23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3847 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

301. mál, rannsóknarstörf prófessora

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég mun eftir því sem þingsköp leyfa leitast við að svala forvitni hv.fyrirspyrjanda og annarra þm. Haldið er áfram með prófessora í lagadeild.

Jónatan Þórmundsson prófessor í lögfræði, skipaður 1970, minnir í bréfi sínu á grg. þá, er hann samdi í árslok 1972 að tilmælum háskólaráðs og send var Alþ. og fjölmiðlum í tilefni af fsp. á Alþ., er varðaði störf prófessora. Rannsóknir mínar, frá því að hann tók við prófessorsstarfi, segir hann að langmestu leyti hafa verið tengdar kennslugreinum hans, en hann hefur allt tímabilið verið umsjónarkennari í refsirétti og á þessu ári tekið við umsjón með tveim nýjum kjörgreinum, afbrotafræði og skattarétti. Prófessorinn getur 13 ritgerða og greinargerða, sem út hafa komið á umræddu tímabili, auk allmargra fræðilegra greinargerða fyrir stjórnvöld og Alþ. á sviði lögfræði. Svo nefnir hann fjögur rit og ritgerðir, sem hann vinnur að um þessar mundir og birtast munu á næstu misserum. Vegna 2. liðar fsp. vísar prófessorinn annars vegar til ritaskrár háskólakennara, en hins vegar til reglugerðar, sem lögð hafi verið fyrir menntmrn. um lagastofnun háskólans ásamt grg. Stofnun þessari er ætlað að vera vettvangur fyrir rannsóknastörf við lagadeild, stuðla að eflingu þeirra og traustara skipulagi.

Næst er viðskiptadeild. Guðlaugur Þorvaldsson prófessor var skipaður í embætti 1967. Hann hafði þá frá árinu 1962 verið settur prófessor á hálfum launum við deildina og þar áður settur prófessor á fullu starfi eitt ár. Grg. hans tekur til alls þessa tímabils. Fram til 1966 var aðalstarf hans í Hagstofu Íslands, en 1966–1967 gegndi hann störfum ráðuneytisstjóra í fjmrn. Hann kveðst framan af þessum árum hafa kynnt sér sérstaklega gerð fjárlaga og ríkisreiknings, tilhögun ríkisbókhalds, greiðslujafnaðarhugmyndir og hafa skilað um þau mál álitsgerð. Telur hann störf sín að þessum málum 1960–1964 að langmestu leyti hafa verið ólaunuð rannsóknastörf. Þá getur hann og starfsins að samningu tölfræðihandbókar, sem gefin var út á vegum Hagstofunnar. Eftir að hann var skipaður prófessor í viðskiptadeild 1967, voru aðalkennslugreinar hans fyrstu árin almenn rekstrarhagfræði, hagrannsóknir og almenn landafræði og síðari árin almenn stjórnun og opinber stjórnsýsla ásamt íslenskri haglýsingu. Segir svo í grg. prófessorsins: „Á þessu tímabili óx viðskiptadeildin mjög og stjórnunarverkefni við deildina og skólann yfirleitt hlóðust mjög á mig, kannske meira en góðu hófi gegndi, svo að ég hef lítt getað sinnt sjálfstæðum rannsóknaverkefnum í greinum mínum, en óbeint tel míg hafa sinnt rannsóknakvöðinni, og verður gerð grein fyrir því hér á eftir.“

Prófessorinn rekur síðan margháttuð verkefni, sem hann hefur sinnt í þágu háskólans á þessu tímabili auk kennslunnar í viðskiptadeild, m.a. að undirbúningi nýrrar reglugerðar við viðskiptadeild og umfangsmikilla nefnda- og stjórnunarstarfa, allt þar til hann var kjörinn háskólarektor haustið 1973 og var þá jafnframt leystur frá skyldustörfum í deildinni. Hann hafði starfað að undirbúningi kennslubókar í íslenskri haglýsingu og almennri stjórnun, en hefur orðið að leggja þau verkefni til hliðar, meðan bann gegnir rektorsstörfum. Þá getur prófessorinn nokkurra sérfræðilegra verkefna, sem hann hefur á umræddu tímabili sinnt á vegum stjórnvalda, og telur sig hafa styrkt sig í kennslustarfi, þar eð þau varða fræðisvið hans.

