23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3857 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

428. mál, viðskilnaður mannvirkja á Heiðarfjalli á Langanesi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Heiðarfjall á Langanesi er stakt fjall, sem rís um 200 m yfir sléttlendi á nesinu. Það er um 20 km fyrir norðan Þórshöfn á Langanesi, og þaðan eru aðrir 20 km út á Langanesfont, sem er einn af nyrstu punktum landsins, eins og kunnugt er. Heiðarfjall væri ekki svo frábrugðið eða merkilegra öðrum slíkum fjöllum, ef það lægi ekki svona norðarlega á þessum norðlæga landshluta. Það er raunar norður í Dumbshafi sjálfu. Standi maður á kolli fjalls, er Norðuríshafið við fætur manns á báða vegu. Þarna getur, þegar gott skyggni er, að líta óvenjufagra útsýn. Þaðan sér um óravegu austur á Austfjarðafjöll, Dyrfjöll og fjöll Borgarfjarðar eystri, og í vestri er Melrakkaslétta, og sér allt vestur á fjöllin við Skjálfandaflóa.

Það hefur sjálfsagt verið vegna þessarar legu fjallsins, sem bandaríska varnarliðið kom sér þarna upp allmikilli stöð, varnarstöð eða eftirlitsstöð, hvað sem það hefur verið kallað á máli herfræðinga, það veit ég ekki svo gjörla, en hún lagði undir sig allan topp fjallsins. Þarna voru settir upp margs konar skermar til móttöku og sendinga, og virðist þarna hafa verið um allumfangsmiklar byggingar að ræða. Þetta virðist einhvern tíma hafa verið mikilvægur punktur í svonefndu varnarkerfi vestrænna þjóða. En hvað svo sem hefur valdið því, að fjallið tapaði þessari „strategísku“ stöðu sinni, þá fór það svo, að varnarliðsmenn öxluðu skinn sin fyrir einum 4 árum og yfirgáfu fjallið.

En mannvirkin stóðu þarna fyrst auð og yfirgefin. Síðan hafa þau að hluta til verið rifin. Að um það bil 4 árum liðnum er viðskilnaðurinn á þessum stað slíkur, að það er virkilega erfitt að finna orð, sem lýsa honum, svo óhrjálegt er þar um að litast. Þarna eru byggingar, sumar nær heilar, en flestar á nær öllum mögulegum stigum niðurrifs og allt niður í það að vera auðir eða nær auðir grunnar. Allt er fullt af braki. Brakið flóir bókstaflega talað út af fjallinu. Þarna eru stórir skermar, sem gnæfa eins og finngálkn yfir umhverfið. Það eru nokkur möstur meira eða minna niðurrifin. Þá mun þar vera eitt sjónvarpsmastur, og er það það eina, sem ég veit til, að þjóni þarna nokkrum tilgangi. Þarna eru strengjasteypubútar og alls konar byggingareiningar, þar eru katlar og geymar, alls konar járnadrasl. Allt er þetta með mestu firnum, þegar maður kemur í annars óspillta náttúru, sem þarna er. Kunnugir telja, að það muni kosta milljónir að ganga frá þessu á sómasamlegan hátt. Allt þetta er í hrópandi ósamræmi við umhverfið, sem væri ákaflega fagurt og er eftirsóttur útsýnisstaður, því að nú er vegur upp á fjallið.

Því spyrja menn, sem þarna koma: Hverjir eiga þessi mannvirki eða minnismerki? Hverjir eiga sér þarna þessi minnismerki? Hverjir geta verið þekktir fyrir þennan frágang? Og það er af þessu tilefni, sem ég hef leyft mér á þskj. 720 að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh. með leyfi forseta:

„Hvernig var háttað viðskilnaði bandaríska varnarliðsins við mannvirki á Heiðarfjalli á Langanesi, og á hvers eða hverra ábyrgð eru mannvirki og mannvirkjaleifar, sem þar eru enn ?“