23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

426. mál, kaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv, ráðh, fyrir skýr svör við fsp. minni, og það er gott að hafa þessar upplýsingar. Mér er kunnugt um, að það hafði verið ásakað eftir þessum upplýsingum hjá Seðlabankanum, en viðkomandi verið tjáð, að það væri ekki hægt að gefa slíkar upplýsingar, sem er furðulegt í sjálfu sér. En fyrir þetta hefur verið bætt hér.

Ég skal ekki fara út í skiptingu á milli ríkisfyrirtækja, samvinnufyrirtækja og einkafyrirtækja, sem fram kemur í þessum upplýsingum hæstv. ráðh. Ég skal ekki gera það hér sérstaklega að umræðuefni. En ég vil vekja athygli á því, eins og ég raunar gat um áðan, hvað það er lítill hluti af hinum endurseldu víxlum frá Iðnaðarbankanum, banka iðnaðarins, þeim banka, sem flestir iðnrekendur í smáiðnaðinum, þjónustuiðnaðinum og handverksmenn skipta við. Það gefur til kynna, að gengið sé á hlut einkafyrirtækjanna í þessu efni. Ég vil þó ekki fullyrða það, ég hygg, að það þurfi að kryfja þetta mál betur til mergjar. Ég spyr t.d. hæstv. ráðh., hvort í þeim tölum, sem eru gefnar upp sem endurkaup á rekstrarvíxlum einkafyrirtækja, séu meðtaldir t.d. víxlar Álafoss, sem að forminu til er einkafyrirtæki, en í raun og veru er ríkisfyrirtæki. Og svona mætti nefna frekari dæmi. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að leggja áherslu á það, hve hlutur iðnaðarins er fyrir borð borinn í þessu efni. Og það er mikið alvörumál. Það vekur þá spurningu, hvort það sé þá gert á öðrum vettvangi eitthvað betur við iðnaðinn til þess að bæta þetta upp, t.d. í sambandi við bein rekstrarlán til iðnaðarins eða stofnlán. En þegar betur er að gáð, kemur í ljós, að það er ekki gert.

Samkv. nýjum upplýsingum frá Seðlabankanum í hagtölum mánaðarins kemur fram, að útlánaflokkun innlánastofnana stóð þannig í árslok 1973, að þá stóðu hjá iðnaðinum lán að upphæð 4 milljarðar og 201 millj., en hjá sjávarútveginum 5 milljarðar 47 millj., hjá landbúnaðinum 3 milljarðar og 377 millj. En hreyfingar á árinu 1973 eru þær, að á sama tíma sem iðnaðurinn fær 1.2 milljarða, fær landbúnaðurinn á þessum vettvangi 1 milljarð, sjávarútvegur 1.5 o.s.frv. Svipaða mynd má draga upp í sambandi við stofnlánin, en hér er ekki tími til þess.

Ég hygg, að það hljóti allir að sjá, að hér þurfi einhverra aðgerða við og það væri kannske réttari vettvangur að spyrja iðnrh, að því, hvað hann hyggist gera. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hann hafi skilning á því, að það þurfi að gera aðgerðir í þessum efnum, og ég hygg, að það verði að gera ráð fyrir því að aðrir stjórnarstuðningsmenn hafi þá skoðun enn í dag, því að t.d. framsóknarmenn með formann þingflokks Framsfl. í broddi fylkingar og aðra stóra spámenn, eins og fjmrh. og fleiri báru fram þáltill. um þetta mál til þess að efla hlut iðnaðarins í þrjú ár í röð, áður en þeir komust í valdaaðstöðu, en síðan hafa þeir algerlega þagað.

Hér er ekki verið með meting á milli atvinnugreina, en ástandið er alvarlegt, vegna þess að í gegnum iðnaðinn kemur stærsti hlutinn af launagreiðslum í landinu. Ef svo horfir sem nú virðist, að kaup hækki um a.m.k. 30% á þessu ári, þarf iðnaðurinn aukið rekstrarfé einungis af því milli 2–3 milljarða í viðbót, og eitthvað verður að gera. Af þessu sést, hversu ástandið er alvarlegt.