23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3846 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

301. mál, rannsóknarstörf prófessora

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar fsp. hv. þm. barst menntmrh., var hún send rektor Háskóla Íslands og þess óskað, að rn. yrði látnar í té upplýsingar um þau atriði, sem fjallað er um í fsp, Í bréfi rektors frá 18. þ.m. kemur m.a. fram, að öllum prófessorum, sem skipaðir voru í embætti á árinu 1960–1970, hafi verið skrifað og þess óskað, að þeir svöruðu fyrri lið fsp., að því er hvern þeirra varðar, og fylgja svör prófessoranna bréfi rektors. Rektor getur þess, að vegna sjúkleika hans hafi ekki verið tök á að taka saman sjálfstæða grg. af hálfu rektorsembættisins um málið umfram það, sem segir í bréfi hans og nánar verður vikið að í sambandi við 2. lið fsp. hér á eftir. Hins vegar vísar rektor til grg. Jónatans Þórmundssonar prófessors frá haustinu 1972, er Jónatan gegndi um skeið störfum háskólarektors, en grg. fylgdi svari hans. Grg, þessi var á sínum tíma, eða í des. 1972, send Alþ.

Á árabilinu 1960–1970, að báðum árum meðtöldum, voru 28 menn skipaðir í prófessorsembætti við Háskóla Íslands, og eru þeir allir enn í starfi. Af þessum 28 prófessorum er 11 í guðfræðideild, 9 í læknadeild, 4 í lagadeild, 3 í viðskiptadeild, 4 í heimspekideild og 7 í verkfræði- og raunvísindadeild, en einn hinna síðasttöldu var áður prófessor í læknadeild. Grg, hafa borist frá 25 prófessorum af 28. Af þeim prófessorum, sem svör hafa ekki borist frá, er einn í guðfræðideild og tveir í læknadeild. Í a.m.k. einu tilfelli munu veikindi valda, að svar hefur ekki borist. Áður en ég vík að grg. hvers prófessors, mun ég svara 2. lið fsp., en svar mitt við honum er á þessa leið.

Í 2. lið fsp, er spurt, hvort settar hafi veríð einhverjar reglur um það, á hvern hátt prófessorar við Háskóla Íslands geri grein fyrir rannsóknastörfum sínum. Því er til að svara, að fastar reglur um þetta efni hafa ekki verið settar. Í bréfi háskólarektors, sem getið var í upphafi, segir m.a. svo um þetta atriði:

„Mjög erfitt er að hafa nákvæmt eftirlit með því, hvernig rannsóknaskyldu prófessora er fullnægt, enda getur það verið nokkuð breytilegt frá deild til deildar, ári til árs og manni til manns, hve miklum tíma er varið til kennslu og rannsókna og stjórnunarstarfa hvers um sig. Í nóv. s.l. samþykkti háskólaráð reglur um atvinnuskyldu fastra kennara. Til er prentuð skrá um rit háskólakennara frá upphafi til og með ársins 1965, og enn fremur liggur nú fyrir í próförk samsvarandi skrá fyrir árin 1966–1970.“

Til viðbótar þessu skal vitnað til svars við hliðstæðri fsp. frá sama hv. þm. á Alþ. 1972. Þar var á það bent, að þótt ekki væru almenn ákvæði um skýrsluskil, kæmi að sjálfsögðu fram með ýmsum hætti grg, um árangur af vísindastörfum, sem unnin væru af starfsmönnum háskólans, auk þeirra upplýsinga, sem felast í skrá um rit háskólakennara. Bent var á, að það færist í vöxt, að rannsóknastörfum háskólakennara væri fenginn skipulagslegur grundvöllur með því að koma á fót sérstökum rannsóknastofnunum á afmörkuðum fræðasviðum innan háskóladeildanna eða í tengslum við þær. Fengist með því móti gleggri yfirsýn, þar sem unnt væri að fella rannsóknaverkefni einstakra kennara inn í skipulag starfsáætlun viðkomandi stofnunar. Slíkar starfsáætlanir væru lagðar til grunvallar við undirbúning fjárveitingatillagna og væri þá eðlilegt, að jafnframt lægi fyrir grg, um starfsemina á næsta fjárhagstímabili á undan.

Hvað snertir greinargerðir einstakra prófessora, þá er þar um að ræða viðamikil gögn, sem ekki er kostur á að rekja tæmandi í þessu svari. Hins vegar skal tekið fram, að fyrirspyrjanda er að sjálfsögðu heimill aðgangur að gögnum þeim, sem svarið er byggt á, en þau eru varðveitt í menntmrn. Í upptalningu eru prófessorar flokkaðir eftir háskóladeildum, sem þeir voru skipaðir við, en innan hverrar deildar að mestu raðað eftir skipunartíma. Þá kemur fyrst að læknadeild.