Dr. Guðmundur Magnússon var skipaður prófessor í viðskiptadeild 1968. í grg. um rannsóknastörf sín skiptir hann verkunum í þrennt:

1. Meiri háttar fræðileg verkefni án beinna tengsla við kennslu hverju sinni. Telur hann þar 4 verkefni, m.a. doktorsritgerð, sem lögð var fram 1969.

2. Minni háttar rannsóknaverkefni í tengslum við fyrirlestra innan háskólans og fyrirlestrahald utan hans. Eru þau 18 talsins og grg. ýmist prentaðar, fjölritaðar eða í handriti.

3. Verkefni frá aðilum utan háskólans talin í 16 liðum, en um meiri hl. þeirra liggja grg. fyrir prentaðar eða með öðrum hætti, en í sumum tilvikum er athugunum ólokið.

Árni Vilhjálmsson prófessor í viðskiptadeild var skipaður í embætti 1961. Hann getur þess í svari sínu, að fyrstu 6–7 árin hafi hann verið annar tveggja manna, sem höfðu störf í þágu viðskiptadeildar að aðalstarfi, og hafi hann því litið á það sem meginskyldu sína að sinna kennsluundirbúningi. Nokkur undirbúningur feli í sér þá sérstöku tegund rannsókna, sem er í staðfærslu erlendra rannsóknaniðurstaðna og að lögun þeirra að íslenskum aðstæðum. Á síðari árum hafi gefist tækifæri til að vinna skipulega að mótun efnis í sérstök kennslurit, sem ættu að verða útgáfuhæf á næstu missirum. Er þar um að ræða rit um fjármálastjórn fyrirtækja, reikningsskilafræði og stefnumótun fyrirtækja. Af ritsmiðum, sem birst hafa og tengdar eru kennslusviði prófessorsins, nefnir hann rit um fjármálastjórn fyrirtækja og nokkrar prentaðar eða fjölritaðar greinar, er varða rekstrarhagfræði. Þá getur prófessorinn ýmissa rannsókna, er hann hefur tekist á hendur einn eða ásamt öðrum, aðallega á vegum opinberra aðila, og birt hefur verið grg. um.

Þá er heimspekideild. Þórhallur Vilmundarson prófessor í sagnfræði, skipaður í embætti 1961, tekur fram, að athuganir hans á umræddu tímabili hafi einkum beinst að íslenskum og germönskum örnefnum. Að öðru leyti vísar hann til skrár um rit háskólakennara.

Dr. Bjarni Guðnason prófessor í bókmenntum var skipaður í embætti 1963, en hefur haft leyfi frá störfum s.l. tvö ár. Í svari hans er tekið fram, að rannsóknastörf séu vítt hugtak, og ef í því felist öll þau rannsóknastörf, sem hann hafi unnið að á árunum 1963–1970, án tillits til þess, hvort þeirra sjáist stað á prenti eða ekki, þá yrði of langt mál að rekja það út í hörgul af þessu tilefni. Sé hins vegar átt við rit, ritsmíðar og greinarkorn, sem birst hafa á prenti, megi vísa í skrá um rit háskólakennara. Að vísu mun rit þetta ekki hafa birst á prenti yfir tímabilið 1965–1970, en það mun liggja fyrir í próförk og ætti að vera tiltækt.

Ólafur Hansson prófessor í sagnfræði var skipaður í embætti 1967. Hann kveðst á undanförnum 7 árum hafa fengist við rannsóknir á íslenskri landbúnaðarsögu á tímabilinu 1200–1550. Þá hafi hann og að nokkru fengist við að kanna, hvaða samband sé á milli eldri skiptingar Íslendinga í stjórnmálaflokka, þegar deilurnar snerust einkum um sambandið við Dani, og hinar yngri flokkaskiptingar, þegar menn fara meira en áður að skiptast í stjórnmálaflokka eftir stéttum. Eigi það enn langt í land, að unnt sé að gefa út heildarniðurstöður þessarar rannsóknar.

Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor í íslenskum bókmenntum var skipaður í embætti árið 1970, en hann hafði áður gegnt lektorsstarfi við háskólann frá 1968. Hann getur rita og ritgerða, sem út hafa komið eftir hann á þeim árum, er hann hefur starfað við háskólann, og er þar um að ræða samtals 22 ritsmiðar, þar af 4 frá árunum fyrir 1970. Auk þess hefur prófessorinn annast útgáfu og ritstjórn 5 rita á þessu tímabili og á sæti í ritstjórn tveggja fræðirita. Þá getur hann fjögurra minni háttar rannsókna í ritgerðum, sem munu birtast á þessu ári, og loks nefnir hann umfangsmikið rannsóknaverkefni úr íslenskum bókmenntum, er hann vinnur að og segir, að muni vera efni í allmikið rit.

Loks er verkfræði- og raunvísindadeild. Magnús Magnússon prófessor í eðlisfræði er skipaður í embætti 1960. Í grg. sinni tekur hann fram, að haustið 1960 hafi verið mjög takmörkuð aðstaða við Háskóla Íslands að sinna rannsóknastarfi í eðlisfræði og skyldum greinum. Eitt fyrsta verkefnið hafi því verið að vinna að undirbúningi rannsóknastofnunar á sviði stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og jarðeðlisfræði. Átti Magnús sæti í undirbúningsnefnd slíkrar stofnunar, Raunvísindastofnunar Háskólans, sem tók til starfa sumarið 1966, og hefur verið forstjóri hennar síðan. Hann átti og hlut að undirbúnings- og skipulagsstarfi vegna Reiknistofnunar háskólans, sem tók til starfa í árslok 1964, og var forstöðumaður hennar til ársloka 1971, er hún var lögð niður sem sjálfstæð stofnun og gerð að reiknistofu Raunvísindastofnunar háskólans.

Meðal eigin rannsóknastarfa nefnir prófessorinn rannsóknir á almennri afstæðiskenningu Einsteins, svo og störf að hagnýtingu rafreikna við ýmis verkefni.

Loftur Þorsteinsson prófessor í byggingaverkfræði er skipaður í embætti árið 1962. Í grg. hans segir m.a., að með hliðsjón af þeim vandkvæðum, sem fylgja því að skipta háskólastarfi í frjálsar rannsóknir annars vegar og annað starf hins vegar, hafi prófessorinn tekið þann kost að gera grein fyrir starfi sínu við Háskóla Íslands. Vísaði hann síðar til grg. til verkfræðiskorar á s.l. ári um störf sín við háskólann frá 1972–1973. Telur hann það háskólaár geta talist dæmigert um störf sín, en samkv. grg. sundurliðast árlegt starf þannig:

Kennsla og próf 1222 stundir eða 66.7% af árlegri vinnuskyldu, 1832 stundum. Stjórnun og umsjón 275 stundir eða 15% af árlegri vinnuskyldu. Nefndarstörf 220 stundir eða 12% árlegrar vinnuskyldu. Frjálsar rannsóknir 555 stundir eða 30,3% árlegrar vinnuskyldu. Samtals 2272 vinnustundir eða 124% miðað við árlega vinnuskyldu.

Tekið er fram, að í liðnum um frjálsar rannsóknir séu 405 stundir hluti af undirbúningsstarfi við kennslu, en 150 stundir vinna við útgáfu fyrirlestra. Fram kemur, að gefin hafi verið út 11 fjölprentuð hefti með útdráttum úr fyrirlestrum.

