23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3859 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

428. mál, viðskilnaður mannvirkja á Heiðarfjalli á Langanesi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og tel fsp. minni fullkomlega svarað og ekki nein tvímæli á því lengur, hver ber ábyrgð á þessum hlutum þarna Ábyrgðin er íslenskra aðila, Sölu varnarliðseigna. En það breytir engu um það, að þetta er gjörsamlega óforsvaranlegt. Það er ósæmandi frágangur á þessum hlutum. Héraðsmenn líða virkilega önn fyrir þetta, og ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. utanrrh., að hann beiti sér fyrir því, að hlutaðeigandi aðilar, sem bera á þessu ábyrgð, láti þarna gera hreint fyrir sínum dyrum. Einnig mætti minna á það, að það mun vera nokkuð óljóst með uppgjör við landeigendur á þessum stað. Landeigendur hafa neitað að taka við landinu úr leigu með slíkum ummerkjum eins og það er nú, og er það mjög skiljanlegt.