Dr. Tómas Helgason prófessor í geðlæknisfræðum, skipaður 1, ágúst 1961, sendi skrá um ritsmíðar sínar, þar sem fyrst eru taldar ritgerðir um eigin rannsóknir, 27 að tölu, síðan yfirlitsgreinar að nokkru byggðar á eigin rannsóknum, 17 talsins, og loks greinar og skýrslur, er fjalla um menntun lækna o.fl., 20 talsins. Í svari sínu tekur hann fram, að hann hafi haft umsjón með rannsóknum ýmissa starfsmanna sinna við Kleppsspítalann, og getur 17 skýrslna, sem birtar hafa verið um slíkar rannsóknir. Þá telur hann og upp 11 rannsóknaverkefni, sem hann kveðst nú vinna að, eftir því sem tími og takmarkaðar fjárveitingar leyfi.

Dr. Jóhann Axelsson prófessor í lífeðlisfræði, skipaður í embætti 1965, sendir skrá um 37 ritgerðir, sem hann hefur birt í erlendum vísindatímaritum, þar af 19 frá ársbyrjun 1965. Í svarbréfi hans segir m.a.: „Fyrstu árin eftir heimkomu mína til Íslands voru: skilyrði hér á landi til rannsóknastarfa engin. Hin vísindalega vinna var kostuð af erlendum aðilum. Tilraunavinnan var öll unnin erlendis í sumarfríum mínum og skriftirnar að kvöld- og næturlagi. Annar tími vannst ekki til ranasóknastarfa, þar eð byggja þurfti upp frá grunni kennslu í lífeðlisfræði, bæði í læknadeild og í verkfræði- og raunvísindadeild.“

Prófessorinn kveður aðstöðu til rannsókna í greininni hafa batnað hin síðari ár vegna aukins kennaraliðs og fjárveitingar til tækjakaupa.

Dr. Ólafur Bjarnason prófessor í meina- og sýklafræði, skipaður 1966, sendir skrá um ritstörf sín, frá því að hann var settur til að gegna prófessorsembætti 1974. Er þar getið 26 ritgerða, sem birst hafa í fræðiritum, auk ritstjórnaraðildar að þremur ritum. Prófessorinn getur þess, að hann hafi frá upphafi jafnframt gegnt forstöðumannsstarfi Rannsóknarstofu Háskólans í meina- og sýklafræði og tekið þátt í daglegum þjónusturannsóknum í meinafræði og réttarlæknisfræði auk sérrannsókna á sviði sjúkdómafræði. Á sama tíma hafi hann haft umsjón með krabbameinsskráningu hér á landi á vegum Krabbameinsfélags Íslands, auk þess sem stofnunin hafi í samvinnu við erfðafræðinefnd háskólans unnið að margvíslegum erfðafræðilegum rannsóknum. Dr. Gísli Fr. Petersen prófessor í geislalæknisfræði, skipaður árið 1967, getur rannsókna sinna á lungnakrabbameini hérlendis og röntgengreiningu sjúkdómsins, en um þetta rannsóknarefni hefur hann birt ritgerðir í erlendum læknisfræðiritum og flutt fyrirlestra á norrænu læknaþingi.

Dr. Þorkell Jóhannesson prófessor í lyfjafræði, skipaður 1968, sendi sérprentun af 7 ritgerðum, sem birst hafa í læknis- og lyfjafræðiritum, en getur jafnframt um doktorsritgerð og aðra ritgerð, sem sérprentanir eru þrotnar af.

Kristbjörn Tryggvason prófessor í barnalæknisfræði, skipaður haustið 1970, segist ekki hafa birt neitt um rannsóknastörf sín, enda engum rannsóknum að fullu lokið, en getur þess, að hann hafi fengið lausn frá störfum frá 1. sept. n.k., og kveðst hafa í hyggju að halda áfram rannsóknastörfum, sem hann hefur verið að fást við, eftir því sem aðstæður leyfa.

Dr. Hannes Blöndal prófessor í líffræði, var skipaður í embætti í ársbyrjun 1970, en hafði leyfi frá störfum til vors 1972. Hann segir m.a. svo í bréfi sínu til rektors:

„Þegar ég kom til starfa við Háskóla Íslands, var hvorki til nothæft húsnæði til líffræðikennslu né tækjakostur til rannsókna í greininni. Síðan hefur nokkuð miðað í átt til úrbóta, en langt virðist þó í land, að viðunandi rannsóknaraðstaða fáist. Það er tvennt, sem aðallega veldur erfiðleikum í þessum efnum, það er skortur á tækjakosti og starfsliði. Fyrr en úr þessu er bætt, er varla að vænta rannsóknavinnu á sviði líffærafræði við Háskóla Íslands.“

Þess ber að gæta, að með hinni stórfelldu fjölgun stúdenta, sem innritast hafa í læknadeild á síðustu árum, hefur kennslan í líffærafræði orðið ein sú umfangsmesta, sem fram fer í háskólanum, og hefur endurskipulagning hennar og uppbygging við nýjar aðstæður að sjálfsögðu mjög hvílt á prófessornum í greininni.

