún segir, að það megi ætla, að bætur komi fyrir. Það er alls ekki sagt afdráttarlaust.

Ef þetta frv. verður að lögum, hefur það í för með sér stefnubreytingu frá því, sem verið hefur um eignarrétt, og er hætt við, að það geti haft ýmsar afleiðingar, það verði á fleiri sviðum farið að dæmi þessa frv., það verði ekki aðeins jarðhitinn, sem sótt verði á, það gætu orðið veiðiréttindi og það gætu orðið önnur landgæði, þótt ekki hafi verið lengra gengið að sinni en að tala um jarðhitann. Við í minni hl. teljum ekki fært að fylgja þessari stefnu. Við teljum eigi að siður nauðsynlegt, að jarðhitinn verði notaður og nýttur, og við teljum, að þær kenningar, sem fram eru bornar, að ekki sé unnt á skipulegan hátt að vinna að þessum málum, nema þetta frv. verði samþykkt, séu úr lausu lofti gripnar. Þau dæmi, sem ég nefndi hér áðan, bæði frá Svartsengi, Námafjalli og við Kröflu, sanna það og sýna, að það hefur verið unnið að þessum málum með sama hætti og ef ríkið hefði haft fullan umráðarétt og eignarrétt yfir landinu og hitanum. Það er og álit Orkustofnunar, að verð hitans, ef það verður borgað eftir mati samkv. eignarnámslögum, sé hverfandi lítið og hafi engin afgerandi áhrif á kostnað þeirra mannvirkja, sem ætla má, að reist verði í sambandi við rannsóknirnar. — Hér hefur verið vitnað aðeins í Svartsengi og Námafjall og Kröflu, en það gegnir vitanlega sama máli um aðra staði og önnur svæði. Jarðborunardeild Orkustofnunar hefur unnið að ýmiss konar rannsóknum, eftir því sem fjármagn hefur verið fyrir hendi. Það hefur verið unnið á Reykjanesi vegna saltvinnslu og annarra fyrirhugaðra framkvæmda þar, og það hefur verið unnið bæði á lághitasvæðum og háhitasvæðum á því landi, sem hefur verið í sveitarfélagaeign. Það er því fráleitt að halda því fram, að það muni tefja fyrir nauðsynlegum framkvæmdum, þótt þetta frv. verði ekki að lögum á þessu þingi, og það er jafnvel fráleitt að halda því fram, að framkvæmdir tefjist, þótt þetta frv. yrði aldrei að lögum. Til þess eru ákvæðin í orkulögunum, þ.e. eignar- og leigunámsheimildirnar.

En það er svo út af fyrir sig stefna, hvort virða á eignarréttinn eða virða hann ekki, hvort taka eigi þessi verðmæti eða réttindi án þess að bæta fyrir þau, eins og stendur í grg. þessa frv., eða hvort á að taka þessir réttindi án þess að bæta þau að fullu, og það er það, sem sýnist frekar vera stefna þessa frv., að koma málum þannig fyrir, að það sé hægt að ná réttindunum án þess að greiða fullar bætur, heldur einhverjar minni bætur, sem kæmu í veg fyrir, að hægt væri að túlka ákvæði l. á þann veg, að þau brytu í bága við stjórnarskrána. En ég held, að það sé mjög hæpið að ganga það nærri eignarréttinum, hvort sem um landgæði er að ræða eða annað, að það sé ekki bætt að fullu eftir mati. Það er rétt ályktað hjá Orkustofnun um jarðhitann í Svartsengi, að þótt hann yrði bættur samkv. eignarnámslögunum eftir mati, þá yrði sú upphæð, sem greiða þyrfti fyrir réttindin, það lítil, að hún hefur engin úrslitaáhrif á kostnað þess mannvirkis, sem þarna ætti að gera. Það er einfaldlega vegna þess, að það mun verða erfitt fyrir eigendurna sjálfa að nýta þessi verðmæti og við matið yrði tekið tillit til nýtingarmöguleika eigendanna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Við í minni hl. leggjum til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til endurskoðunar, sem færi fram í samráði við Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Samband ísl. sveitarfélaga. Endurskoðuninni mætti vitanlega ljúka á komandi sumri, þannig að unnt væri að leggja endurskoðað og endurhætt frv. fyrir næsta Alþ., ef sérstök ástæða þætti til. En okkur í minni hl. finnst ansi hart að gengið að lögfesta þetta frv. gegn mótmælum landeigenda, sem koma greinilega fram í áliti Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarþings, sem er áreiðanlega að þessu leyti samnefnari fyrir bændastéttina í landinu. Enginn vafi er á því, að Samband ísl. sveitarfélaga, sem er samnefnari fyrir sveitarfélögin í landinu, er á móti frv. og alveg eins þótt ákvæðum 2. gr. sé breytt eins og gert er ráð fyrir með brtt., þ.e. að færa 5 ára tímabilið upp í 15 ár. 15 ár eru fljót að líða, og Samband ísl. sveitarfélaga vill ekki afsala sér réttindum eftir 15 ár. Þeir, sem nú stjórna Sambandi ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögunum, hugsa lengra fram í tímann og hugsa um, að nauðsynlegt sé og eðlilegt fyrir sveitarfélögin að hafa full réttindi til þessara gæða að 15 árum liðnum.