18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Síðustu atburðir í fiskveiðideilunni eru ofarlega í hugum Íslendinga þessa daga. Eins og fram hefur komið í þessum umr., er erfitt að ræða þá atburði í einstökum atriðum hér og nú. Landhelgismálið er stærsta lífshagsmunamál þjóðarinnar. Framvinda þess hefur leitt til harðrar deilu við sterkan andstæðing, sem hefur farið fram með offorsi. Andstæðingurinn hefur nú slakað á um sinn. Forsrh. Breta óskaði viðtals við forsrh. Íslands. Niðurstöður þess viðtals lagði forsrh. okkar fyrir ríkisstj. sína á fundi hennar í gær, fyrir utanrmn. Alþ. og þingflokkana í þeim tilgangi, að öll efnisatriði verði yfirveguð og metin og að Íslendingar leiti enn sem fyrr sameiginlegrar niðurstöðu í þessu örlagamáli. Þessi þáttur málsins er því nú til meðferðar á réttum vettvangi, og ræði ég það ekki frekar hér.

Efnahagsþróunin, verðbólgan, er stjórnarandstæðingum löngum kært ádeiluefni. En hér er nú við óvenjuramman reip að draga, því að auk innlendrar þenslu, sem engum hefur raunar enn tekist að hefta, koma nú til utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik. Áætluð verðhækkun innflutnings í erlendri mynt verður t.d. í ár 10%, en áratuginn 1960–1970 breyttist innflutningsverðlag svo að segja ekki neitt. Kærkomin verðhækkun helstu útflutningsvara okkar verkar líka til aukinnar eftirspurnar og hækkandi verðlags innanlands. Vestmannaeyjaáfallið hefur enn verkað mjög verðbólguaukandi í þjóðfélaginu. Ríkisstj. hefur haft forustu um ýmsar aðgerðir til viðnáms og m. a. leitað samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, og eru ekki hvað síst bundnar vonir við þann þátt viðnámsins.

Stjórnarandstæðingar ræða jafnan margt um skattamál. Þeir skildu þannig við, að skyndibreyting var óhjákvæmileg þegar á fyrsta þingi eftir stjórnarskiptin. Að öðru leyti situr nú enn við sömu lög og þeir létu eftir sig. Við samanburð milli tímabila verður auðvitað að líta á heildarmyndina, en ekki að slíta úr samhengi einstaka þætti. Það má vel minna á það, að beinir skattar eru hlutfallslega miklu lægri hér en í nálægum löndum. Tekjuöflunarkerfið allt er nú í endurskoðun, og ber að leggja megináherslu á sem réttlátasta skattheimtu og svo á það, að skattheimtan dragi ekki úr vilja skattborgaranna til verðmætamyndunar.

Það er ekki vandaður málflutningur að býsnast yfir hækkun fjárl., en geta þess að engu, að tryggingagjöld einstaklinga og sveitarfélaga koma nú í gjaldabálk fjárl. og af framkvæmdaáætlun ríkisins er núna í fyrsta sinni innbyggð í fjárl. Þessi málflutningur táknar í raun og veru blekkingar í milljörðum og dæmir sig vitanlega sjálfur. Hitt er svo staðreynd, að athafnasöm ríkisstj., sem hefur mörg járn í eldi, þarf jafnan á háum fjárlögum að halda.

Forsrh. ræddi sérstaklega í ræðu sinni landhelgismálið og efnahagsmálin og gerði grein fyrir málatilbúnaði ríkisstj. á þessu þingi almennt. Aðrir ráðh. hafa rætt nánar einstaka málaflokka.

Í þingbyrjun á miðju kjörtímabili er ekki heldur úr vegi að bregða upp skyndimynd af almennu verkefnavali ríkisstj. og grunda stöðu nokkurra þýðingarmikilla baráttumála.

Fiskveiðilögsagan var færð út á tilteknum tíma. Við höfum barist á mörgum vígstöðvum í raun og veru og náð mjög merkum áföngum í þeirri baráttu. Enn er þó langt að því marki, sem öll þjóðin keppir að.

Landgræðsluáætlun er í vinnslu, örlagaríkt langtímamál, sem vel ber að vanda. Endurskoðun varnarsamningsins er nýlega hafin í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans, en landhelgismálið hefur, eins og kunnugt er, haft algeran forgang á sviði utanríkismálanna til þessa.

Með tveggja ára kjarasamningum og margvíslegum réttarbótum launþega við upphaf stjórnarsamstarfsins var í stórum dráttum tryggður vinnufriður á fyrri hluta kjörtímabilsins. Nú eru fram undan nýir og vandasamir kjarasamningar. Að því er kemur til kasta stjóravalda, mun ríkisstj. stuðla að lausn, sem tryggi launþegum sem réttlátasta hlutdeild í þjóðartekjunum og atvinnurekstrinum starfsgrundvöll.

Með hækkun tryggingabóta, lágmarkstekjutryggingu og afnámi persónuskatta fengu hinir verst settu þýðingarmikla leiðréttingu. Byrðar, sem orðnar voru mörgum sveitarfélögum óbærilegar, voru fluttar yfir á sameiginlegan sjóð landsmanna. En tryggingalöggjöfin, tekjuöflun hins opinbera og sveitarstjórnarmálin í heild eru nú í endurskoðun.

Það er svo enn til marks um það starf, sem unnið er á sviði löggjafar um þessar mundir, að segja má, að landbúnaðarlöggjöfin í heild sé tekin til athugunar í nánu samráði við samtök bænda, og t. d. í menntamálum er ákaflega fjölþætt löggjöf í mótun.