Dr. Sigurður Þórarinsson prófessor í jarðfræði og landafræði var skipaður í embætti árið 1969, en hafði verið settur prófessor frá hausti 1968. Í grg. hans segir m.a.:

„Þegar ég var settur prófessor í jarðfræði og landafræði, hafði jarðfræði ekki verið kennd áður við Háskóla Íslands, og varð því að byggja kennsluna og deildina frá grunni. Það er talsvert annað að taka við kennslu og forstöðu á þann hátt en að koma í stofnun, sem starfað hefur áður. Stöðunni hefur fylgt staða forstöðumanns jarðvísindadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og allmikið af nefndarstörfum, þar eð ég hef verið eini fasti kennarinn í jarðfræði öll þessi ár og fyrstu árin einnig eini fasti kennarinn í landafræði.“

Grg. fylgir skrá um ritstörf prófessorsins á umræddu tímabili. Er þar getið 31 greinar og ritgerðar, sem birst hafa í ýmsum ritum, en um 11 þeirra tekur höfundur fram, að þær geti ekki talist til vísindaskrifa. Þá eru taldar 5 bækur, sem út eru komnar eða tilbúnar til prentunar.

Dr. Guðmundur Eggertsson prófessor í líffræði var skipaður í embætti 1970, en hafði verið settur prófessor frá hausti 1969. Hann kveðst á árunum 1969–1973 hafa unnið að rannsóknum, sem miða að því að auka skilning á því, hvernig varið sé stjórn erfðaefnis á gerð og starfsemi þess efnakerfis, sem starfar að myndun eggjahvítuefna. Sendir hann ítarlegar greinargerðir um framkvæmd þessarar rannsóknar, sem fram hefur farið við Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum, m.a. með atbeina styrkja frá erlendum vísindastofnunum.

Dr. Sigmundur Guðbjarnason prófessor í efnafræði var skipaður í embætti 1970. Í skýrslu hans um rannsóknastörf á tímabilinu 1970–1974 er gerð grein fyrir 5 meiri háttar rannsóknaverkefnum, sem unnið er að um þessar mundir og varða m.a. áhrif tiltekinna efnaskipta á líkamsstarfsemi, svo og möguleika á efnavinnslu á lífrænum efnum úr innyflum fiska og dýra. Í skrá um ritstörf eru taldar um 30 ritsmíðar, sem prófessorinn er höfundur að, einn eða með öðrum, og fylgir yfirlit um 16 vísindafyrirlestra, sem prófessorinn hefur flutt á þessu tímabili víða um heim. Loks er getið ýmissa annarra verkefna og sérfræðistarfa og drepið á það umfangsmikla verk að sjá um uppbyggingu kennslu í efnafræði til BS-prófs og fyrrihlutaprófs í efnaverkfræði. Þess má geta, að dr. Sigmundur hefur undanfarin ár haft á hendi forstöðu rannsóknastofu í efnafræði við Raunvísindastofnun háskólans.

Dr. Guðmundur Björnsson prófessor í vélaverkfræði, var skipaður í embætti 1970. Í grg. sinni veitir hann sundurliðað yfirlit um störf sín við Háskóla Íslands hvert skólaár frá þeim tíma. Háskólaárið 1972–1973 var skiptingin samkvæmt yfirlitinu þannig:

Kennsla og próf 1000 klst. eða 54,6% af árlegri vinnuskyldu, fræðilegar rannsóknir og ritstörf 600 stundir eða 32,8% árlegrar vinnuskyldu og stjórnunar- og nefndarstörf 621 klst. eða 33.9% af árlegri vinnuskyldu. Það ár tóku störfin því alls 2221 klst. eða 121.3% árlegrar vinnuskyldu, en að meðaltali hafa árleg heildarstörf prófessorsins á þessu tímabili verið um 116% af vinnuskyldu, sem er 1832 stundir á ári. Rannsóknastörf hafa numið að meðaltali um 27.4% af árlegri vinnuskyldu, en prófessorinn tekur fram, að ekki verði dregin skýr mörk milli kennslustarfsins annars vegar og rannsóknastarfsins hins vegar. Óhjákvæmilegur hluti háskólakennslu sé fræðileg rannsókn og könnun heimilda, ritun og frágangur kennsluefnis til útgáfu. Hafi því hluti heildarvinnu við kennsluundirbúning verið talinn til rannsókna auk beinnar vinnu að útgáfu kennsluefnis og fyrirlestra. Getið er þriggja kennslurita, sem prófessorinn hefur samið og gefin hafa verið út fjölrituð á tímabilinu.

Er þá farið yfir svör prófessora, og vona ég, að hv. fyrirspyrjandi sé nokkru fróðari.