23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3857 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

423. mál, veiting prófessorsembættis við læknadeild Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. hans ítarlegu svör. Kemur í ljós, að það hefur tekið langan tíma að undirbúa þessi mál, og vafalaust mun líða alllangur tími enn, þar til því er lokið. Það er í raun og veru merkilegt, hvað það vefst fyrir svo lærðum og þjálfuðum aðilum að ganga frá þessu máli. En mér virðist augljóst, að þær tafir, sem verða á þessu, koma ekki eingöngu illa við háskólann og hans starfsemi og Landsspítalann, heldur sé þetta mjög erfitt fyrir 4–5 umsækjendur. Þeir geta ekki ráðstafað sinni framtíð, enginn veit, hver starfið fær, og þess vegna hlýtur það að vera mjög erfitt fyrir þá að verða að bíða óhæfilega lengi eða mjög lengi eftir ákvörðun. En það er sýnilegt, að skriður er nú kominn á málið, og er því vonandi, að það verði afgreitt innan hæfilegs tíma.