Ríkisstj. reisti hátt merki byggðastefnu og eflingar íslenskra atvinnugreina. Endurnýjun fiskiskipanna ber strax ríkulegan ávöxt. Nýju togskipin koma til með að dreifast á 30 útgerðarstaði. Árstíðabundið atvinnuleysi hverfur og dýrmæt atvinnutæki, fiskvinnslustöðvar, nýtast betur en nokkru sinni fyrr. Skipulagning loðnuveiðanna barg á fyrstu vertíð hundruðum millj. fyrir þjóðarbúið og verkaði eins og vítamíngjöf í mörgum sjávarplássum. Víðs vegar um land fer nú fram endurbygging fiskiðjuvera og raunar einnig vinnslustöðva landbúnaðarins.

Ýmsar greinar íslensks iðnaðar eiga í erfiðleikum um þessar mundir, m. a. vegna of lítils aðlögunartíma eftir inngöngu Íslands í EFTA og vegna óhagstæðra gengisbreytinga og óhagstæðrar verðlagsþróunar heima og erlendis. — Lánamál iðnaðar hafa frá öndverðu verið í ólestri hér á landi. Þýðingarmiklar úrbætur hafa verið gerðar, bæði varðandi stofn- og rekstrarlán. Verður haldið áfram á þeirri braut, enda er þýðingarmikið, að fjölbreyttur íslenskur iðnaður nái að þróast víðs vegar um land.

Stórfelld átök hafa verið gerð til þess að leysa vanda einstakra iðnfyrirtækja, sem rennt hafa gildum stoðum undir atvinnulíf heimabyggða, en átt í tímabundnum erfiðleikum.

Í raforkumálum er nú unnið jöfnum höndum að stórvirkjun fyrir suðvestursvæðið og að smærri virkjunum vestan-, norðan- og austanlands. Rafvæðing sveitanna er tekin föstum tökum, og verðjöfnun raforku er undirbúin.

Það er einkennandi fyrir málefnastöðuna á hálfnuðu kjörtímabili, hvað víða hefur verið tekið til hendi, svo að um munar, og mörgu þjóðþrifamáli komið á rekspöl. Nú skiptir því öllu, að vel verði á eftir fylgt. Gildir það ekki síst um byggðamálin, og má þar enn minna á nokkur atriði.

Opnun hringvegar umhverfis landið mun marka tímamót. En þær svæðisbundnu áætlanir, sem nú er unnið eftir í samgöngumálunum, eru engir lokaáfangar í sjálfu sér, þótt merkar séu.

Ný hafnalög, heilbrigðislöggjöfin og lög um dvalarheimili aldraðra ákvarða stóraukna þátttöku ríkisins í mannvirkjagerð og innihalda merk skipulagsleg ákvæði. Þessi lög voru sett í fyrra, og nú er að framfylgja þessum lögum.

Breiðholtsáætlunin jók ójafnvægi í íbúðabyggingum. Lög um leiguíbúðir sveitarfélaga eru aðeins fyrsta skref af mörgum, sem stíga þarf í jafnvægisátt.

Byggðasjóður var strax efldur og hefur þegar veitt atvinnulífi margra byggðarlaga mikilsverðan stuðning. En það þarf þó vissulega meira til á því sviði, ef vel á að vera.

Fyrri ríkisstj. felldi niður þá stórkostlegu verðjöfnun vöruflutninga, sem framhaldsfragtin svonefnda var strandbyggðunum í 30 ár. Mþn. undirbýr lagfæringu á þessu sviði. Annar starfshópur leitar leiðar til að færa hluta sameiginlegrar starfsemi þjóðarinnar út í héruðin, og hinn þriðji vinnur að mótun heildarstefnu í byggðamálunum.

Þeirri byggðastefnu, sem Framsfl, og Gísli Guðmundsson alveg sérstaklega var spottaður fyrir til skamms tíma, er nú framfylgt í verki af þessari ríkisstj., og sú stefna nýtur nú vaxandi skilnings meðal allra stjórnmálaflokka og í öllum landshlutum.

Góðir áheyrendur. Í umr. sem þessum ber margt á góma. Ég hef að mestu leitt hjá mér að karpa við aðra ræðumenn um einstök atriði, en ég legg þunga áherslu á það, að landhelgismálið, byggðastefnan og kjör íslenskrar alþýðu í órofa tengslum við vöxt og viðgang íslenskra atvinnugreina eru í mínum augum einhverjir gildastir þættir stjórnmálasamstarfsins, og koma þó vissulega fleiri þættir til.

Ég skal gjarnan taka fram, að sum þau verk, sem ég hef drepið á, eru nú unnin í beinu framhaldi af fyrri ákvörðunum Alþingis og aðgerðum stjórnarvalda þá. En á býsna mörgum sviðum hafa orðið glögg þáttaskil við stjórnarskiptin.

Það er nú svo á vettvangi stjórnmála sem annars staðar í mannlegri tilveru, að sífellt koma á dagskrá vandasöm viðfangsefni og skoðanir eru skiptar um einstök atriði, sem þá þarf að brjóta til mergjar með festu og rósemi. Gildir það ekki síður nú í dag en endranær.

Úrslit síðustu kosninga leiddu til stjórnarskipta og framkölluðu nýja stjórnarstefnu. Verkefnin á þjóðmálasviðinu, eins og þau liggja fyrir í dag, krefjast þess, að þessari stefnu verði framfylgt. — Góða nótt.