23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3856 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

423. mál, veiting prófessorsembættis við læknadeild Háskóla Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 3. þm. Reykn. er svolátandi:

Prófessorsembættið í handlækningafræði við læknadeild Háskóla Íslands var auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingahlaði nr. 54 1973 með auglýsingu dags. 17. júlí 1973, og var umsóknarfrestur til 18. ágúst. Hafði háskólarektor með bréfi 9. júlí í samræmi við ályktun læknadeildar 27, júní 1973 óskað eftir, að embættið yrði auglýst. Sex umsóknir bárust um prófessorsembættið, en einn umsækjanda tók síðan aftur umsókn sína. Eru því um embættið eftirtaldir 5 umsækjendur: dr. med. Friðrik Einarsson yfirlæknir, dr. med. Frosti Sigurjónsson, Gauti Arnþórsson yfirlæknir, Gunnar H. Gunnlaugsson læknir og Hjalti Þórarinsson yfirlæknir.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 1973, skýrði menntmrn. háskólarektor frá umsóknum og óskaði eftir tilnefningum af hálfu læknadeildar og háskálaráðs í dómnefnd um hæfni umsækjenda til að gegna prófessorsembættinu. Samkv. 11. gr. l. nr. 84 frá 1970 um Háskóla Íslands skulu í dómnefndinni eiga sæti þrír menn: einn skipaður af háskólaráði, annar af menntmrh., en hinn þriðji af viðkomandi háskóladeild, og er hann formaður n. Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það, hvort af vísindagildi rita umsækjanda og rannsókna svo og námsferli hans og störfum megi ráða, að hann sé hæfur til að gegna embættinu.

Tilnefning fulltrúa í dómnefndina af hálfu háskólaráðs og læknadeildar var tilkynnt menntmrn. með:. bréfi háskólaritara 11. jan. 1974. Af hálfu læknadeildar sem form. n. var tilnefndur Niels Helgsingen prófessor við Centralsykhuset í Akershus í Noregi og af hálfu háskólaráðs A.P.N. Forrest, prófessor við læknadeild Edinborgarháskóla.

Með bréfi, dags. 12. febr. 1974, tilkynnti menntmrn. háskólarektor, að það hefði farið þess á leit við dr. med. Bjarna Jónsson yfirlækni, að hann tæki sæti í dómnefndinni af þess hálfu, og hefði dr. Bjarni tjáð sig reiðubúinn að verða við þeim tilmælum. Jafnframt vakti rn. athygli á, að eins og skipun dómnefndar væri ráðgerð, væru fyrirsjáanleg talsverð vandkvæði af þeim sökum, að verulegur hluti umsóknargagna er ritaður á íslensku eða öðrum Norðurlandamálum og því tæpast aðgengilegur öllum dómnefndarmönnum í óbreyttri mynd. Taldi rn. æskilegt, að áður en formlega yrði gengið frá skipun dómnefndar, yrði tekin afstaða til, hversu bregðast skyldi við þessum vanda. Voru jafnframt lagðar fram af hálfu rn. till. um tilhögun í þessu efni, sem miðaðar voru við þann hátt, er áður hafði verið hefur á um meðferð umsókna um prófessorsembætti við svipaðar aðstæður. Samkv. því skyldi m.a. þýða umsóknir sjálfar og prófskírteini, eftir því sem nauðsyn krefði, en auk þess skyldi umsækjendum gefinn kostur á því, að tiltekinn hluti annarra fylgigagna eða útdráttur úr þeim yrði þýddur á ensku eða annað erlent mál, sem allir dómnefndarmenn skilja.

Með bréfi deildarforseta læknadeildar, dags. 1. apríl s.l., var tilkynnt, að læknadeild gæti fallist á þá tilhögun, sem ráð væri fyrir gert í till. rn. Í framhaldi af því hefur nú verið gengið formlega frá skipun dómnefndar og undirbúningsráðstafanir gerðar varðandi þá meðferð umsóknargagna, sem er rakin. Ljóst er, að þau vandkvæði sem að framan hefur verið lýst, hljóta að tefja nokkuð störf dómnefndar, þótt rn. muni fyrir sitt leyti hlutast til um, að framangreindur undirbúningur taki sem skemmstan tíma. Þegar álitsgerð dómnefndar liggur fyrir, ber lögum samkv. að leita álits læknadeildar, áður en prófessorsembættið verði veitt.