Með prófessorum í læknadeild verður talinn dr. Steingrímur Baldursson prófessor í efnafræði, en embætti hans var á yfirstandandi háskólaári flutt úr læknadeild í verkfræði- og raunvísindadeild. Hann var skipaður prófessor í læknadeild haustið 1960, og er grg. hans miðuð við þann tíma, er hann starfaði sem prófessor í þeirri deild. Í svari sínu gerði hann grein fyrir heildarstörfum sínum við háskólann á þessu tímabili. Hann var fyrst eini kennarinn í efnafræði í læknadeild og þurfti þá að annast mun meiri kennslu en tíðkast hefur að krefjast af háskólakennurum. Með auknum stúdentafjölda jókst mjög innritun í deildina eða úr 40–50 fyrstu árin í 170 haustið 1972 og þar með að sjálfsögðu umfang þeirrar kennslu, sem prófessorinn hafði umsjón með. Hann endurskipulagði verklega kennslu í greininni og tók saman nýtt kennsluefni í því skyni. Þá getur hann og starfa sinna í sambandi við hönnun nýs húsnæðis við verklega efnafræði og efnafræðirannsóknir, og meðal sérstakra stjórnunarstarfa má nefna, að hann veitti forstöðu rannsóknastofu í efnafræði við Raunvísindastofnun háskólans um fjögurra ára skeið.

Um rannsóknastörf tekur hann fram m.a., að hann hafi fengist við fræðilegar rannsóknir í tölfræðilegri varmafræði og skammtafræði og í því sambandi dvalist tvö sumur í vísindastofnun í Uppsölum. Þá hafði hann og að sjálfsögðu fylgst með þeim rannsóknum, er fóru fram í rannsóknastofu í efnafræði í Raunvísindastofnun háskólans, meðan hann gegndi þar störfum. Í lok grg, sinnar segir prófessorinn:

„Er ég lít til baka, verður mér efst í huga hin ævintýralega uppbygging, sem átt hefur sér stað á þessu tímabili. Þegar ég hóf kennslu, var aðeins til ein lítil, ófullkomin og vanbúin kennslustofa fyrir verklega efnafræði. Nú er Raunvísindastofnun háskólans risin frá grunni með góðum rannsóknastofum. Auk þess á háskólinn nýtt og glæsilegt hús með vel búnum kennslustofum fyrir verklega efnafræði. Á s.l. vori voru líka útskrifaðir fyrstu nemendurnir með BS-gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands. Það hefur óneitanlega verið ánægjulegt að eiga þess kost að leggja hönd á plóginn við þessa uppbyggingu, en það hefur tekið ómældan tíma. Það er trú mín og sannfæring, að þeim tíma og fjármunum, sem varið er til eflingar raunvísinda á Íslandi, sé ekki á glæ kastað.“

Næst er lagadeild. Þór Vilhjálmsson prófessor í lögfræði, skipaður í embætti 1967, getur fyrst rannsókna og ritsmíða, sem tengdar eru aðalkennslugreinum hans í lagadeildinni. Á sviði réttarfars kveðst hann síðan 1970 hafa unnið að kennslubók í einkamálaréttarfari og rannsakað ýmis atriði þess og séu komin út þrjú hefti af kennslubókinni. Hann kveðst og hafa rannsakað ýmis önnur atriði um réttarfar en kennslubókin tekur til og telur fram yfirlit um íslenska dómstóla, ætlað erlendum lagamönnum. Á sviði réttarfélagsfræði er getið tveggja ritgerða, svo og nýhafinna rannsóknar á aðild og málsefni hæstaréttardóma. Í réttarsögu hafa birst tvær ritgerðir. En niðurstöður tveggja rannsókna eru óprentaðar. Þá hefur prófessorinn samið tvær ritgerðir á sviði stjórnskipunarréttar og vinnur að greinargerð um mannréttindi hér á landi fyrir finnska stofnun. Loks eru taldar fimm fræðiritgerðir, er varða efni utan framangreindrar kennslu- og rannsóknasviðs.

Einar Bjarnason prófessor í ættfræði, skipaður árið 1969, telur rannsóknastörf sín einkum hafa beinst að ættum íslensku miðaldanna og hafi árangur rannsóknarinnar einkum komið fram í ritinu íslenskir ættstuðlar í tveim bindum á vegum Sögufélagsins, en einnig í ritgerðum í ýmsum tímaritum, t.d. tímaritinu Sögu. Auk þess hafi hann sérstaklega rannsakað niðjatalfrá 17. öld.

Gaukur Jörundsson prófessor í lögfræði, skipaður haustið 1969, nefnir meðal rita sinna bók um eignarnám og rit um veðréttindi. Hann getur og ýmissa ritgerða, sem varða mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, en kveður störf sín að undanförnu að öðru leyti hafa verið fyrst og fremst á sviði eignarréttar og hafi ritum um það efni verið dreift.

Nú gefur forseti mér merki, en ég vil aðeins fá að skýra frá því, herra forseti, að að sjálfsögðu liggur meira efni fyrir, og verður það rakið, eftir því sem tilefni gefst til, ef hv. fyrirspyrjandi óskar.